fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

„Karlmaðurinn hefur takmarkaða getu til að leysa heimilisvanda, eða samskiptaörðuleika af sanngirni … “

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 29. júlí 2018 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var ungur og lék með vinunum, þá var mikið lagt upp úr því að vera karlmannlegur, sterkur, duglegur og alls ekki sína veiklundaðar tilfinningar, því þá væri maður stelpa eða hommi. Það var náttúrulega það versta að vera kallaðu hommi og þann stimpil vildi ég alls ekki hafa á mér. Ef aðstæðurnar voru slæmar heima og mér leið illa, hafði verið skammaður, særður eða orðið vitni af einhverjum uppákomum á heimilinu þá var ekki margt í stöðunni til að fá útrás fyrir tilfinningunum, það mátti alls ekki gráta, ekki  barma sér við vini eða segja einhverjum frá, það sem var hægt var að fara í fótbolta eða finna upp á einhverju uppátæki sem kæmi blóðinu á hreyfingu. Því  strákar eiga að vera sterkir, karlmenn bíta á jaxlinn og bölva í hljóði. Þetta voru skilaboð samfélagsins áður fyrr, eða hvað?

Þrátt fyrir að hafa lagt mig fram við að fylgja tilvísunum samfélagsins, þá leið mér samt oft illa, ég átti í miklum erfiðleikum með tilfinningarnar sem bærðust innra með mér, þetta sem ég mátti ekki sýna, mátti ekki hafa.  Ég hafði þörf fyrir að vera viðkvæmur, jafnvel gráta, mig langaði að tjá mig en því fylgdi skömm, vanmáttur og ótti við dóm annarra.

Kjartan Pálmason.

Tilfinningaleg bæling og tilfinningaleg vanþekking hefur hrjáð mig alla tíð. Þegar ég varð unglingur þá leið mér mjög illa. Til að lifa lifið af í mínu getuleysi varð ég að finna flóttaleið frá vanlíðaninni, eins og flestir þeir sem eru með lágt sjálfsmat og vanlíðan verða að gera. Mín flóttaleið var drykkja. Áfengið hjálpaði mér að fá útrás, hjálpaði mér að tjá mig, gaf mér þor. En vanlíðanin jókst ég kunni engan vegin að vinna úr tilfinningunum svo að smátt og smátt fór ég að missa tökin og í stuttu máli endaði í meðferð eftir 14 ára neyslutímabil.

Líf mitt hefur breyst gífurlega frá því að ég hætti að flýja tilfinningar mínar. Vinnan hefur sannarlega verið þyrnum stráð og oft hefur mig langað að hlaupa frá þessari sjálfsvinnu, eins og máltækið segir: Það er auðveldara að sigra heiminn en sjálfan sig.

Í dag er skilningur minn á mikilvægi tilfinninga allt annar en hann var og flestir sem eitthvað hafa kynnt sér tilfinningarvinnu vita að ef við þekkjum ekki inn á tilfinningarnar okkar þá munum við eiga í erfiðleikum með samskipti, vandræðum með að setja heilbrigð mörk, okkur hættir við að missa stjórn og lífið einkennist af tilfinningarlegu ójafnvægi.

Tilfinningarnar eru lykilatriði í því hvernig við bregðumst við, hvernig við tökum á málum, hvernig við komum fram, hverja við umgöngumst, hvaða aðstæður eru heilbrigðar og hverjar ekki. Tilfinningarnar eru viðvörunarkerfi okkar, leiðarkerfi og lykillinn að frelsi og hamingju.

Geta pabbar ekki grátið?

Ef þú hugsar málið kæri lesandi, þá þekkir þú örugglega einhverja karlmenn sem eiga í vanda með tilfinningar sínar. Og í raun ættir þú að þekkja marga, því tilfinningalega heftur karlmaður er, að mínu mati, hinn hefðbundni karlmaður. Það þykir ekki tiltökumál þó að karlmaður sé tilfinningalega fjarlægur. Það er ekkert óeðlilegt þó svo að hann missi annað slagið stjórn á sér, þó hann bæli tilfinningarnar þangað til hann springur og hafi ekki getu til að ræða málin sem kalla eftir tilfinningalegri samsvörun. Það er bara eðlilegt að karlinn komi heim og fái sér bjór eða áfengi, stundum bara gott því hann verður meyrari, og þó hann missi stundum tökin vegna drykkju, þá er það yfirleitt vegna þreytu eða fjárans áfengið sem er ástæðan. Og svo má ekki gleyma því algengasta, því karlinn vinnur myrkranna á milli, og lítur á sig sem höfuð heimilisins og skaffari hefur hann ekki tíma fyrir neitt tilfinningalegt kjaftæði. Hann forðast í lengstu lög að ræða vandamál heimilisins, jafnvel beitir sér lítið í uppeldinu, hann eru uppstökkur, stöðugt pirraður þegar á að ræða málin, notar þögn, pirring, fálæti, reiði eða fýlu sem stjórntæki, til þess að fá að vera í friði.

Karlmaðurinn hefur takmarkaða getu til að leysa heimilisvanda, eða samskiptaörðuleika af sanngirni, enda snúast samskipti karlmannsins um að vinna eða tapa. Karlinn skilur ekkert í því af hverju konan vill alltaf ræða málin, af hverju hún vill að hann sé meira heima, af hverju hún fer fram á umhyggju, alúð og tilfinningarsemi, jafnvel rómantík. Eina sem hann sér er að konan er alltaf ósátt við allt og allt, hún er alltaf tuðandi.

Þessi yfirborðskennda mynd sem ég dreg hér fram er gífurlega algeng hér á landi og mikill skaðvaldur í samfélaginu okkar í dag, ekki síst hjá fólki sem komið á fertugsaldurinn og yfir.

Samfélagið er yfirfullt af hjónaböndum, samböndum, samskiptum sem eru alls ekki tilfinningalega gefandi og einkennast því af valdabaráttu og vanvirkum samskiptum. Vissulega þarf tvo til, svo að vanvirk samskipti viðhaldist, en mikilvægt er að við karlmenn lítum í eigin barm og áttum okkur á því hversu nauðsynlegt það er að þekkja okkur sjálfa, þekkja tilfinningarnar okkar til að hafa stjórn á þeim. Það er eina leiðin til að eiga gleðileg, uppbyggjandi og hamingjurík samskipti við aðra, eða er það eitthvað þú vilt ekki.

Það er eðlilegt að sýna tilfinningar, hvort sem það er sorg, reiði, grátur, gleði, kvíði, viðkvæmni, gremja, pirringur, kærleikur eða ást, svo eitthvað sé nefnt. Það er lykil atriði að þú gefir þér frelsi til að vera sú tilfinningarvera sem þú fæddist hér á jörðu til að vera. En vita máttu,  til þess þarf gífurlegan kjark, sennilega hinn mesta kjark sem þú hefur þurft að sækja, því stærsta og erfiðasta verkefni lífsins er að þekkja sjálfan sig, sínar innstu þarfir, þrár og langanir og geta kallað eftir þeim á heiðarlegan og einlægan hátt í þeim samskiptum sem við erum í.

Ert þú maður eða mús?

Kjartan Pálmason
Ráðgjafi Lausnarinnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar