fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Gaui var 184 kg og með sjálfsvígshugsanir: Stóð upp úr sófanum og fór út að ganga – gerði upp erfiðu málin

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 19. ágúst 2018 11:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2005 ætlaði Gaui M. Þorsteinsson að fremja sjálfsvíg og árið 2011 var hann orðinn 184 kg. Röð áfalla sem ekki var unnið úr komu honum á þennan vonda stað, andlega og líkamlega, og sífellt seig á ógæfuhliðina. En dag einn í ágústmánuði árið 2011 sneri Gaui við blaðinu. Hann steig upp úr sófanum og fór út að ganga. Jafnframt því tók hann til í huganum, gerði hvert málið af öðru upp skriflega. Hann fór að hjálpa öðrum í síauknum mæli og hann breytti mataræðinu til hins betra. En lykillinn að batanum var hugarvinnan – hugarfarsbreytingin. Síðan hefur Gaui ekki litið til baka – og núna ræðir hann við DV um dimma dalinn sem hann fór í gegnum og bataveginn sem hann fetar núna.

„Í rauninni byrjaði þetta allt í æsku. Ég var lyklabarn, mamma og pabbi skildu þegar ég var 8 ára. Hún var einstæð móðir og vann ofboðslega mikið og þá varð maður að bjarga sér. Ég var pattaralegur strákur sem lenti í miklu einelti í grunnskóla. Mamma var mikið veik og ég var sendur í sveit og á Silungapoll þar sem ég lenti í misnotkun. Þá var ég 10-11 ára. Það var ekkert unnið úr neinu, kerfið var þannig í gamla daga. Ég fékk líka mjög hart uppeldi, þar sem maður var til dæmis flengdur fyrir að koma of seint í mat,“ segir Gaui.

Góð ár í Njarðvík og KR

Þrátt fyrir erfiða æsku náði Gaui sér að mörgu leyti vel á strik er tognaði úr honum:

„Það sem bjargaði mér voru íþróttirnar. Ég fór á kaf í þær. Upphaflega var ég að reyna að sanna eitthvað fyrir pabba en ég var alltaf að reyna að ná tengingu við hann. Hann var kominn með aðra fjölskyldu og þetta var nokkuð erfitt. Ég átti til að hlaupa frá Norðurmýrinni þar sem við bjuggum þá og heim til hans, eina 8-9 kílómetra, og láta hann taka tímann.

Minn besti vinur var þjálfarinn minn hjá ÍR sem var fjórum árum eldri en ég. En gæfa mín var að flytjast til systur minnar í Njarðvík og tengjast ungmennafélaginu þar. Það gerði kraftaverk á mér. Þetta fólk reyndist manni svo vel, maður fann þarna hvað heildin er mikilvæg, þegar allir eru að vinna saman að einhverju markmiði. Það mótaði mig mikið. Í dag er ég að reyna að borga til baka allt það ég fékk þarna, og sömuleiðis í KR, þangað sem ég fór árið eftir, þá 19 ára gamall, en þar spiluðum bæði ég og bróðir minn. Það er mjög mikill KR-ingur í mér enn þann dag í dag. Karlarnir í KR, menn eins og Einar Bollason og Gunnar Gunnarsson,reyndust mér rosalega vel. Einar hjálpaði mér að komast á skólastyrk í Bandaríkjunum.“

Svo illa fór þó að Gaui hnébrotnaði í Ameríkudvölinni og gaf heldur eftir í keppnismennskunni eftir það. Hann kynntist fyrrverandi eiginkonu sinni og þau eignuðust þrjú börn, en fjölskyldan flutti vestur til Ísafjarðar. Þar einbeitti hann sér að uppbyggingu körfuboltans sem leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður og raunar allt í öllu. Var Gaui upp frá þessu kallaður afi körfuboltans á Ísafirði.

Eldsvoði á Ísafirði, dauðaslys í Bandaríkjunum og snjóflóðin í Súðavík

Líklegt er að hnignun Gaua sem hófst fyrir alvöru árið 1998 megi rekja til raðar áfalla sem lögðust við erfiða barnæsku. Hann hefur orðið fyrir ansi mörgum áföllum á ævinni og verða bara þau helstu talin upp hér.

