fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Dagur B. í lyfjameðferð við sjaldgæfum gigtarsjúkdómi sem skerðir hreyfigetu: „Hélt eiginlega fyrst að ég væri bara fótbrotinn“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 21. júlí 2018 08:00

Dagur B. Eggertsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindist nýlega með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm, svokallaða fylgigigt, sem skerðir hreyfigetu. Þetta kemur fram í viðtali Fréttablaðsins við Dag. Þar segir hann um sjúkdóminn:

Í rauninni getur þetta lagst á allar slímhúðir í líkamanum, slímhúðir í liðunum, líka í augum, í hjartalokum, í meltingarvegi og út um allt. Það eru auðvitað til margar tegundir af gigt, þetta er sjaldgæf tegund, sem kemur í kjölfar sýkinga og hefur mismunandi birtingarmyndir en getur verið alvarleg. Nú er nýja stefnan í fræðunum, sem ég hef lært á samtölum mínum undanfarið, að fara bara inn í mjög kröftuglega meðferð. Manni bregður auðvitað svolítið, þegar maður er farinn að sprauta sig í lærin með lyfjum sem eru notuð til að meðhöndla krabbamein, en það er það sem er gert til að hemja bólgurnar og ná stjórn á þessu.“

Dagur varð fyrst var við einkenni sjúkdómsins er hann fór með bróður sínum og börnum til Rússlands á heimsmeistaramótið í knattspyrnu í sumar:

„Þá rek ég mig í rör á flugvellinum í Rostov. Alveg hrein ristarspyrna, beint í rörið. Og bölvaði því mikið. Ég haltraði út í vél. Daginn eftir fór ég til Vestmannaeyja til að fylgja stráknum mínum á fótboltamót og varð alltaf verri og verri á haltri mínu milli fótboltavalla. Varð að lokum handviss um að ég væri brotinn. Í kjölfarið byrjaði hins vegar vinstri úlnliðurinn að blása upp og síðan öll vinstri höndin. Þetta var veruleg bólga og þessu fylgdu verkir og náttúrulega skert hreyfigeta. Svo ég fór að leita álits lækna. Læknirinn var fljótur að greina þetta sem fylgigigt, sem kemur í kjölfar frekar alvarlegrar sýkingar sem ég fékk í kviðarholið síðasta haust. Ég fékk sem sagt sýkingu út frá ristilpoka sem setti að lokum gat á ristilinn. Það er alvarlegt í sjálfu sér og ég var á fljótandi fæði í mánuð og missti sjö kíló. Auðvitað velti ég fyrir mér hvort það sé að koma í bakið á mér núna að hafa ekki farið rólegar í sakirnar í vetur í stað þess að halda fullri ferð í vinnunni.“

„Fylgigigtin er svona síðbúin árás ónæmiskerfisins, flakkar milli liða og getur lagst á ýmis líffæri. Og hún kom af svona miklum krafti þarna í sumar. Þannig að ég er búinn að vera í miklum rannsóknum og meðhöndlun síðan og er kominn á þessa fallbyssumeðferð til að reyna að slá þetta bara niður.“

Einnig kemur fram í viðtalinu að óvíst að sjúkdómurinn sé krónískur og hann gæti læknast að hluta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af