fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Kjartan Atli: „Að ná langt getur þýtt að læra að leggja sig fram í öllu sem maður gerir“

Auður Ösp
Þriðjudaginn 17. júlí 2018 17:00

Kjartan Atli Kjartansson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það jafnast ekkert á við það að sjá leikmann „ná þessu“; gera einhverja snilld. Það jafnast ekkert á við að sjá unga leikmenn temja sér vinnusiðferði sem maður veit að mun skila sér út í lífið,“ segir Kjartan Atla Kjartansson fjölmiðlamaður og körfuboltaþjálfari. Í stuttri hugvekju á facebook kemur hann inn á mikilvægi góðs vinnusiðferðis í íþróttum, þar sem þrautseigja og fórnfýsi skipta höfuðmáli. Færslan er ekki aðeins holl lesning fyrir íþróttafólk, heldur ættu allir að geta tekið til sín þennan boðskap. Ekki síst þeir sem vilja skara fram úr og ná markmiðum sínum í lífinu.

Kjartan Atli er flestum kunnugur sem íþróttafréttamaður á Stöð 2 en hann lék áður fyrr með meistaraflokki Stjörnunnar og er í dag þjálfari minnibolta drengja og stúlkna hjá sama félagi.

„Ég pældi í því í dag, þegar 11 og 12 ára guttarnir mínir voru inni á körfuboltaæfingu í sólinni, hvort við værum eitthvað pínu brenglaðir. Eflaust er eitthvað til í því, enda þarf maður að vilja eitthvað rosalega mikið ef maður ætlar að ná langt.

Strákarnir eiga hrós skilið fyrir að mæta og gera drillurnar sem eru settar upp fyrir þá, enda trúir þjálfarinn þeirra á endurtekningar. En þó þannig að þær séu skemmtilegar,“

ritar Kjartan Atli og bætir við að þrátt fyrir gott gengi þá hafi ekki komið til greina að setja fæturna upp í loft. Þess í stað héldu þeir ótrauðir áfram.

„Þessir strákar hefðu alveg getað slakað á í sumar. Hópurinn varð Íslandsmeistari og sendum við sex lið til keppni, auk tveggja árinu yngri; samtals átta lið frá Stjörnunni sem öllum gekk vel. En í staðinn höfum við æft, tókum viku í pásu. Og svo bara aftur í vinnuna.

Ég hef unnið með þessum strákum í rúm tvö ár. Við höfum kannski náð fjórum til fimm vikum í pásu SAMTALS. Öll jól, páska og vetrarfrí er æft. Síðasta sumar var æft, tekin smá pása í lok júlí og aðeins fram í ágúst.

Fyrir mér er þetta nefnilega einfalt; til að ná langt þarf að æfa vel. Og að ná langt þýðir ekki endilega að verða atvinnumaður. Að ná langt getur þýtt að læra að leggja sig fram í öllu sem maður gerir, langsamlega dýrmætasta lexían sem börn læra í íþróttum.“

Kjartan Atli viðurkennir fúslega að sumir dagar kalli á meiri sjálfsaga og hörku heldur en aðrir. Það er þó ávallt þess virði.

„Stundum er þetta hundleiðinlegt. Sem þjálfari á maður oft erfitt með að rífa sig upp á aukaæfingar, gera ráðstafanir með vinnu, púsla deginum saman með tilliti til fjölskyldunnar. En fyrir mér er þjálfun ábyrgð. Manni er falið að kenna íþróttina, manni er falið að miðla þeim gildum sem eru í hávegum höfð innan íþróttanna – og bara í lífinu sjálfu. Þá ber manni skylda til að leggja á sig og bæta alla sem maður vinnur með.

En þó þetta sé stundum leiðinlegt og erfitt, þá er þetta oftast skemmtilegt og erfitt. Það jafnast ekkert á við það að sjá leikmann „ná þessu“; gera einhverja snilld. Það jafnast ekkert á við að sjá unga leikmenn temja sér vinnusiðferði sem maður veit að mun skila sér út í lífið. Og þessir drengir eru svo yndislega skemmtilegir; metnaðarfullir en samt til í djókið.“

Kjartan endar færsluna á því að segja að þáttökumedalíur skipti í raun engu máli í íþróttum. „Það sem mestu máli skiptir er vinnusemi, umgjörð, dugnaður og fórnfýsi. Ef þetta er til staðar hjá iðkendum, þjálfurum og foreldrum, þá eru allir vegir færir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af