fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Maggi Peran vann loksins stríðið við offituna: „Var vansæll fangi í líkama sem var við það að hrynja“

Óðinn Svan Óðinsson
Sunnudaginn 29. júlí 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Guðmundsson eða Maggi Peran eins og hann kallar sig hefur átt í hatrömmu stríði við offitu allt frá því hann man eftir sér. Magnús, sem er búsettur á Selfossi, byrjaði ungur að gera tilraunir til að grenna sig og hefur að eigin sögn verið á misheppnuðum megrunarkúr nær allt sitt líf. Hann náði botninum fyrir tæpu ári en þá ákvað hann eftir enn einn misheppnaðan megrunarkúr að leita sér hjálpar. Hann viðurkenndi ást sína á unnum kjötvörum og hitaeiningaríku sætmeti og pantaði sér tíma hjá Auðuni Sigurðssyni lækni. Skömmu síðar lagðist hann undir hnífinn í aðgerð sem kallast magaermi. Aðgerðin er nokkuð umdeild enda hafa sex einstaklingar látið lífið eftir að hafa undirgengist aðgerðir hjá Auðuni, fjórir á Bretlandi og tveir á Íslandi. Allt gekk þó að óskum hjá Magga og aðgerðin átti eftir að breyta lífi hans.

Sendur í megrun af skólahjúkrunarfræðingi

Eins og áður segir hefur Maggi  barist við aukakílóin frá barnsaldri. „Ég man að ég var sendur í megrun af skólahjúkrunarfræðingnum í Fellaskóla ásamt félaga mínum. Við áttum að fara í göngutúra og borða hollan mat. Við nestuðum okkur upp með fransbrauðssamlokum með hnetusmjöri og sultu. Gengum úr Fellahverfinu upp í Hólagarð þar sem við stálum nammi og tyggjói, fórum með góssið niður í Elliðaárdal, þar sem nestið og þýfið var étið. Svo skildum við ekkert af hverju megrunarkúrinn virkaði ekki,“ segir Maggi kíminn.

Árin liðu en það var ekki fyrr en eftir fermingu sem síga fór á ógæfuhliðina fyrir alvöru. „Þegar ég fermdist hafði ég stækkað hratt og samsvaraði mér vel. Var 180 sentimetrar og 86 kíló en hætti þá að stækka – nema þá á þverveginn. Frá þeirri stundu fór ég að fitna á miklum hraða,“ segir Maggi.

Hann segir vigtina hafa sveiflast töluvert í takt við hjúskaparstöðu. „Á þessum tíma var ég í sambandi en eftir að því lauk þá létti ég mig, allt þar til ég fann mér nýja kærustu en þá tók það sama við. Vigtin reis og fyrir tvítugt var ég kominn yfir 130 kíló. Eftir að þessu fimm ára sambandi lauk var ég bugaður. Mér fannst ég svo feitur og ljótur að ég var viss um að engin kona mundi líta við mér. Ég tók út allt nammi og gos og náði að léttast um 25 kíló og þá fann ég ástina. Hvað gerðist þá? Jú, gamla ofætan fór að verðlauna sig fyrir frábæra frammistöðu með því að borða. Hafa kósíkvöld með nýju ástinni. Kósíkvöldunum fór svo að fjölga, og á endanum voru þessi kvöld orðin samfelld veisla í marga mánuði. Nammi, pítsur, snakk, ídýfur og eðlur voru ekki bara munaður sem ég leyfði mér um helgar – heldur alla daga.“

Fékk áfall þegar hann sá sjálfan sig á hvíta tjaldinu

Í júní 2016 var heimildamyndin Jökullinn logar frumsýnd en þar kemur Maggi lítillega við sögu. Það var þá sem hann áttaði sig á því hvert hann var kominn. „Þegar Ísland keppti við Holland í undankeppninni fyrir Evrópumótið þá fékk Nova mig til að vera með Snapchat-aðganginn þeirra þar ytra. Ég sló á létta strengi og úr varð að Sölvi Tryggvason fékk mig í viðtal fyrir myndina sína Jökullinn logar.

