fbpx
Miðvikudagur 12.maí 2021
Fókus

Lilja breytti um lífsstíl fyrir 10 árum – Keppir í fitness 47 ára: „Ég er alltaf að ögra sjálfri mér“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 4. desember 2018 21:00

Mynd: Íris Bergmann

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lilja Ingvadóttir vaknaði upp við vondan draum fyrir tíu árum þegar talan á vigtinni nálgaðist 100 kíló. Hún ákvað að stíga upp úr sófanum, setja sjálfa sig í fyrsta sæti og byrjaði í líkamsrækt. Í dag er hún 47 ára, í besta formi lífs síns og keppir innan skamms í fyrsta alþjóðlega fitnessmótinu sem haldið verður á Íslandi.

Lilja er lærður snyrtifræðingur, var með eigin rekstur og vann síðan á annarri stofu. Fyrir nokkrum árum lærði hún einkaþjálfun í Keili og fór að þjálfa konur í Sporthúsinu. „Ég fann bara að þetta togaði í mig, mér finnst þetta svo gaman, það er frábært að sjá aðra ná árangri og geta miðlað eigin reynslu.“

Í dag er hún búin að vinna sem einkaþjálfari í fjögur ár og segir að hana langi að hjálpa öðrum að ná árangri. Lilja ólst upp í Borgarnesi, var alltaf á fullu í alls konar íþróttum og átti hreinlega heima í íþróttahúsinu. „Það var ekkert gjald fyrir hvert sport, heldur bara eitt gjald og maður mátti æfa allt, þannig að maður var þarna allan daginn. Ég hef alltaf hreyft mig, þó með smá pásum á milli, áður en ég tók málin föstum tökum fyrir tíu árum.

Ég tengi best við konur sem eru í sömu stöðu og ég var í, búnar að setja sig í aftasta sætið, alltaf þreyttar, með slen, líður ekki vel andlega. Fyrir 10 árum þá small þetta allt í einu hjá mér eitt kvöldið, ég var komin með nóg,“ segir Lilja, sem var þá á enn einum megrunarkúrnum. „Maður bara gleymdi sér, setti sjálfan sig í aftasta sæti og hugsaði um alla aðra. Maður byrjar að bæta á sig, meðal annars eftir barnsburð, og maður borðaði bara það sem hendi var næst. Svo allt í einu er maður orðinn of þungur og líður illa í skrokknum. Ég fór í ræktina, fékk mér einkaþjálfara, tók til í mataræðinu og missti 30 kíló á einu ári og hef haldið mér í formi síðan.“

Hér má sjá breytinguna sem orðið hefur á Lilju eftir að hún tók lífsstílinn föstum tökum.

Lilja á tvö börn, 29 ára dóttur og 22 ára son. Sonurinn býr heima og borðar bara sama mat og móðir sín. „Þannig að hollustan skilar sér til barnanna, maður þarf að borða og ég er ekki dýr þar,“ segir Lilja aðspurð hvort sportið sé ekki kostnaðarsamt. Einnig nýtur hún aðstoðar góðra styrktaraðila, meðal annars meðferða hjá Heilsu og útliti og Húðfegrun.

Hefðbundnir dagar hjá Lilju byrja snemma, hún byrjar að þjálfa snemma, klukkan 6 á morgnana og þjálfar fram að hádegismat. Síðan fer hún sjálf á æfingu og þjálfar síðan aðra seinni partinn.

„Þegar ég var búin að vera 3–4 ár í ræktinni þá fór fólk að spyrja mig af hverju ég væri ekki að keppa og ég spurði bara hvað væri að fólkinu,“ segir Lilja, sem sagði fólk hafa svarað að hún væri með X-faktorinn og bygginguna, þrátt fyrir að hún hafi ekki séð hana sjálf. Hún keppti á tveimur mótum, áður en hún fór að æfa undir handleiðslu fitnesskonungs Íslands, Konráðs Vals Gíslasonar.

