fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

59 mánuðir af sársauka eftir sjóslys: -„Bella bjargaði lífi mínu“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 19. desember 2018 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kjartan Þór Kjartansson eða Kjartan á Múla, er vel þekktur meðal hundaeigenda í Facebook-hópnum Hundasamfélagið. Þar deilir hann myndum af Bellu sinni sem er glaðlyndur Golden Retriever. Bella er hamingjusamur hundur og Kjartan er umhyggjusamur eigandi. En sagan af því af hverju Kjartan ákvað að fá sér hund og hvaða stefnu líf hans tók eftir þá ákvörðun er hvort tveggja sorgleg og falleg.

Sjómaður frá Vestmannaeyjum lendir í slysi

Kjartan Þór Kjartansson kemur úr Vestmannaeyjum. Hann er kenndur við heimabæinn sinn þar, Múla, Kjartan á Múla, eins og faðir hans á undan honum, og afi hans þar á undan. Kjartan var sjómaður hjá útgerðinni Ós ehf. á skipinu Þórunni Sveinsdóttur VE í um tuttugu ár. „Ég var sjómaður þar til ég slasaðist í janúar árið 2014.“

Kjartan var á sjó þegar hann lenti undir grandarakeðju. „Þarna lá ég undir og man eftir að reyna að grípa klemmdu höndina með hinni því ég hugsaði: „Ég verð að ná að ná höndinni svo þeir geti saumað hana aftur á“.“

Höndin var þó enn föst. Kjartan var vel klæddur, enda kaldur janúar á sjó, og fékk hann aðeins nokkrar skrámur útvortis og að auki voru beinin óbrotin. En innvortis var önnur saga. „Þar fór allt í sundur. Allt sogæðakerfið ónýtt, allar taugar og vöðvinn. Ég gat ekki hreyft fingurna í ár.“

Stöðugur sársauki

Skaðinn var mikill og þótt Kjartan geti í dag hreyft fingurna þá finnur hann stöðugt fyrir miklum sársauka. „Í 59 mánuði hef ég ekki fengið einn einasta dag þar sem ég er verkjalaus.

Ég er búinn að fara í svo margar aðgerðir og meðferðir að þær eru örugglega orðnar á þriðja eða fjórða tug í heildina. Þær voru allar gerðar til að reyna að létta verkina. Þegar slysið varð þá sprakk taugastöð og frá þeirri stöð kemur sársaukinn, þó að ég finni fyrir honum frá höndinni. Allt taugakerfið er brenglað. Ég upplifi til dæmis kulda sem bruna, og ef ég held á hlut í einhvern tíma þá finn ég útlínur hans eftir smá stund í höndinni, sem bruna. Ég á erfitt með að vera í fötum því ég finn til þegar þau nuddast við mig og á dögum eins og þessum þá verð ég einfaldlega að taka ákvörðun um hvort ég vilji finna til vegna þess að fötin nuddast við mig, eða klæða mig minna og finna þá til vegna kulda. Ég finn til á meðan ég sef, finn fyrir sársauka alla nóttina. Sársaukinn stoppar ekki.“

Allar meðferðir og aðgerðir sem Kjartan fer í eru tilraunir til að deyfa sársaukann.
„Ég fer í þessar meðferðir, allt til að reyna að deyfa þetta. Þeir hafa dælt í mig skuggaefni og sett á mig sérstakan chili-plástur með virka efninu í chili-pipar. Plásturinn átti að brenna taugarnar til að tæma taugaboðin en ég upplifði þá svo mikinn sársauka að ég endaði uppi á gjörgæslu. Sársaukinn var að drepa mig. Hjartslátturinn og blóðþrýstingurinn var kominn út fyrir heilbrigð mörk og það þurfti að deyfa mig svo mikið að það hægðist á önduninni. Hjúkrunarfræðingur þurfti að standa við rúmið mitt og minna mig á að anda. Ég lét mig þó hafa þetta í alls fjögur skipti, bara til að eiga möguleika á þremur til fjórum vikum með minni sársauka. En ekkert virkar, sársaukinn fer aldrei. Skaðinn er bara svo svakalega mikill. Ég hef meira að segja farið í  lyfjagjöf þar sem ég fékk ketamín, sem er hrossadeyfilyf. En það virkaði bara í viku.“

Kjartan var heppinn að halda höndinni en sat eftir með stöðugan sársauka.

