fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Um 70% sakfellingarhlutfall í kynferðisbrotamálum

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 5. desember 2018 22:00

Kolbrún Benediktsdóttir segir að umræðunni hætti til að vera svart hvít

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögunum birti Agnes Bára Aradóttir brot úr skýrslutöku yfir manni sem hún kærði fyrir nauðgun. Ekki var gefin út ákæra í málinu þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellis, þrátt fyrir að sakborningur virðist játa að hafa gert sér grein fyrir að kynferðislegir tilburðir hans væru brotaþola í óþökk.
Blaðamaður settist af þessu tilefni niður með Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara til að ræða um rannsóknir og saksókn kynferðisbrota á Íslandi.

Játning ekki sama og játning

Við meðferð sakamáls er krafist milliliðalausrar sönnunarfærslu fyrir dómi. Í því felst að sönnunargagna skuli aflað og þau færð fram fyrir dómara. Ef játning er gefin við við skýrslutöku hjá lögreglu en sakborningur neitar sökum fyrir dómi þá gerir þessi krafa um milliliðalausa sönnunarfærslu það að verkum að játning fyrir lögreglunni getur haft minna gildi. Komi því ekki til frekari gögn gegn sakborningi er varhugavert fyrir dómara að fella dóm á grunni slíkrar játningar einnar saman.

Um þetta segir Kolbrún að það nægi ekki í öllum tilvikum að sakborningur játi eitthvað við skýrslutöku hjá lögreglu. „Það þarf alltaf að fara yfir gögnin og meta það hversu líklegt sé að játningin sé rétt og hvort í málinu finnist fyrir gögn sem styðja við játninguna. Eftir því sem brot eru alvarlegri aukast kröfur til játningarinnar og til þess að hún styðjist við önnur gögn.“ Kolbrún minnir á að bæði ákæruvald og dómsvald beri lagaleg skylda til að viðhalda hlutleysi í öllum sínum störfum. Markmið þeirra er að leiða í ljós hið sanna og rétta.

Kolbrún getur ekki tjáð sig um einstaka mál en tekur þó fram að í opinberri umræðu um kynferðisbrot liggi ekki fyrir öll gögn málsins en það geti gefið almenningi bjagaða mynd af málum. Vissulega getur játning haft áhrif á rannsókn máls en eftir því sem brotin eru alvarlegri eykst krafan um að hún sé studd gögnum. Kolbrún segir það óalgengt í nauðgunarmálum að sakaðir játi á sig sakir, ólíkt því sem tíðkist oft í öðrum brotaflokkum.

Sönnunarfærslan ekki þyngri, heldur torveldari

Í umræðunni er oft hent fram fullyrðingu um þyngri sönnunarfærslu í kynferðisbrotamálum. Kolbrún telur það byggt á misskilningi. „Reglurnar um sönnunarbyrði eru alltaf þær sömu. Það er ákæruvaldið sem ber sönnunarbyrðina og þarf að sanna allt það sem er hinum kærða í óhag.“

Sérstaða kynferðisbrota felist þó í hvers konar sönnunargögnum ákæruvaldið hafi úr að moða. Í nauðgunarmálum skiptir framburður brotaþola og geranda oft mestu og stundum er engum öðrum gögnum fyrir að fara. „Við erum oftast með tvo framburði, geranda og þolanda.“ Því skiptir framburður einstaklinga mun meira máli í brotaflokknum heldur en til dæmis í efnahagsbrotamálum þar sem oftast er fyrir að fara sýnilegum og áþreifanlegum sönnunargögnum og framburður getur því skipt þar mun minna máli en ella þegar mikið af sönnunargögnum liggur fyrir.