„Mér finnst gaman að vera hjá Konna, hann pælir allt út og hvað er í gangi, nýjar rannsóknir, nýjar uppgötvanir, hvað er hægt að gera til að hlutirnir verði betri. Það er enginn eins, sumir þurfa að borða meira, aðrir minna. Svo er spurning hvar hausinn á þér er staddur, það er númer 1, 2 og 3. Maður pælir meira í því þegar maður er í undirbúningnum, en aðra daga getur maður verið misupplagður og þarf að hvíla sig meira suma daga og aðra ekki.“

Lilja keppti á Íslandsmótinu í fyrra og í ár á Arnold Classic í Bandaríkjunum og á Royal London Pro-viku síðar í London. „Mér gekk mjög vel, varð í 18. sæti á Arnold, þar var risahópur, og í 8. sæti í London. Þarna setur maður sér ákveðinn standard, þetta er ólíkt; Íslandsmót og svo erlendu mótin, þarna er maður bara að keppa á móti þeim bestu í heimi.

Jason Ellis, frægur fitnessljósmyndari tók þessa mynd af Lilju þegar hún keppti á Arnold

Ég er spennt fyrir fyrsta fitnessmótinu og hlakka líka til að sjá hvað gerist eftir það,“ segir Lilja.

Á þessu móti er hægt að sækja um „pro card“, atvinnumannsskírteini sem gefur keppendum kost á að taka þátt í stærstu mótum heims. „Það er fjöldi fólks að reyna við það og þetta dregur fólk að alls staðar frá. Þetta mót getur ekki verið í betri höndum en hjá Konna. Svo er hann svo rólegur yfir þessu og ég er bara; hvernig ferðu að þessu?“

Mynd: Íris Bergmann

Lilja endar á að segja að þegar hún byrjaði að keppa hafi margir viljað draga úr henni kjarkinn: „Af hverju ertu að þessu komin á þennan aldur?, félagslegur þrýstingur var mikill, boð og fólk að skipta sér af hvað ég væri að borða og drekka, af hverju ég væri ekki að drekka. Krakkarnir spurðu mig hvort ég gæti ekki sleppt æfingu af því þá langaði að gera annað og ég sagði bara: „Nei, það er ekki í boði“, ég setti sjálfa mig algjörlega í fyrsta sæti.

Ég hugsa þetta bara út frá mér, ég er að gera þetta fyrir mig,“ segir Lilja, sem er að uppskera árangur erfiðis síns, eitt mót í einu.

Hún hvetur alla til að drífa sig upp úr sófanum og bæta lífsgæði sín. „Ef þú hugsar ekki vel um þig núna þá færðu það í bakið seinna. Byrjaðu núna, ekki á morgun eða 2019, farðu af stað núna, bara eitthvað einfalt sem þú treystir þér í og bættu ofan á það.

Ekki fara í megrunarkúra, þeir skila aldrei neinu. Hugsaðu að þú ætlir að gera þetta þar til þú ferð í gröfina.“

Lilja á sviði á Arnold
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Segir fólk ljúga upp á Vefjuna eftir umdeildu ummæli Reynis – „Gjörsamlega búið að dauðadæma okkur og fyrirtækið okkar“

Segir fólk ljúga upp á Vefjuna eftir umdeildu ummæli Reynis – „Gjörsamlega búið að dauðadæma okkur og fyrirtækið okkar“
Fókus
Í gær

Kristín Avon gengin út

Kristín Avon gengin út
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvar átt þú heima í kvikmyndagerð? Taktu skemmtilegt próf

Hvar átt þú heima í kvikmyndagerð? Taktu skemmtilegt próf
Fókus
Fyrir 2 dögum

Faðirinn sem setti líf fjölskyldunnar á netið – Skandallinn og klámstjarnan

Faðirinn sem setti líf fjölskyldunnar á netið – Skandallinn og klámstjarnan
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Mér finnst gaman að vera ber að ofan. Af hverju ætti ég ekki að græða á því?“

„Mér finnst gaman að vera ber að ofan. Af hverju ætti ég ekki að græða á því?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég myndi aldrei stíga fram núna miðað við móttökurnar sem þessi fórnarlömb eru að fá”

„Ég myndi aldrei stíga fram núna miðað við móttökurnar sem þessi fórnarlömb eru að fá”
Fókus
Fyrir 4 dögum

Floyd Mayweather slóst við YouTube-stjörnur í gær

Floyd Mayweather slóst við YouTube-stjörnur í gær
Fókus
Fyrir 4 dögum

Reynir Bergmann harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín um Sölva málið – „Mellur og vændiskonur fokkið ykkur“

Reynir Bergmann harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín um Sölva málið – „Mellur og vændiskonur fokkið ykkur“