fbpx
Miðvikudagur 17.apríl 2024
Fókus

Sverrir Norland vill að við róum okkur niður og býður fram fimm bóka knippi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 4. nóvember 2018 12:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sverrir Norland er 32 ára gamall rithöfundur sem hefur verið mjög virkur á bókmenntasviðinu undanfarin ár og meðal annars gefið út skáldsögurnar Kvíðasnillingarnir og Fyrir allra augum. Sverrir sendir nú frá sér hvorki fleiri né færri en fimm bækur, afar snotra prentgripi í litlu broti. Þetta eru þrjár stuttar skáldsögur, ein ljóðabók og eitt smásagnasafn, og einungis seldar allar saman í pakka. Allar bækurnar standa sem sjálfstæð verk en séu þær allar lesnar sést að þær tengjast saman og geta myndað eina heild.

Bækurnar eru fagurlega hannaðar af eiginkonu Sverris, hinni frönsku Cerise Fontaine. Ungu hjónin búa í New York og eiga eitt barn. Sverrir hefur búið árum saman erlendis. Hann segir sérkennilegt að tala frönsku og ensku alla daga og „hverfa síðan einn inn í þetta tungumál sem enginn skilur, þegar ég fæst við skáldskapinn.“ Ljóðabókin í fimm bóka knippi Sverris heitir Erfðaskrá á dauðu tungumáli og fjallar einmitt að hluta til um þetta vandamál, að vinna með tungumál sem „enginn“ skilur.

Nauðsynleg hvíld frá interneti og snjalltækjum

Meðal skáldsagnanna þriggja í knippinu er sagan Hið agalausa tívolí en hún fjallar um lögreglumenn sem beita þeirri aðferð til að leysa sakamál að slökkva á öllum tækjum, koma sér fyrir utan áreitis og hugsa.

„Ég held að við þurfum flest að róa okkur svolítið niður. Maður sem les bók er ekki líklegur til að koma af stað heimsstyrjöld en þegar við erum í snjalltækjunum þá erum við að gera svo margt í einu og oft svo tvístruð í hugsun að það aftrar okkur frá því að hugsa skýrt. Að minnsta kosti að minni reynslu,“ segir Sverrir og brosir.

Sverrir setur þessa firringu í samhengi við dökkar horfur í umhverfismálum og framtíð plánetunnar:

„Ég held að ef við gefum mennskuna upp á bátinn – listsköpunina og þá miklu hlýju og samkennd sem hægt er að miðla í gegnum skáldskap (bókin er kannski innilegasta tjáningarform sem við höfum yfir að ráða) – og göngum algrími og tækni endanlega á vald, forritum og tækjum sem hugsa fyrir okkur og áætla heim okkar út frá reiknilíkönum, þá séu horfur okkar sem dýrategund ekki bjartar. Því að hvað gleður manneskjur? Jú: Mannleg nánd. Samvera, sögur, tónlist, góður matur, kannski vínglas – og bækur! Nærvera, ekki fjarvera. En í dag reyna tæknirisar og stórfyrirtæki að blekkja okkur og segja að fjarvera – „tenging“ í gegnum tæki – sé í raun nærvera. Að við getum verið stödd á mörgum stöðum samtímis. Við vitum öll að það er rangt.“

Sá sem skrifar sögur verður að horfa á heiminn

„Við þurfum enduruppgötva hvert annað,“ segir Sverrir og heldur áfram með þessa hugleiðingu: „Þú tengist annarri manneskju aldrei tilfinningaböndum nema þú horfir í augun á henni á meðan þú ræðir við hana (skjárinn drífur ekki inn að hjartanu). Bækur – góðar bækur – minna okkur oftar en ekki á þetta.“

Manneskjusafnið, ein skáldsagnanna stuttu, fjallar einkum um þetta – um mikilvægi þess að horfa á veröldina og vinna úr og fagna því sem við sjáum. Sagan segir frá tveimur bræðrum, Kornelíusi Páli og Sigvalda Óla, sem missa foreldra sína ungir; föður í náttúruhamförum, móður af völdum geðveikinda. Sagan fjallar einkum um hvernig bræðurnir vinna úr sorginni og lýsir því hvernig þeir horfa ólíkum augum á veröldina og hasla sér þar völl með mismunandi hætti. „Mér þykir vænst um þessa af bókunum fimm,“ segir Sverrir. „Þetta er hálfgert ævintýri, og lýsir trú minni á kraft listarinnar, hugarflugsins.“

„Sá sem skrifar sögur verður að horfa á heiminn,“ segir Sverrir. „Og þá meina ég allan heiminn eins og hann leggur sig. Aðrar dýrategundir. Plönturíkið. Hafið, himininn. Þess vegna er sárt að skrifa, yfirþyrmandi. Það vakna svo margar siðferðislegar spurningar. En það er líka óumflýjanlegt. Ef við hættum að skrifa og hugsa um veröldina – endurhugsa hana og gagnrýna – þá leggst yfir okkur einhver vitsmunalegur drungi. Upplýsingar eru ekki það sama og viska. Ég held að það að geta verið einn með sjálfum sér öðru hverju sé okkur lífsnauðsynlegt, ef við eigum að geta verið hamingjusöm. (Og tækið leyfir þér það aldrei.)

Þess vegna gef ég út fimm bækur nú í haust. Það er ástaryfirlýsing til bókarinnar, þess að lesa – þess að hugsa, róa sig niður. Taka ábyrgð á sjálfum sér og reyna að skilja hver við erum, hvar við erum.

Lesum bækur. Hættum því aldrei.“

Á vefsíðunni amforlag.is má lesa sér frekar til um útgáfuna, panta sér bókaknippi og fá það sent heim að dyrum. Þá er bókaknippið til í helstu bókaverslunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Í gær

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“