Þegar ákæruvaldið er að meta hvort ákæra verði gefin út í einstöku máli þarf að fara vel yfir framburð málsaðila. „Við erum þá að kanna hvort innbyrðissamræmi sé í frásögn aðila.“  Þó er þess ekki krafist að aðilar greini frá atvikum nákvæmlega eins milli skýrslutakna og til þess tekur ákæruvaldið fullt tillit og hefur hlotið þjálfun í að meta eðlilegt misræmi. Mikið af tíma saksóknara fer í að horfa á myndbandsupptökur af skýrslutökum til að gera trúverðugleikamat á framburði. Eðlilegt misræmi getur til dæmist falist í því að brotaþoli eða meintur gerandi séu í miklu uppnámi við upphaflega skýrslutöku, vegna þá brots eða handtöku, einnig getur tími liðið milli þess sem skýrslur eru teknar af sama aðila. Staðan torveldist þegar framburður beggja aðila eru metnir trúverðugir og ekki eru til frekari sönnunargögn. „Við þurfum að fara eftir sönnunargögnunum og ef ég hef ekkert í höndunum nema tvo trúverðuga framburði og engin önnur gögn, þá hef ég í rauninni ekki neitt og ber lagaleg skylda til að fella málið niður.“ Þetta stafar af því að saksóknarar eiga ekki að fara með mál fyrir dóm nema þeir telji það líklegt til sakfellis. „Ef við teljum að þarna sé eitthvað sem getur stutt við framburð, þá ákærum við.“

Hversu líklegt til sakfellis?

En þá vaknar spurningin um hversu viss saksóknari þurfi að vera í sinni sök til að fara með mál fyrir dóm. Hundrað prósent? Öll mál yfir fimmtíu prósentum? „Þetta er mjög áleitin spurning fyrir saksóknara að spyrja sig. Flestir sem vinna á þessu sviði eru sammála um að mörkin liggi markvert lægra í kynferðisbrotamálum en í öðrum brotaflokkum og við látum frekar reyna á þau heldur en önnur brot.“

Varðandi tölfræði yfir sakfellingar í kynferðisbrotamálum, segir Kolbrún að þær tölur séu í beinu samhengi við það sem að framan segir, saksóknarar reyna frekar að sækja kynferðisbrotamál þó svo þeir meti líkur til sakfellingar lægri en í öðrum málum, en hlutfall sakfellinga í kynferðisbrotamálum er svona í kringum 70%, sem er töluvert lægra en í öðrum brotaflokkum. „Ef sakfellingahlutfallið í kynferðisbrotum yrði 90% þá þætti mér við saksóknarar ekki vera að sinna hlutverki okkar. Það er eðlilegt að þetta hlutfall sé lægra út af þeirri sérstöðu sem brotaflokkurinn hefur.“

Kolbrún segir að margt hafi breyst til batnaðar á síðustu misserum. Rannsóknarvinnan hefur batnað mikið, reynt er að sækja fleiri mál og dómstólar farnir að veita gögnum á borð við sálfræðiskýrslur mun meira vægi en til dæmis fyrir 20 árum.

Gæði framburðar og hversu fljótt mál koma inn á borð lögreglu skiptir miklu máli

„Það er mikið vald sem felst í ákæruvaldinu og með það þarf að fara varlega.“ Þetta segir Kolbrún og tekur fram að vegna þessa ábyrgðarhlutverks og þeirrar sérstöðu sem kynferðisbrot hafa innan refsivörslukerfisins þá sé stöðugt reynt að gera betur. „Þar sem sönnunarfærslan í þessum málum kjarnast um framburði þá skiptir höfuðmáli að við fáum góðan framburð strax í upphafi. Á það höfum við lagt áherslu.“ Lögreglumenn sem að slíkum málum koma fá fræðslu um hvernig eigi að taka slíkar skýrslur, hvernig spurninga beri að spyrja, og hvernig eigi að nálgast slík samtöl. „Góður undirbúningur og góð þjálfun skiptir rosalegu máli, sem og hversu fljótt málið kemst til vitundar lögreglunnar, bæði upp á framburð sem og möguleikann á að tryggja sönnunargögn ef þeim er til að dreifa

Þetta erum við alltaf að reyna að bæta, takmark okkar með sakamálarannsókn er að fá hið sanna og rétta fram. Þá skiptir meginmáli að umbúnaður í kringum skýrslutökur sé með þeim hætti að við fáum réttan og góðan framburð.“