„Árið 1986, þegar ég var 25 ára, varð eldsvoði á Ísafirði þar sem ungum dætrum mínum tveimur var bjargað út úr brennandi húsi við illan leik og þær fengu reykeitrun. Þetta var mikið áfall sem ég því miður vann mig ekki út úr. Ég lendi síðan í því árið 1989 að fá æxli í ristilinn og varð mjög veikur. Síðan voru það snjóflóðin í Súðavík árið 1995, þar hjálpaði ég til en vann aldrei úr þeirri erfiðu reynslu sem fylgdi þessu návígi við dauðann og nístandi sorg eftirlifenda.“

Erfiðasta áfallið var líklega bílslys í Bandaríkjunum árið 1998. Gaui var þar á ferð með mági sínum sem sat undir stýri. Mágurinn lét lífið í árekstrinum en Gaui slasaðist og var fluttur á sjúkrahús.

„Þar fékk ég þennan heppnisstimpil. Starfsfólkið á sjúkrahúsinu, sem virtist halda að ég kynni ekki ensku af því ég var frá Íslandi, fór að tala um mig í návist minni sem þennan heppna. Það var líka hjúkrunarkona sem útlistaði fyrir mér hvað ég væri afskaplega heppinn með skurðlækni sem hefði unnið í Víetnam-stríðinu og væri svo flinkur að sauma saman sár.“

Eflaust gekk starfsfólkinu gott eitt til en heppnistalið fyllti Gaua nagandi samviskubiti vegna örlaga mágsins sem dó í slysinu. Ekki bætti úr skák að sumir af hans nánustu voru með undarlegar ásakanir í hans garð í sorg sinni:

„Það var sagt að það væri mér að kenna að mágur minn hefði dáið. Ef ég hefði ekki beðið hann um að stoppa til að ég gæti keypt mér kók þá hefðum við ekki verið á tilteknum stað á tilteknum tíma. Þetta var auðvitað bara rugl en þó að maður hlusti ekki á svona rugl þá nær það til manns og það var það sem gerðist. Síðan var ég mjög stutt á sjúkrahúsinu, þeir hleyptu mér samantjösluðum heim til systur minnar og ég fékk enga áfallahjálp. Þetta var afskaplega vont allt saman.“

Ætlaði að verða úti

Gaua hnignaði mjög upp úr þessu. Hugurinn varð þungur, sárin stækkuðu á sálinni og kílóin hlóðust utan á hann:

„Árið 1998 var í rauninni allt í blóma út á við. Við vorum í efstu deild í körfunni og ég passaði upp á að láta allt ganga rosalega vel fyrir utan mig sjálfan. Ég borðaði mikið og andlega var ég alltaf heima. Ef það var fyrirhuguð bíóferð á fimmtudegi þá hlakkaði ég til alveg fram á miðvikudag þegar ég fór að finna ástæður fyrir því að fara ekki. Ákvað svo að vera heima og leið vel með það í fimm mínútur, en fimm mínútum síðar var ég farinn að sjá eftir því. Svona gekk þetta ár eftir ár.“

„Ein saga frá 2005 er dæmigerð fyrir ástandið á mér. Þá var að sumu leyti stærsta stundin í mínu íþróttavafstri. Þetta ár var ársþing KKÍ haldið fyrir vestan og ég var sæmdur bæði gullmerki KKÍ og ÍSÍ. Ég ákvað þá að vinna við veisluna í stað þess að vera í sviðsljósinu. Ég passaði upp á að allir aðrir fengju að borða og svoleiðis, en svo tók ég bara á móti viðurkenningunum í einhverjum framhjáhlaupum. Mér fannst ég nefnilega ekki eiga neitt gott skilið. Ég talaði svo vitlaust við sjálfan mig.“

Vanlíðanin fór sífellt vaxandi og þetta sama ár, 2005, ákvað Gaui að taka líf sitt:

„Ég labbaði út og ætlaði ekki að koma heim aftur. Gekk upp á fjall og ákvað að halda áfram þar til ég gæti ekki meira og leggjast fyrir. Ég fattaði hins vegar þegar ég var kominn lengst út í móa að þetta vildi ég ekki. Ég átti þarna minn lengsta göngutúr fram að þessu.“

Ljósmynd úr brúðkaupi dótturinnar var sjokk

Upp frá þessu reyndi að Gaui að snúa lífi sínu til betri vegar en umbreytingin mikla kom þó ekki fyrr en sex árum síðar, í ágúst árið 2011. Fyrr um sumarið gifti dóttir hans sig og Gaua brá mikið við að sjá mynd af sér úr brúðkaupinu. Hann gat ekki lengur lokað augunum fyrir því hvað hann var orðinn feitur en hann var þá 184 kíló.

