fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Íslendingur óskaði eftir hjálp við að fremja sjálfsvíg – Viðbrögðin komu á óvart

Ritstjórn DV
Mánudaginn 16. júlí 2018 20:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslendingur á vefsíðunni Reddit spurði fyrr í dag hvernig væri best að taka eigið líf án mikils sársauka. Fjöldi Íslendinga nota síðuna og er þar sérstakur undirflokkur ætlaður málefnum Íslands. Allar nota dulnefni og sjaldnast hægt að rekja viðkomandi. Margir takast á við kvíða og depurð á Íslandi. Má nefna að um 15 þúsund mál berast inn á borð Rauða krossins í gegnum Hjálparsímann 1717. Þá hefur DV bent á að fólki í sjálfsvígshættu er ekki nægilega vel sinnt af heilbrigðiskerfinu og dæmi um að fólki í lífshættu hafi verið vísað af geðdeildum. Þá hugsar um helmingur ungmenna um sjálfsvíg á einhverjum tímapunkti. Einnig deyja fleiri vegna sjálfsvíga en vegna bílslysa hér á landi en um 25 – 50 falla fyrir eign hendi ár hvert.

Íslendingurinn sem tjáði vanlíðan sína á Reddit sagði:

. Getur einhver sagt mér hvernig ég get drepið sjálfan mig á sársaukalausan hátt. Var að hugsa um að skera mig og láta blæða úr mér en held að það væri ekki nóg til þess að drepa mig,“ skrifar Íslendingurinn.

Viðbrögð Íslendinga á síðunni voru öll á einn veg. Allir reyndu að fá hann af þessu glapræði. „Þú ert alltof dýrmæt manneskja til að taka eigið líf,“ skrifar einn notandi. Annar gefur honum góð ráð: „Mjög fáar sársaukalausar leiðir til, mannslíkaminn er mjög sturdy. Bið þig samt innilega að leita þér hjálpar og tala við einhvern. Bráðaþjónusta geðsviðs Landspítalans er hér, sími 543 4050.“

Annar notandi segir honum að hringja í 1717, hjálparsíma Rauða krossins. „1717 er frítt númer. Kostar þig ekkert nema smá tíma. Ég átta mig á því að þú sért ekki að sjá neitt nema lokaðar leiðir, en ég lofa þér því að það eru opnar leiðir þarna.

Mesti sársauki sem ég hef upplifað var þegar nákominn frændi minn tók eigið líf, við hin sem stóðum honum næst sitjum öll uppi með sársaukann um ókomna tíð, gerðu okkur öllum það að hringja í númerið og leitaðu þér aðstoðar,“ segir Reddit-notandinn.

Þá segir annar notandi: „Þú ert alltof dýrmæt manneskja til að taka eigið líf […] leitaðu aðstoðar hjá Geðsviðs Landspítalans.“

Annar notandi segist líka þekkja sársaukann á eigin skinni. „Það eru 8 ár síðan að bróðir minn fór sér. Það tortímdi fjölskyldunni okkar og það líður ekki dagur án þess að ég óski þess að ég hefði getað stöðvað hann. Sjálfsvíg lagar ekki sársaukann heldur færir hann yfir þá sem eru næst þér. Ég veit ekki stöðuna þína en hversu shitty sem hún er er þessi „lausn“ varanleg. Ég lofa, lofa lofa þér að eftir eitt ár, fimm ár, tíu ár muntu líta aftur og þakka þér fyrir að hafa ekki gert neitt,“ segir viðkomandi. Þá bauðst annar til að hitta manneskjuna sem var að glíma við depurð: „Er alveg til í að hangsa saman.“ Þá þakkaði sá sem setti inn upphafsinnleggið fyrir allan stuðninginn.

Vandinn er eins og áður segir mikill í íslensku heilbrigðiskerfi. Magnað var að sjá hvað Íslendingar voru snöggir til að veita manneskjunni sem átti við þessa miklu vanlíðan að stríða stuðning á ögurstundu.

DV, líkt og Íslendingar á Reddit, bendum á símaþjónustu Læknavaktarinnar 1770 og hjálparsíma Rauða krossins 1717, bæði númer eru ókeypis og opin allan sólarhringinn. Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun. Bráðaþjónusta geðsviðs Landspítalans þar er sími 543 4050 .

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af