fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Komst yfir nauðgun með því að kafa í íslenskum sjó

Auður Ösp
Fimmtudaginn 19. júlí 2018 14:10

Kiki Bosch. Ljósmynd/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Kuldinn gerði það að verkum að ég fór út úr hausnum á mér og inn í líkamann. Í fyrsta sinn í marga mánuði tókst mér að gleyma óttanum, efanum og öllu sem ég hafði gengið í gegnum,“segir hollenski fríkafarinn Kiki Bosch í meðfylgjandi myndskeiði. Kiki gekk í gegnum hræðilega lífsreynslu þegar henni var nauðgað en hún segir köfun í nístingsköldum sjó á Íslandi hafa breytt líf sínu og gert henni kleift að komast yfir áfallið. Kuldinn hafi í raun verið hennar haldreipi.

Í myndskeiðinu segir Kiki að hún hafi ekki verið eina fórnarlamb mannsins sem nauðgaði henni. Hún tilkynnti ekki brotið og komst síðar meir að því að maðurinn hafði síðar brotið á annarri stúlku. Kiki segir það hafa verið mikið áfall að fá þær fréttir, og hún hafi verið þjökuð af sektarkennd.

„Ég vissi ekki hvernig ég ætti að takast á við þetta og glímdi við stöðuga vanlíðan og kvíða. Ég kenndi sjálfri mér um að þetta hefði gerst.“

Hún bætir við að með því að stinga sér á kaf í nístingsköldum sjó við Íslandstrendur þá hafi henni tekist að opna fyrir flóðgátt tilfinninga. Líkt og sjá á myndskeiðinu stakk hún einnig á kaf í Silfru á Þingvöllum.

„Þegar þú ert búinn að stinga þér ofan í kuldann þá er engin leið út,“ segir hún.

„Í langan tíma leyfði ég þessu atviki úr fortíðinni að skilgreina hver ég var. En í vatninu er enginn tími fyrir sjálfsniðurrif. Það er enginn tími fyrir sjálfsásakanir. Þetta snýst um það eitt að lifa af,“ segir hún jafnframt og bætir við að með því að komast í þetta hugarástand þá verðum við færari í að komast í tengsl við okkur sjálf. „Og þegar þú lærir að tengja þig við sjálfan þig þá læriru að tengjast öðru fólki. Það er það fallegasta af öllu.“

Í nýlegu viðtali við This Adventure Life lýsir hún þessu þannig:

„Með tímanum fór ég að sækja í ennþá meira í kuldann vegna þess að hann gerði mér kleift að komast að kjarna mínum. Eftir því sem ég vandist kuldanum meira þá varð mér sífellt betur ljóst að þetta áfall skilgreinir ekki hver ég er. Mér tókst að losa mig við skömmina og sársaukann.

Ég er ekki fortíðin mín, og þó svo að þessi atburður hafi breytt mér, þá þarf það ekki endilega að þýða að það hafi breytt mér á neikvæðan hátt. Kuldinn kenndi mér það að við búum öll yfir þeim náttúrulega eiginleika að geta læknað okkur sjálf. Þegar við náum að komast í það ástand þá erum við fær um að gera mikið meira en við höldum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af