fbpx
Fimmtudagur 20.júní 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Jákvæðnin bjargaði Shailene Woodley úr erfiðleikunum: Fyrirgefning er lykillinn að hamingjunni

Tómas Valgeirsson
Föstudaginn 5. október 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér finnst eins og Ísland sé eini staðurinn í heiminum þar sem fólk og náttúra eru ekki í kappi um tilverurétt,“ segir bandaríska leikkonan Shailene Woodley, en hún er heiðursgestur og dómari á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.

Shailene hefur farið víða og fór nýlega með burðarhlutverk í nýjustu kvikmynd Baltasar Kormáks, Adrift. Hún er einnig þekkt fyrir leik sinn í þáttunum Big Little Lies og Divergert-kvikmyndunum ásamt The Fault in Our Stars og The Descendants, en fyrir þá síðastnefndu var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta leikkona í aukahlutverki. Blaðamaður DV settist niður með leikkonunni og ræddi við hana um nýfundnar lexíur í faginu, hryllingsmyndir, Baltasar og – vitaskuld – litla Ísland.

„Þetta land hefur þetta jafnvægi sem sjaldgæft, ef ekki ómögulegt, er að finna annars staðar í heiminum. Ég gæti haft rangt fyrir mér, því ég þekki ekki til stjórnmálanna hérna, en sem utanaðkomandi finnst mér náttúran algjörlega fá að njóta sín,“ segir Shailene. „Þetta gerir mig bæði mjög spennta fyrir því að kynnast meira af Íslandi en um leið örlítið sorgmædda í garð restarinnar af heiminum.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Hlutleysi mikilvægast

Shailene hefur aðeins einu sinni áður komið til landsins en tekur fram að fyrri heimsókn hennar hafi verið í styttri kantinum. Nú er hún stödd hér til þess að horfa á kvikmyndir frá öllum heimshornum og njóta dvalarinnar eins og mögulegt er. Hún kveðst ekki hafa lagst í neina rannsóknarvinnu vegna þeirra kvikmynda sem hún mun dæma því hún vilji njóta hvers verks og horfa með hlutlausum augum.

„Að vera í dómnefnd gefur manni tækifæri til þess að fylgjast með ýmiss konar kvikmyndagerðarfólki og leikurum sem eru að skapa ótrúleg og heillandi verk sem eiga annars auðvelt með að týnast úti í hinum stærri heimi. Þess vegna er ég mjög þakklát fyrir að fá að kynnast svona mörgum alþjóðaverkum og listamönnum,“ segir hún.

Leikkonan tekur fram að hún hafi enn ekki horft á neinar íslenskar kvikmyndir fyrir utan þessar sem Baltasar hefur gert en segist almennt vera mikil alæta á kvikmyndir. Hins vegar bætir hún við að ef einhver geiri kvikmyndagerðar slái á veikan blett, sé það hrollvekjan.

„Ég sá margar hrollvekjur þegar ég var yngri og þær voru lífreynsla fyrir mig. Yfirleitt voru þetta myndir sem eru ekki taldar sérlega drungalegar, en ég á sérlega erfitt með hryllingsmyndir, því ég get verið mjög ímyndunarveik og hrollvekjur geta átt það til að setja hugann alveg á flug. Ef eitthvað slæmt gerist í þannig mynd og ekki síður að kvöldi til, þá er ég alveg sannfærð um að hið sama muni koma fyrir mig. Þannig virka ég. Það er auðveldara fyrir mig að fyllast skelfingu út frá eigin hugsunum en hitt.“

Samvinnuþýðari en flestir

Kvikmyndin Adrift var sýnd á RIFF í tilefni heimsóknar leikkonunnar, en fyrir þá sem ekki vita er um að ræða sannsögulega mynd um Tami Oldham og unnusta hennar, Richard Sharp (leikinn af Hunger Games-leikaranum Sam Claflin). Saman ætluðu þau að sigla frá Tahítí til San Diego árið 1983 en á miðri leið lentu þau í fellibylnum Raymond. Þegar óveðrið var gengið yfir sáust miklar skemmdir á bátnum og var unnustinn horfinn.

w
Baltasar leiðbeinir Shailene við tökur á Adrift.

Shailene fer fögrum orðum um Baltasar Kormák (eða „Balt“, eins og leikkonan kallar hann) og tekur fram að hún hafi verið mikill aðdáandi hans, bæði persónulega og faglega, meðan á tökum á Adrift stóð. „Hann Balt er æðislegur. Ég myndi 100 prósent vinna með honum aftur, sama hvert verkefnið væri,“ segir leikkonan.