Fékk vír í hrygginn

Loksins fundu læknar þó úrræði sem lofaði góðu. „Ég fékk græddan í mig sérstakan vír sem er tengdur við batterí og þræddur í gegnum hrygginn á mér. Ég þurfti að fara út fyrst til að prófa vírinn til að sjá hvort hann hentaði mér. Aðgerðin var gerð með staðdeyfingu þar sem ég þurfti að vera vakandi til að láta lækninn vita hvenær vírinn snerti taugina. Eftir prófunina þurfti ég svo að koma aftur til að láta koma honum fyrir varanlega. Með vírinn í mér fann ég fyrir 80 prósent minni sársauka. En svo færðist hann til og sársaukinn kom aftur. Vírnum var aftur komið fyrir á réttum stað en þegar hann færðist aftur sögðu læknarnir mér að of mikil áhætta væri á að það blæddi inn á mænuna og því væri ekki ákjósanlegt að koma honum aftur fyrir. Ef blæddi inn á mænuna gæti ég lamast eða dáið. Því lét ég, í samráði við læknana, fjarlægja vírinn.“

Blóðtappar í lungum

En sársaukinn var ekki eini heilsubrestur Kjartans. „Ég hef tvisvar sinnum fengið blóðtappa í lungun. Í bæði skiptin skiptu tapparnir hundruðum. Ég var hættur að geta andað eðlilega. Fyrst hélt ég að ég væri bara kominn í svona ofsalega slæmt form en þegar ég fór upp á spítala var mér tilkynnt að ég væri nánast við dauðans dyr.“

Ofsalegur sársauki krefst ofsalega verkjastillandi lyfja og Kjartan var þarna kominn á mjög stóran skammt af morfíni og hafði bætt á sig rúmlega fimmtíu kílóum vegna kyrrsetu. „Ég var á skömmtum sem hefðu líklega nægt til að drepa fíl. Ég er búinn að vera svo lengi á morfíni að líkaminn hefur myndað þol gagnvart því. En ég var á morfíni því annars hefði ég verið öskrandi af sársauka.“

Kjartan skrapp í frí til Tenerife og þá fór hann aftur að finna fyrir andþyngslum. Þegar hann komst undir læknishendur kom í ljós að hann var aftur kominn með fjölda blóðtappa í lungun. „Eftir að ég fékk blóðtappana í fyrra skiptið sögðu læknar við mig að ég þyrfti að fara að hreyfa mig og grennast. Morfínskammtinum mínum var samt haldið óbreyttum. Þarna lá ég bara allan daginn og gerði ekki neitt. Hugsaði bara að ég myndi byrja að hreyfa mig á morgun, en lét svo aldrei verða af því. Svo eftir að ég fékk blóðtappa í seinna skiptið sá læknirinn, sem ég lenti á þá, tengsl á milli morfínsins og tappanna.“

Þurfti að minnka morfínskammtinn

Læknirinn sagði Kjartani að hann yrði að minnka morfínskammtinn og byrja að hreyfa sig. Morfín er afar ávanabindandi og læknirinn vissi því að það yrði erfitt fyrir Kjartan að minnka skammtinn hjálparlaust. „Mér voru gefnir tveir kostir, að gera þetta sjálfur, eða fara inn á Vog til að fá aðstoð. Ég ákvað að fara inn á Vog og þar tókst mér að trappa mig niður þar til ég tók aðeins um þriðjung af skammtinum sem ég var á.“

Þótt Kjartan sé í viðtali verður hann samt að leika við mig.

Kjartan mátti ekki alfarið hætta á morfíninu því hann þarfnast þess vegna verkja. Þegar hann fór inn á Vog var hann enn með vírinn í hryggnum og þurfti því minna af verkjastillandi lyfjum. Eftir að vírinn var tekinn þurfti svo að aðlaga skammtinn að nýju. „Ég er hjá verkjateyminu hjá Landspítalanum, þau taka við erfiðustu verkjunum. Ég er með beina línu við verkjahjúkrunarfræðing og það er hringt í mig að minnsta kosti tvisvar í viku til að taka stöðuna. Ef eitthvað er að þá hringi ég í þau og þarf aldrei að bíða lengi eftir viðbrögðum. Allt sem ég lendi í er svo alvarlegt. Venjulegur læknir hefur einfaldlega ekki tíma fyrir þetta.“

Var orðinn sófakartafla

Áður en að Kjartan slasaðist var hann í fantagóðu formi. „Þegar ég slasast var ég um hundrað kíló og rétt um tólf prósent í líkamsfitu. Ég hljóp maraþon, ég hljóp hálft maraþon í sjóstakk, ég lyfti, ég kleif fjöll, ég gerði allt. Allt. Ég var í últraformi. Ég var að safna fyrir alls konar styrktarfélög og hélt úti síðu þar sem fólk gat heitið á mig í alls konar tilgangi. Þetta var bara það skemmtilegasta sem ég gerði.“

Eftir slysið breyttust aðstæður Kjartans mikið, hann bjó ekki yfir sömu hreysti og fyrir slysið og fyrirséð að hann yrði aldrei samur. Það var eðlilega mikið áfall. „Ég var heppinn að lenda á góðum lækni sem spurði: „Kjartan þarftu ekki að tala við einhvern“. Ég var bara að taka þetta á sjómennskunni, var ákveðinn að fara aftur á sjó eftir nokkra mánuði, síðan ætlaði ég að fara eftir ár, en að lokum þurfti ég að viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég færi aldrei aftur á sjó.“

Læknirinn rak Kjartan í sálfræðimeðferð til að vinna úr áfallinu og lauk Kjartan henni nýlega.

