fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Hinn íslenski uppvakningafaraldur: Hvað myndir þú gera?

Tómas Valgeirsson
Föstudaginn 2. nóvember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú þegar hrekkjavakan er komin og farin er kjörið tilefni um helgina til þess að halda upp á alls kyns skrímsli, stökkbreytt fyrirbrigði sem og hina látnu og lafandi. Uppvakningar hafa alla tíð verið sérlega vinsælir hjá almenningi og skoðanir eru sífellt skiptar um hvort þeim fylgi meiri óhugnaður þegar þeir rölta sultuslakir eða eru á hlaupum.

Það er góð regla í lífinu að vera öllu viðbúinn, sama hversu fjarstæðukenndar aðstæður er um að ræða. DV fór á stúfana og ræddi við nokkra sprellfjöruga en dygga aðdáendur uppvakninga og velti því fyrir sér hvað væri best að gera ef upp kæmu endalok heimsins í formi fyrirbæris sem nefnist „Zombie apocalypse“.

Væri ef til vill sniðugast að keyra í afskekktan bústað með gott útsýni og hafa riffil að vopni? Hvað með að loka hlerum Smáralindar og nýta sér auðlindirnar þar eða birgja sig upp í IKEA þar sem aldrei væri skortur á svefnplássi eða rými?

Sjáum hvað sérfræðingarnir segja.

Hvað myndi ég gera ef að það kæmi íslenskur uppvakningafaraldur? Ég var með svipaða pælingu í þættinum um daginn. Flest höfum við séð myndir þar sem að hetjan er yfirbuguð og fjölskylda hetjunnar lendir í hremmingum. Oft hef ég hugsað mér að ég myndi taka æði ef að þetta væri ég, yfirbuga andstæðingana og bjarga fjölskyldunni. En sjálfsagt yrði manni bara slátrað og fjölskyldan dregin á braut.

Ég myndi alltaf reyna að bjarga fjölskyldu minni ef uppvakningar færu að ráfa um. Til að vera undirbúinn myndi ég  byrja á því að steypa „bunker“ undir viðbygginguna við húsið mitt og safna vistum. Þá get ég brugist við og forðað öllum með stuttum fyrirvara. Líklega er best að forðast þéttbýl svæði og þess vegna er ég með breyttan fjallabíl kláran í innkeyrslunni. Innsæið segir mér að halda til fjalla í stað þess að finna eyju. Á fjöllum gæti ég fundið kofa og verndað fjölskylduna þar. Á leiðinni myndi maður reyna af fremsta megni að ná sambandi við umheiminn og græja loftbrú af landinu bláa. Ég myndi ekki notast við skotvopn, hvellir bergmála í fjöllum og draga að sér frekari hjarðir uppvakninga. Ég myndi nota smíðaverkfæri sem vopn. Sérstaklega Estwig 20 únsu hamar. Ef ske kynni að maður þyrfti að ílengjast með fjölskyldunni í kofanum myndi ég leggja gildrur fyrir sauðfé og veiða mér íslenskt fjallalamb til matar. Þetta myndi fjölskyldan borða ásamt Heinz-baunum sem hafðar voru með úr byggð. Nóg er af vatni á fjöllum.

Ef lokabaráttan yrði háð við kofann myndi ég knúsa börnin mín og hughreysta konuna mína. Gefa henni lyklana að fjallajeppanum og skunda út fyrir kofann með öll þau vopn sem hönd á festir. Ég myndi berjast við uppvakningana á meðan börnin og konan kæmust undan. Börnin myndu sjá mig, föður sinn, út um afturgluggann að senda þeim fingurkoss rétt áður en að ég myndi leggja í lokaatlöguna. Brosandi kveð ég svo þennan heim vitandi að ég dó sem hetja.

