fbpx
Miðvikudagur 20.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Ísland Argentína á Listahátíð: Fótbolta og hljóðlistagjörningur í tilefni af HM – Hvað er það eiginlega?

Guðni Einarsson
Laugardaginn 9. júní 2018 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það vita eflaust flestir að þann 16. júní næstkomandi mun Ísland etja kappi við Argentínu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Moskvu. Það vita hins vegar færri að sama dag mun hljóðlistakonan og listamaðurinn Þóranna Björnsdóttir efna til gjörnings á Listahátíð Reykjavíkur undir heitinu Ísland – Argentína.

Þóranna ætlar að færa þennan sögulega fótboltaleik inn á dagskrá Listahátíðar með hljóðlistina að vopni þar sem hún skapar hljóðheiminn, innblásinn af framvindu leiksins.

Guðni Einarsson hitti Þórönnu á dögunum og fræddist um listamanninn og gjörninginn Ísland – Argentína.

Hver er Þóranna Björnsdóttir?

Ég er starfandi listamaður og listakennari. Ég er fædd á Íslandi og hef búið hér meirihluta lífs míns. Ég er alin upp í umhverfi þar sem tónlist hafði mikið vægi, tónlist var ýmist spiluð eða sungin. Þetta hafði mótandi áhrif og varð til þess að ég fór í tónlistarnám.

Á þeim vettvangi leitaði ég ýmissa leiða til að tjá mig og kláraði burtfararpróf frá FÍH í klassískum píanóleik. Á þeim tímamótum langaði mig til að víkka hugann og þyrsti í að skoða hvernig ólíkar listgreinar mætast.

Ég sótti þar af leiðandi um í Listaháskólanum í Haag í Hollandi þar sem reyndi á þverfaglega nálgun í listsköpun. Deildin mín vann að verkefnum í Listaháskólanum og í Tónlistarháskólanum í Haag og fékk ég svigrúm til þess að þjálfa huga og hönd frekar og reyna ýmsar leiðir við smíðar og samsetningar með ólík efni, sjónrænt og með hljóð og tónlist.

Þarna kynntist ég raftónlistinni betur og uppgötvaði ýmsar leiðir til tónsmíða.

Hljóð eru ósýnileg en þegar ég veiti hljóði athygli þá er ég að hlusta, skynja, skilja og tengjast umhverfinu sem eykur næmni mína fyrir blæbrigðum og margbreytileika innra og ytra umhverfis.

Í Hollandi lærði ég frekar að taka sjálfstæðar ákvarðanir við mótun, úrvinnslu og framkvæmd eigin verka sem og auka næmni mína gagnvart innsæi mínu og hugmyndaflugi. Innsæið er mikilvægasta tækið í listsköpuninni.

Frá því að hugmynd fæðist þar til þú ert komin með fullmótað verk er langt og strangt ferli þar sem gefa verður innsæinu pláss og traust þar til þeir þættir sem bera verkið uppi smella saman. Þannig verður verkið framlenging af manni sjálfum, birtingarmynd ólíkra hugmynda, færni, drauma og persónueinkenna sem renna saman eða þéttast í áþreifanlegt eða áheyrilegt form.

Hvernig lýsir þú list þinni?

Starf mitt sem listamaður felur í sér þverfagleg vinnubrögð og þreifingar. Ég hef unnið þvert á miðla og leyfi hugmyndum að móta efnistökin eftir því sem mér finnst viðeigandi hverju sinni. Ég fæ innblástur víða að; frá vísindum og heimspeki, úr daglegu lífi, frá upplifun listaverka, frá veðri og náttúru og úr tilfinningalífinu.

Úrvinnsla hugmynda byggir svo á fegurðarþrá og lífsþorsta; að finna fyrir mennskunni og náttúru og uppgötvunum á mörkum ljóss og myrkurs. Ég reyni að lifa og skapa með opnum huga og hjarta og umgengst umhverfið á rannsakandi máta og gaumgæfi fyrirbærin í kringum mig.

Hvernig lítur þú á hljóðlist?

Ég hef unnið mikið með hljóð. Frá unga aldri hef ég leikið mér að því að veiða eða einangra hljóð í umhverfinu og rýna í þau. Hljóð eru spennandi og kveikja innra með manni ótal myndir og hugrenningatengsl.

Fyrsta skrefið í að vinna með hljóð sem listrænan miðil er að hlusta. Hljóðlist og áhersla á upplifun hljóðs í listsköpun markar upphaf á 20. öldinni þegar listgreinar fóru að renna saman. Eðli hljóðlistar er þverfagleg og útfærslan margs konar.

Hvernig er vinnuferlið þitt?

Hljóð eru ósýnileg en þegar ég veiti hljóði athygli þá er ég að hlusta, skynja, skilja og tengjast umhverfinu sem eykur næmni mína fyrir blæbrigðum og margbreytileika innra og ytra umhverfis.

Vegna eðlis síns getur hljóð haft gífurleg áhrif á líkama okkar og vellíðan og virkjað minningar og tilfinningar. Oft verð ég gagntekinn af einhverju hljóði og þegar ég er búin að fanga það í upptöku þá vinn ég með áferð þess og blæbrigði á músíkalskan hátt. Þá leyfi ég hljóðinu að tala til mín og það sem birtist innra með mér þegar ég hlusta hefur mikil áhrif á útkomu verksins.

Hljóðheimurinn er leiðandi í verkum mínum hvort sem það er við gerð hljóð-/tónverka eða myndverka og skúlptúra.

Hvað finnst þér um listalífið á Íslandi?

Mér finnst listalífið á Íslandi vera í miklum blóma. Ég vinn með listamönnum úr ólíkum áttum og það er ansi magnað þegar maður finnur samhljóm með öðrum í listsköpuninni.

Það er afar mikilvægt í okkar smáa samfélagi að listamenn tali og vinni saman, þenji sjáöldrin og leggi við hlustir; séu greinandi og gefandi gagnvart umhverfi sínu og með rásirnar tengdar út í heim. Listamenn hafa ákveðna sérstöðu hér á landi og í raun ríkir hér mikil friðsæld til listsköpunar, það kann ég að meta.

Um hvað fjallar verkið Ísland – Argentína og hvernig fékkstu hugmyndina að verkinu?

Verkið Ísland – Argentína er gjörningur. Gjörningurinn felst í því að færa þennan mikilvæga og sögulega fótboltaleik inn á dagskrá Listahátíðar. Þannig er íþróttaleiknum stillt upp á sama vettvangi og listsköpuninni og þrátt fyrir að annað sé óháð hinu felst hvort um sig í því að færa áhorfendur inn í annan heim; leiða þá áfram í sameiginlegum draumi um tíma.

Fótboltinn sameinar og sundrar, ærir fólk úr spennu alls staðar í heiminum. Fólk gagnrýnir ekki eða efast um reglur og táknkerfi leiksins heldur felst áhugi manna í því að fylgjast með líkamlegri fimi og sköpunarkrafti leikmanna á vellinum og hvernig liðsheild og liðsandi sigrast á andstæðingnum. Allur tilfinningaskalinn virðist njóta sín í fótboltanum og vonin um sigur sem býr í brjósti manna er magnað hreyfiafl.

Það er í raun hægt að sækja sér endalausan innblástur til listsköpunar úr þeim aðstæðum sem fótboltaleikurinn býr til.

Leikurinn Ísland – Argentína er sérstaklega áhugaverður fyrir þær sakir að þarna eru að mætast lið frá svo ólíkum menningarheimum og litrófið stórkostlegt. Í Argentínu virðist fótboltinn snúast um trúarbrögð og fyrir þeim er þetta ekki einungis spurning um að vera með á HM heldur að vinna mótið.

Velgengni íslenska karlalandsliðsins kemur mönnum á óvart erlendis þó að við Íslendingar virðumst skilja og skynja hvað það er sem hefur komið því svona langt enda slá hjörtu okkar í takt þegar kemur að þessari velgengni.

Það er fallegt.

Gjörningurinn á Listahátíð verður skemmtilegur og krefjandi og það er tilvalið að spreyta sig á þennan hátt. Tónlist hefur óendanlega breitt tjáningarsvið og hentar því vel inn í heim fótboltans. Ég mun spila mig inn í leikinn með þau tæki og tól sem ég bý yfir og reyna að vinna líkt og þessir stórkostlegu skapandi og útsjónarsömu leikmenn sem þarna keppa.

Viðburðurinn fer fram þann 16. júní í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsinu og hefst kl. 13.00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Signý brenndist illa tveggja ára gömul: „Það var eins og í martröð“

Signý brenndist illa tveggja ára gömul: „Það var eins og í martröð“
Fókus
Í gær

Sjónvarpsmamma missti 135 kíló: Handtekin fyrir vörslu eiturlyfja

Sjónvarpsmamma missti 135 kíló: Handtekin fyrir vörslu eiturlyfja
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hlustaðu á lagið sem komst ekki í Söngvakeppnina

Hlustaðu á lagið sem komst ekki í Söngvakeppnina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Paris Jackson á spítala eftir sjálfsvígstilraun

Paris Jackson á spítala eftir sjálfsvígstilraun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Yfirheyrslan – Sigurður Þ. Ragnarsson: „Ég get orðið fjári reiður ef mér misbýður“

Yfirheyrslan – Sigurður Þ. Ragnarsson: „Ég get orðið fjári reiður ef mér misbýður“
Fókus
Fyrir 4 dögum

5 sem hefðu getað tekið við sem dómsmálaráðherra

5 sem hefðu getað tekið við sem dómsmálaráðherra