„Það munaði svo miklu að hafa einhvern nálægt sem er sjálfur svo tengdur náttúrunni og skilur hvað þarf til þess að ná ákveðnum stílbrögðum. Hann gaf líka bæði leikurum sínum og tökuliði mikið valfrelsi og leyfði þeim að vera með í sköpunarferlinu. Að geta deilt listsköpuninni með öðrum og vinna náið með fólki er hæfileiki sem, í hreinskilni sagt, mér þykir ekki margir búa yfir. Hann er samvinnuþýðari en margir, ef ekki flestir, sem ég hef unnið með og ótrúlega sjálfsöruggur í sínu fagi. Í minni reynslu lendir maður oft í því að þú annaðhvort skyggir á leikstjórann eða þeir skyggja á þig og það er svakalega mikill léttir að geta unnið með leikstjóra sem veit alveg hvað hann vill, sem er ófeiminn með sína sýn á verkið en er samt sem áður opinn fyrir framlögum eða breytingum ef það smellpassar fyrir verkið eða báða einstaklinga.“

Fyrirgefning og ofsaþreyta allsráðandi

Shailene segir myndina oft vera talda hamfaramynd vegna misskilnings; hún sé sögð einblína á konu í baráttu við náttúruöflin. Leikkonan lítur hins vegar þveröfugt á framsetninguna og sér myndina sem sögu af konu sem vinnur með náttúruöflunum. „Ástæðan fyrir því að Tami lifði af, að mínu mati, er sú að hún var reiðubúin til þess að fyrirgefa hafinu á jafn skömmum tíma og það tók hafið að hrifsa allt frá henni og særa hana. Í raun og veru veiddi Tami aldrei neinn fisk, einmitt vegna þess að hún vildi ekki gera hafinu meiri skaða,“ segir hún.

„Sagan sýnir að hún varð að finna þessa fyrirgefningu í sér til þess að komast lífs af og fyrir mér er fyrirgefning eitt sterkasta afl lífsins og lykillinn að því að finna hamingju, að taka sjálfan sig í sátt. Það að geta fyrirgefið einhverju sem tók svo margt frá henni finnst mér skipta ótrúlega miklu.“

Sam Claflin og Shailene Woodley í Adrift.

Aðspurð hvað hafi verið mest krefjandi við tökurnar segir hún ofsaþreytu hafa átt stóran þátt í aðstæðum. „Sumir tökudagarnir voru hátt í fjórtán klukkutíma langir, sem hljómar kannski ekkert gríðarlega mikið, en þegar þú bætir opnu hafi við þitt vinnuumhverfi getur það tekið á. Í ofanálag þurftum við Sam að léttast talsvert fyrir okkar hlutverk. Að geta lítið sem ekkert borðað og þurfa að glíma við náttúruöfl er gríðarlega krefjandi, sérstaklega þar sem við þurftum að nota líkama okkar mikið og sáum um mestan áhættuleikinn okkar sjálf,“ segir hún en bætir við að það sé lítið hægt að setja út á neitt.

„Ofsaþreytan var svo sannarlega erfið, en mér finnst erfitt að kvarta undan vinnunni minni þegar ég fékk tækifæri til þess að horfa á sólarupprásina og sólsetrið á hverjum degi. Ef ég var komin á einhvern stað þar sem ég fann fyrir slæmri tilfinningu andlega, þá reyndi ég að snúa henni við og hugsa um eitthvað jákvæðara.“

Vill leikstýra sjálf

Aðspurð hvort nýi titillinn hafi sáð fræjum fyrir áframhaldandi draumi að framleiða meira, jafnvel gerast handritshöfundur eða leikstjóri á komandi árum, var svarið umhugsunarlaust játandi.

„Það helltist yfir mig spennutilfinning, eins og ég væri hljómsveitarstjóri að stýra kór eftir mínu höfði. Maður tekur saman alls konar ólík púsluspil, svo lætur maður þau frá sér og þau finna sinn innblástur og gera alls konar töfra og leika sér, en samt fellur ábyrgðin á mann sjálfan til þess að slökkva elda þegar þeir koma upp,“ segir Shailene.