„Þegar ég fór á hana í bíó þá birtist ég á skjánum í svona þrjár sekúndur. Þessar þrjár sekúndur slógu mig. Þarna var maður sem ég ekki þekkti. Vatnaður og feitur en umfram allt vansæll fangi í líkama sem var við það að hrynja. Ég sat í stólnum í bíó og náði ekkert að meðtaka boðskap né stemningu myndarinnar. Sat bara sem dáleiddur og hugsaði „Hvernig gat ég orðið svona? Hvernig gat ég leyft mér að verða svona?“ Þegar heim var komið þá helltist yfir mig óbærileg vanlíðan sem varð til þess að sagði við sjálfan mig: „Nú tekurðu þig á drengur og rífur þig í gang. Ef það gengur ekki þá játarðu þig sigraðan og sækir þér hjálp.“

Við tók síðasta tilraun Magga til að snúa blaðinu. Hann ákvað að fara í grimma megrun og hreinlega svelta sig. Það gekk vel til að byrja með og talan á vigtinni fór að síga. „Ég fór á kúr sem gekk út á það að svelta mig, vera stanslaust svangur. Kílóin hreinlega hrundu af mér og þarna náði ég að fara úr 141,6 kílóum og niður í 116 kíló. Mér leið vel og til að verðlauna mig fyrir vasklega frammistöðu ákvað ég að taka mér verðskuldað „sumarfrí“ og slaka aðeins á. Planið var að leyfa sér aðeins yfir sumarið og byrja svo aftur með haustinu. Þremur mánuðum síðar steig ég á vigtina og viti menn – tæp 20 kíló voru komin aftur.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Uppgjöf

Eftir sumarfríið og vonbrigðin sem því fylgdu ákvað Maggi að standa við samkomulagið sem hann hafði gert við sjálfan sig og leita sér hjálpar. Hann pantaði tíma hjá Auðuni Sigurðssyni lækni og skömmu síðar hafði hann gengist undir aðgerð sem kallast magaermi. Með slíkri aðgerð er maginn minnkaður um 75 til 85 prósent. „Ég fór í aðgerðina 9. september síðastliðinn og þá fór talan á vigtinni að hrapa á ljóshraða. Það gerðist næstum fyrirhafnarlaust en það er ekki eitthvað sem ég er vanur í þeim endalausu kúrum sem ég hef prófað í gegnum tíðina. Eftir aðgerð tekur nefnilega við strangt mataræði sem ég þurfti að fara eftir. Fyrst fljótandi fæði, svo maukað og loks mjúkt. Ég var búinn að búa mig undir það að vera stanslaust svangur og orkulaus eins og ég var vanur á kúrunum en sú varð ekki raunin. Þar sem búið var að taka 85 prósent af maganum þá varð ég fljótt mettur og orkubúið virtist fullt,“ Maggi.

Eftir að hafa jafnað sig eftir aðgerðina og upplifað að kílóin hreinlega runnu af honum ákvað Maggi að taka næsta skref og byrja að hreyfa sig og breyta um lífsstíl. „Um áramótin var ég búinn að missa tæp 33 kíló. Þá ákvað ég að kaupa mér kort World Class og fór að hreyfa mig. Ég vissi í raun ekkert hvað ég var að gera enda ekki lyft lóðum síðan á síðustu öld en til þess að „lúkka“ ekki eins og kjáni þá lá ég yfir Youtube-myndböndum og reyndi svo að herma eftir þeim. Í fyrstu gat ég ekki lyft neinum þyngdum enda vöðvarýrnunin búin að vera mikil eftir aðgerð. En jafnt og þétt hef ég náð að styrkja mig og taka af mér mikla fitu með þeirri einföldu uppskrift að borða hollan mat og hreyfa mig reglulega.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Nýr maður

Í dag er Maggi tæp 80 kíló og hættur að finna fyrir verkjum og eymslum sem höfðu hrjáð hann frá unga aldri. „Ég geng á fjöll og geng sjö kílómetra með hundinn minn án þess að þreytan fylgi mér í nokkra daga á eftir. Ég er mun aktífari og þróttmeiri. Í staðinn fyrir að nota einkabílinn í allar ferðir þá ákveð ég frekar að ganga eða hjóla. Andinn er orðinn léttari og mér líður betur á sál og líkama. Stoðkerfið var að hruni komið. Stanslausir bakverkir og eymsli í hnjám heyra sögunni til,“ segir Maggi.

Maggi hvetur fólk sem stendur í þeim sporum sem hann stóð í fyrir rúmu ári að játa sig sigrað og leita sér hjálpar hjá fagaðilum. „Ef einhver þarna úti er í sömu sporum og ég var í og langar að breyta lífinu, þá þarf hinn sami að játa sig sigraðan og leita sér hjálpar. Aðgerðin sem ég fór í er engin töfralausn. Hún er ekki fyrir alla og með því að fara í hana erum við ofæturnar ekkert hólpnar. Leitaðu þér hjálpar og láttu fagaðila leiðbeina þér. Kúrar virka ekki og allt heilsufæðið sem er allt í kringum okkur er stútfullt af sykri og kaloríum.“

Ljósmynd: DV/Hanna
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af