Ekkert kerfi hafið yfir gagnrýni

Gjarnan hefur verið spurt til hvers brotaþolar ættu að standa í því að kæra, ólíklegt sé að það erfiði skili þeim einhverju og kerfið sé þeim óvinveitt. „Ekkert kerfi er hafið yfir gagnrýni,“ segir Kolbrún, kerfið hafi batnað mikið en alltaf megi gera betur. „En það er vont þegar við tölum kerfið niður.“

„Við erum með hlutlausa lögreglu og ákæruvald og það verður aldrei 100% ákært og 100% sakfellt í kynferðisbrotum. Við getum hins vegar bætt vinnuferlana hjá okkur, bætt rannsóknirnar okkar svo við getum betur fengið fram hið sanna og rétta.“

Við skýrslutöku lögreglu hefur brotaþolum fundist eins að að þeim sé ráðist þegar spurt er um áfengisdrykkju, klæðaburð og álíka. Kolbrún segir að þessar spurningar séu hluti af verklagi lögreglu og geti skipt miklu máli til dæmis varðandi það hvort meintur gerandi hafi notfært sér ölvunarástand, hvort að í fatnaði finnist einhver lífsýni eða til að aðstoða lögreglu við að greina brotaþola á upptökum úr eftirlitsmyndavélum. Lögreglumaðurinn fer eftir ákveðnu verklagi og þarf að fá ákveðin atriði fram til fá sem mest af upplýsingum úr skýrslutökunni.

Kolbrún segir kerfið vilja gera betur

Vilja bæta upplifun brotaþola

Í dag hafa lögregla og ákæruvaldið sett það sér markmið að bæta reynslu og upplifun einstaklinga af kerfinu. Vilja þau að brotaþolar geti litið til baka og sagt: „Ég er samt ánægður með samskipti mín við þetta kerfi, það var komið vel fram við mig, mér fannst ég njóta virðingar, fannst ég fá upplýsingar og ég er sátt/ur við málsmeðferðina, jafnvel þótt niðurstaðan hafi ekki verið sú sem ég vonaðist eftir.“

Hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra er í gangi tilraunaverkefni þar sem þolendum kynferðisbrota er ekki tilkynnt um niðurfellingu máls þeirra bréfleiðis líkt og hefur tíðkast. Þess í stað er viðkomandi boðaður á fund til lögreglu með réttargæslumanni þar sem niðurstaðan er kynnt og brotaþola gefinn kostur á að fá svör við spurningum sínum. „Meðal annars stendur til að meta upplifun brotaþola af þessu nýja fyrirkomulagi í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því og hvert framhalds verkefnisins verður.“

Kolbrún fagnar allri umræðu um kynferðisbrotin en þó hætti henni til að verða mjög svarthvít. „Mér finnst öll umræða um kynferðisbrot vera góð, svo lengi sem hún er málefnaleg, fagleg og byggð á staðreyndum.“

Blaðamaður þakkar Kolbrúnu fyrir gífurlega upplýsandi samræður og minnir á að sakfellingahlutfall nauðgunarmála er, þrátt fyrir að vera lægra en í öðrum brotaflokkum, samt um 70%. Hins vegar, af tæplega tæplega sjö hundruð skjólstæðingum Stígamóta í fyrra kærðu aðeins um ríflega tíu prósent þeirra. Samkvæmt Stígamótum er hlutfall þeirra sem kæra að aukast en ljóst er að það er gífurlega mikilvægt fyrir brotaþola að leita til lögreglu um leið og þeir treysta sér til. Jafnvel þó að mál sé fellt niður eða því ljúki með sýknu þá geta kærur aukið vitund almennings um það samfélagslega vandamál sem kynferðisbrot eru og mynda þrýsting á kerfið til að bæta málsmeðferð. Þar að auki geta brotaþolar lýst því yfir með kæru að þeir beri ekki ábyrgð á nauðguninni. Með kæru geta þeir skilað skömminni.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“