Ómar Úlfur Eyþórsson, útvarpsmaður, smiður

 

Það fyrsta sem ég myndi gera er að safna saman fjöldskyldu og vinum og stofna hóp saman. Þá förum við öll og finnum leðurjakka og rifin föt. Síðan brjótumst við inn á hárgreiðslustofur og stelum öllu hárspreyi og augnfarða sem finna má. Bara svo að við getum neglt niður þennan pönkstíl sem fylgir alltaf heimsenda, þá erum við allavega tilbúin fyrir áframhaldið.
Sjálfur bý ég í bænum Neskaupstað, og það góða við þann stað er að það er bara ein leið inn og út úr þeim bæ, sem eru göngin sem voru nýlega byggð. Ég myndi láta loka göngunum og stilla upp fólki á vöktum sem passar að það komist ekki neitt í gegn. Þetta samfélag á nóg af vopnum vegna gæsa- og hreindýraveiða. En ef uppvakningarnir ná að brjótast í gegn myndi ég líklegast fara í höfnina þar sem síldarvinnslan er. Ég veit að það hús er með mikið af fiski í frosti og mikið er af hnífum þar. Það væri hægt að birgja sig upp og vonandi finna bát eða skip sem væri hægt að nota til þess að koma sér í burtu ef óvinurinn nálgast.
En mikilvægasta spurningin er þó þessi: Eru þetta andsetnir uppvakningar í stíl við Evil Dead eða sýktir brjálæðingar á spretti eins og úr 28 Days Later? Eða klassísku George Romero-uppvakningarnir? Held að það mundi skipta miklu máli þegar það kemur að því að lifa af svona faraldur. Persónulega mundi ég velja Evil Dead-uppvakninga því að það væru einhverjar líkur á því að ég gæti loksins hitt Bruce Campbell og tekið svo síðar við keflinu af honum.
Hafsteinn Hafsteinsson – myndlistarmaður, rithöfundur, uppvakningaséní

Þetta er spurning um „þegar“, ekki „ef“. En þegar „zombie apocalypse“ ber að garði mun ég líklega halda mig við áætlun félaga míns, hans Arnars Benjamíns Kristjánssonar. Ég hinkra í þrjá daga áður en ég aðhefst nokkuð til að leyfa öllum vitleysingunum að fara sér að voða og koma sér úr veginum. Svo hoppa ég á fararskjóta, helst mótorhjól til að komast milli klesstra bíla, bruna í Búðardal til að birgja mig upp af dósamat og keyri eins langt norður á Hornstrandir og ég get. Þá tekur við löng ganga að Reykjafirði, sem er afskekktur og einangraður staður með góðri sundlaug.

Líkurnar á að rekast á eftirlifendur eða uppvakninga þar eru nánast engar, auk þess að gott aðgengi er að fuglabjörgum og fiskimiðum skammt frá. Sveðjur og hamrar verða geymd í hverju skúmaskoti, tilbúin til notkunar, og á nokkrum árum væri hægt að grafa gott síki, fyllt með beittum lurkum allt í kringum húsin. Svo er bara að taka því rólega í lauginni og bíða eftir því að þyrla komi að sækja mann – því það er jú flugvöllur þarna líka. En ef allt klikkar þá veit ég líka um hús nálægt Bifröst sem hefur skothelt gler í öllum gluggum sem er hreinlega að grátbiðja um að verða gert að virki.

Guðni Líndal Benediktsson – rithöfundur, kvikmyndagerðarmaður

 

Kjarnareglur uppvakningafaraldurs – þetta þarft þú að vita!

LÉTTUR FARANGUR
Uppvakningar geta komið þér á óvart á hverri stundu. Því meiri farangur, því minni lífslíkur.

ÚTHALD
Til þess að flýja uppvakninga er nauðsynlegt að vera í góðu formi. Til þess að vera í góðu formi þarf að færa ýmsar fórnir. Því er sniðugt að skilja kanilsnúðana eftir, eða nota þá ef enga aðra fæðutegund er að finna. Það sakar heldur ekki að eiga góða hlaupaskó.

EINANGRUN
Það er sniðugast að láta draumóra um útilegur og varðeld eiga sig. Þú veist aldrei hvað getur komið að þér.

EGGVOPN FREMUR EN SKOTVOPN
Hnífar, sveðjur og sambærileg vopn eru ekki þau bestu í svona faraldri, en að minnsta kosti þarftu ekki að hlaða þau.

NOTAÐU HÖFUÐIÐ
… og gættu þess að afhöfða óvinina við hvert gefið tækifæri. Enginn haus, enginn árangur – þetta á bæði við um þig og uppvakninga.

NJÓTTU SMÁATRIÐANNA
Hvort sem það er faðmlag frá nánum einstaklingi, hreina loftið í kringum þig eða ótrufluð salernisferð. Lífið er stutt og það er í dag.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla