fbpx
Mánudagur 22.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

20.000 manns létust í snjóflóði – Flestir sem lifðu af voru í kirkjugarði – Trúður kom til bjargar

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 1. júlí 2018 10:00

Bærinn Yungay var gerður að þjóðargrafreit sem ekki má hreyfa við í kjölfar hörmunganna.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Klukkan 15.23 þann 31. maí 1970 varð gríðarlega öflugur jarðskjálfti undan ströndum Perú en styrkur hans mældist 7,9. Skjálftinn hefur verið nefndur The 1970 Ancash earthquake (Ancash-jarðskjálftinn 1970).

Hann fannst í borginni Chiclayo í norðurhluta Perú og allt til höfuðborgarinnar Lima í rúmlega 650 km fjarlægð. Gríðarlegt tjón varð í skjálftanum og þá sérstaklega í strandbæjum nærri upptakasvæði skjálftans og í Santa River-dalnum.

Það jók á eyðilegginguna að byggingatæknin var víða ekki upp á marga fiska og mörg hús höfðu verið reist á óstöðugu undirlagi. Tugir þúsunda manna létust og slösuðust þegar hús hrundu. Skjálftinn varði í um 45 sekúndur.

Áhrifasvæði skjálftans var um 83.000 ferkílómetrar en það er stærra en Holland og Belgía til samans. Skjálftinn fannst einnig í mið- og vesturhluta Brasilíu og í Ekvador. Lítils háttar tjón varð þar en ekkert í líkingu við það sem varð í Perú.

Gríðarlegt tjón varð á innviðum og efnahagslegt tjón var metið á rúmlega hálfan milljarð bandaríkjadollara.

Borgir, bæir, þorp, heimili fólks, fyrirtæki, opinberar byggingar, skólar, raflagnir, vatnsveitur, fráveitur og ýmislegt annað skemmdist mikið eða eyðilagðist í skjálftanum. Í Chimbote, Carhuaz og Recuay eyðilögðust allt að 90 prósent bygginga en um þrjár milljónir manna bjuggu þar.

Björgunarstarf var erfitt og gekk seinlega þar sem vegir skemmdust víða og voru ófærir.

Enn meiri hörmungar

Í kjölfar skjálftans féll gríðarlega stórt snjóflóð úr hæsta fjalli Perú, Mount Huascarán, sem er í vesturhluta Andesfjalla. Þar geystist snjór í bland við jarðveg niður hlíðarnar á ógnarhraða og skall á bænum Yungay og gjöreyddi honum.

Þá fór stór hluti af þorpinu Ranrahirca undir flóðið sem og mörg önnur þorp á svæðinu.

Norðurhlíð Huascarán var óstöðug eftir hinar miklu hreyfingar á jarðskorpunni og því geystist snjór og jarðvegur af stað niður hlíðarnar. Flóðið samanstóð af jökulís í upphafi og var um 910 metrar á breidd og 1,6 km á lengd.

Það rann um 18 kílómetra leið að þorpinu Yungay og var meðalhraði þess 280 til 335 kílómetrar á klukkustund.

Á leiðinni sópaði flóðið jarðvegi og öðru sem fyrir því varð með sér. Þegar það skall á Yungay er talið að það hafi innihaldið 80 milljónir rúmmetra af vatni, jarðvegi, steinum og snjó. Ekkert stóð í vegi fyrir flóðinu sem kom á ógnarhraða niður hlíðarnar með þessu gríðarlega magni af snjó og jarðvegi.

Flestir sem lifðu af voru staddir í kirkjugarði

Talið er að um 20.000 íbúar bæjarins hafi látist í flóðinu. Flestir þeir sem lifðu flóðið af voru staddir í kirkjugarði bæjarins eða íþróttaleikvangi hans en þessir staðir stóðu á hæstu punktum bæjarins. Margir höfðu farið í kirkjur í kjölfar skjálftans til að biðjast fyrir en sluppu ekki lifandi úr þeim.

Meðal þeirra sem björguðust voru 300 börn en þau voru að horfa á sirkussýningu á íþróttaleikvanginum þegar flóðið skall á bænum. Það er öðrum eftirlifendum minnisstætt að trúðurinn í sirkusnum bjargaði börnunum með því að reka þau upp tröppurnar að kirkjugarði bæjarins sem stóð enn hærra en íþróttaleikvangurinn.

Í kjölfar hamfaranna var Yungay lýst sem þjóðargrafreit sem ekki má hreyfa við. Nýr bær, sem hlaut sama nafn, var byggður rúmlega einum kílómetra norðan við upphaflega bæjarstæðið.

Þagnarmúr yfirvalda

Átta árum fyrir hörmungarnar voru tveir bandarískir vísindamenn, David Bernays og Charles Sawyer, að störfum á svæðinu.

Þeir tilkynntu yfirvöldum að jökull væri að grafa undan klettabelti sem gæti í framhaldinu hrunið niður og fallið sem skriða á Yungay. Fjallað var um þetta í dagblaðinu Espreso þann 27. september þetta ár. Í kjölfarið fyrirskipuðu stjórnvöld í Perú þeim að draga þessar staðhæfingar sínar til baka eða enda í fangelsi. Þeir sáu sér engra annarra kosta völ en flýja land. Íbúum á svæðinu var bannað að tala um þetta. En átta árum síðar rættist spádómur þeirra Bernays og Sawyer.

Í heildina létust rúmlega 74.000 manns í þessum miklu hamförum. 25.600 týndust og 143.000 slösuðust. Ein milljón manna stóð eftir heimilislaus.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Óskar Ellert er látinn: „Það er einhver æðri máttur sem verndar mig“

Óskar Ellert er látinn: „Það er einhver æðri máttur sem verndar mig“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd dagsins: Helga Arnardóttir gengur með væntanlegt áramótabarn

Mynd dagsins: Helga Arnardóttir gengur með væntanlegt áramótabarn
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Barnið mitt er ekki einhverft“

„Barnið mitt er ekki einhverft“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Rifnar gallabuxur eru ekki sniðugar í sólinni – Sjáðu myndirnar

Rifnar gallabuxur eru ekki sniðugar í sólinni – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lúsmý leikur landann grátt – Svona slærðu á óþægindin

Lúsmý leikur landann grátt – Svona slærðu á óþægindin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stórfurðuleg mynd af Guðna vekur athygli – „Þarna var einhver töframaður sem vildi sýna kúnstir sínar“

Stórfurðuleg mynd af Guðna vekur athygli – „Þarna var einhver töframaður sem vildi sýna kúnstir sínar“