Bella til bjargar

Þegar Kjartan kom út af Vogi og hafði minnkað morfínskammtinn þá þurfti hann að fylgja læknisráði og fara að hreyfa sig. Þá kom upp sú hugmynd að hann fengi sér hund. „Ég myndi þurfa að fara með hann út á hverjum degi.“ Þá fékk Kjartan Bellu sína. „Ég fékk hana og fór að hreyfa mig. Síðan þá hef ég misst um 25 kíló.“

Bella hjálpar Kjartani þó með meira en hreyfingu. „Eftir að ég fékk hana þá varð ég ekki lengur jafn einmana. Ég var svo einn áður, það var hræðilegt.“

Kjartan á góða vini og vandamenn, en þeir eru þó uppteknir af eigin lífi, í vinnu eða skóla, sem Kjartan getur ekki stundað. „Ég vildi gjarnan geta unnið í kannski svona 2–3 tíma á dag, bara upp á félagsskapinn.“ En vinna getur haft neikvæð áhrif á örorkubætur og myndi líka valda Kjartani auknum sársauka. Til hvers að leggja það á sig að upplifa meiri sársauka og mögulega lenda í veseni með örorkubæturnar?

Bella léttir líka lundina. Hún hjálpar Kjartani að dreifa huganum frá sársaukanum og bætir geð með brosmildi og hlýju. „Vírinn er farinn og ég er orðinn svo verkjaður aftur. Ég get því orðið mjög pirraður. Undanfarið hefur líka verið mikið álag á mér og líðanin eftir því. Þá þarf ég oft bara eitt bros frá henni Bellu, eða knús, til að líða betur.“

Bella er svakaleg fyrirsæta

Smitandi gleði

Bella unir athygli blaðamanns vel og meðan á viðtalinu stendur hefur hún fyllt skó af leikföngum, stillt sér upp fyrir myndatöku og náð sér í knús hjá Kjartani. Það er auðvelt að skilja hvað Kjartan meinar þegar hann segir að Bellu fylgi mikil gleði. „Bella bjargaði lífi mínu. Ég hefði verið dauður úr offitu eða einhverju öðru.“

Til að þakka Bellu ákvað Kjartan að hún skyldi fá að eiga frábært líf. Hún er alin á fínasta hráfæði og Kjartan fer með hana í göngutúr tvisvar á dag. Hann hefur meira að segja útbúið 20 metra langan taum svo Bella hafi meira svigrúm til að hlaupa og kanna heiminn í göngutúrum.

Bella er hvers manns hugljúfi og fagnar öllum ákaft sem verða á vegi hennar. En hún er líka mikill dýravinur. „Það eru tveir svanir á Vífilsstaðavatni sem koma alltaf til okkar þegar ég og Bella komum upp að vatninu. Ég er búinn að nefna þá Rómeó og Júlíu. Þeir synda nánast alveg til okkar til að heilsa upp á Bellu. Ef hún sér hesta þá missir hún sig úr gleði. Þeir skokka til okkar þegar við komum nálægt girðingunni og heilsa henni. Bella hleypur og hleypur og finnst þetta ægilega gaman á meðan þeir leika við hana yfir girðinguna, hún geltir ekki á þá eða neitt, heldur virðist bara hugsa „vá nýju bestu vinir mínir, risastórir hundar“.

Við ferðumst líka rosalega mikið. Ég er með fellihýsi og hún sefur með mér þar. Í sumar fórum við í tíu útilegur og í þeirri síðustu vorum við í heila viku. Bella er búin að heimsækja alla helstu ferðamannastaði landsins. Hún er eiginlega aldrei ein, hún getur verið ein en það er sjaldan þörf á því. Í þessu fáu skipti sem hún er ein heima þá fer hún bara og leggur sig. Hún er svo rosalega glöð að ég verð líka glaður.“

Er gífurlega þakklátur

Það er lán fyrir Kjartan að eiga góða að. Fyrir það er hann gífurlega þakklátur. Þakklátur Bellu, fjölskyldu og vinum og þakklátur fagaðilum í heilbrigðiskerfinu. Fyrrverandi vinnuveitendur hans hjá útgerðinni Ósi ehf. hafa einnig verið honum ómetanlegur stuðningur. „Útgerðin hefur staðið með mér í fimm ár, alltaf. Skiptir engu máli hvað það er, þeir eru alltaf til í að hjálpa. Þeir hafa samband við mig að minnsta kosti einu sinni í viku. Ég vann hjá þeim í tuttugu ár. Ég var ekki bara einhver kennitala á pappír heldur er þeim virkilega annt um mig. Síðan hafa 66°Norður séð mér fyrir útivistarfatnaði og þeim er ég líka mjög þakklátur.“

Kjartan Þór var venjulegur íslenskur sjómaður, jafnvel óvenjulega hraustur íslenskur sjómaður. Í dag glímir hann við krónískan sársauka og er óvinnufær. Ekkert er sjálfgefið í lífinu, sérstaklega ekki heilsan, en blessuð dýrin geta verið ljós okkar í myrkrinu. Bella er glaðvær félagi sem styður Kjartan í gegnum stöðugan sársauka. Kjartan er ákaflega heppinn með hund, og að sama skapi er Bella líka ákaflega heppin með eiganda.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana
Fókus
Fyrir 5 dögum

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám
Fókus
Fyrir 5 dögum

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“