„Þetta er tilfinning eins og maður sé næstum því að stýra skipinu, eða jafnvel að þú búir til hafið svo skipið geti siglt án erfiða. Það eru margar hraðahindranir, viðskiptatengd- eða hagnýt vandamál sem þarf að leysa hverju sinni en mér þetta meiriháttar spennandi að geta gengið í svona mál. Þá líður mér ekki bara eins og ég sé ekki bara tengd verkinu persónulega sem leikkona, heldur fæ ég að upplifa hæðir og lægðir sköpunarferlisins frá byrjun til enda. Þegar það er ástríða hjá manni að segja góðar sögur, þá verða öll erfiðin þess virði.“

Aftur á byrjunarreit

Ljósmynd: DV/Hanna

Shailene hefur verið leikkona frá fimm ára aldri en segist aldrei hafa lært jafnmikið á fagið og á seinustu misserum. Ástæðuna fyrir því segir hún vara stærstu fyrirmynd sína: Meryl Streep. Þær Shailene unnu saman við aðra seríu af Big Little Lies, en þættirnir hafa hlotið feikigóðar viðtökur og Shailene hélt ekki vatni yfir samstarfinu við Óskarsleikkonuna. „Hún er nú Meryl Streep af ástæðu!“ segir Shailene sæl.

„Það er ekki til meiri meistari og ég skildi við upplifunina á þessum þáttum uppfull af innblæstri en samt leið mér eins og ég ætti svo mikið eftir ólært. Ég á mikið eftir að þroskast og þróa mig áfram og henni tókst að efla mig á svo marga vegu. Eftir að hafa unnið með henni fannst mér ég vera aftur komin á byrjunarreit í leiklistinni. „Ég kann í rauninni ekki neitt,“ hugsaði ég og ef ég taldi mig kunna eitthvað, þá hafði ég rangt fyrir mér. En eins furðulega og það hljómar, þá er ákveðin spenna í því. Að nota þennan byrjunarreit og fá þessa tilfinningu sem ég hef aldrei upplifað. Þegar einhver í sambærilegri stöðu og ég hefur upplifað mikla velgengni, þá verður ákveðin aðferðafræði og vinnurútína til úr því hvernig maður nálgast hlutverk og þess háttar. Að strípa það allt saman burt er einmitt það sem ég þurfti.“

Shailene segir ýmislegt spennandi liggja framundan en tekur fram að hún meti öll hlutverk eftir því hvort hún upplifi ákveðinn magafiðring fyrir gefnu verkefni. Ef hún finnur ekki fyrir slíku kitli, vill hún ekki þiggja verkefnið. Leikkonan segist nýlega hafa fengið draumatilboð um að leika í kvikmynd hjá leikstjóra sem hún lítur sérstaklega mikið upp til, en Shailene var þögul sem gröfin um hvaða verkefni það er.

„Kaldhæðnislega las ég það handrit og var yfir mig spennt og fannst allt gefa til kynna að ég ætti að þiggja starfið, en ég fékk engin fiðrildi í magann. Svo las ég það aftur og fékk engin fiðrildi.“ Skemmst er að segja frá því að hún hafnaði verkefninu og segist vera að svíkja sjálfið sitt og finnst hún ekki vera að heiðra listgreinina rétt.

„Ég er minna í því að velja verkefni út frá hjartanu einu, heldur meira eftir vitsmunalegri. Mér líður ekki eins og ég muni standa mig vel í gefnu hlutverki ef ég miða ákvörðunina eingöngu við það sem hjartað segir. Rökhugsun þarf líka að spilast inn,“ segir Shailene.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fólk opnar sig um fáránlegar ástæður fyrir brottrekstri úr starfi – „Sé ekki eftir neinu“

Fólk opnar sig um fáránlegar ástæður fyrir brottrekstri úr starfi – „Sé ekki eftir neinu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu fjallkonuna í ár – Flutti ljóð eftir Bubba Morthens: „Landið okkar flokkar ekki fólk“

Sjáðu fjallkonuna í ár – Flutti ljóð eftir Bubba Morthens: „Landið okkar flokkar ekki fólk“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stóri dagurinn hjá Ernu Hrönn – Sjáðu myndirnar

Stóri dagurinn hjá Ernu Hrönn – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Liggur flatur eftir 12 ferðir á Esjuna á innan við sólarhring: „Geng ekki um óstuddur“

Liggur flatur eftir 12 ferðir á Esjuna á innan við sólarhring: „Geng ekki um óstuddur“