„Ég veiktist hastarlega í maganum og fór í aðgerð. Ég vaknaði á stofu með manni sem byrjaði á því að segja: „Líður þér illa, Gaui minn?“ Þessi maður lét sér mjög annt um mig og var ávallt að huga að því að hlúð væri vel að mér. Ég frétti það síðan að hann ætti aðeins þrjá mánuði ólifaða. Samt gerði hann ekki annað en að hugsa um mig. Þetta snart mig mikið.“

Þetta var í ágústmánuði 2011 og upphafið að endurfæðingunni var lítil mantra sem Gaui tók að kyrja fyrir munni sér á sjúkrahúsinu:

„Mér leið óskaplega illa. Ég lá þarna í rúminu og það var ekkert við að vera, ekkert sjónvarp eða slíkt. Þá tók ég þessa ákvörðun, að snúa lífi mínu við. Ég tautaði fyrir munni mér þetta tvennt: „Get a life“ – í staðinn fyrir Herbal Life sem ég þoldi ekki – og þetta hér: „Ef ekki ég – hver þá.“ Ég varð að fara að lifa lífinu og aðeins ég gat bjargað sjálfum mér.“

Gaui í brúðkaupi dóttur sinnar

 

 

Missti marga tugi kílóa – hvernig fór Gaui að því?

Þegar Gaui kom heim af spítalanum byrjaði hann að gera þrennt: Hann fór í göngutúra, hann byrjaði að laga til í huganum og hann breytti mataræðinu. Þetta var í grunninn afskaplega einföld en áhrifarík meðferð. Við þetta bætist síðan stöðug viðleitni Gaua til að hjálpa öðrum en hann hefur til dæmis safnað fyrir sjónvarpstækjum inn á allar sjúkrastofur á sjúkrahúsinu á Ísafirði og liðsinnt fátæku fólki á margvíslegan hátt.

„Markmið mitt var að ganga sjö kílómetra á dag. Fyrsta daginn komst ég samt bara 500 metra. En svo lengdist þetta dag frá degi uns ég var kominn upp í sjö. Þá kom dálítið bakslag því ég fékk flensu og lá veikur í þrjá daga. Þá varð ég að ganga 21 km fyrsta daginn sem ég var kominn á fætur aftur og ég gerði það. Ég geng ennþá alltaf sjö km á dag hið minnsta og stundum geng ég frá Ísafirði til vinnunnar minnar í Bolungarvík, en það eru 17,9 km.“

Svo var það hugarvinnan, sem var kannski það mikilvægasta. Gaui gerði upp líf sitt með sjálfum sér og skrifaði allt niður á blað:

„Það virkaði fyrir mig að tala við sjálfan mig. Það hljómar mjög asnalega, en það virkaði. Ég tók hugann fyrir eins og skjalaskáp, tók út hvert ár fyrir sig og gerði upp. Hvers vegna gerði ég þetta eða hitt, hvað gerði ég rangt og hvað gerði ég rétt? Ég skrifaði allt niður en það finnst mér mjög mikilvægt. Það virkar alltaf betur að skrifa slæma hluti frá sér. Þá fer maður ekki að ímynda sér að það hafi verið betra eða verra en það var, það er bara þara þarna, niðurskrifað.“

Í seinni tíð hefur Gaui verið mjög duglegur við að skrifa opinskáa og upplífgandi pistla um lífsreynslu sína, veikindi og bata. Bráðlega munu pistlar hans byrja að birtast á dv.is.

Gaui segist ekki ábyrgjast að hans aðferð virki fyrir alla en hann er alltaf tilbúinn að gefa af sér til þeirra sem eiga um sárt að binda. „Ég hef unnið með fólki sem er mjög veikt og ég bendi því á að ég er enginn sérfræðingur. Ég ráðlegg þeim að leita til fagfólks, sálfræðinga eða félagsfræðinga. En ef saga mín getur hjálpað þeim þá er það gott. Þegar ég skrifa eitthvað á Facebook þá hringir einhver eða sendir mér skilaboð og þakkar mér fyrir skrifin. Þá veit ég að skrifin mín geta hjálpað einhverjum öðrum. Þá skiptir ekki máli þó að pistlarnir fari í taugarnar á einhverjum öðrum, en ég veit til þess að þeir fara í taugarnar á mörgum. Það skiptir engu máli. Þeir hinir sömu geta bara lesið eitthvað annað. En margir þekkja sjálfa sig í þessum skrifum og það ýtir undir að þeir fari að gera eitthvað í sínum málum.“

Gaui breytti líka mataræðinu mikið. „Ég tók út 80% af sykri og hveiti. Ég borða fimm máltíðir á dag, tvær stórar og þrjár minni. Ég borða síðustu máltíðina kl. 18 og borða ekkert eftir það fyrr en næsta dag. Matur er góður en hann er ekki það góður að hann eigi að spilla því að þú getir notið hans. Það er ekki gott að borða yfir sig. Sú nautn varir ekki. Auk þess gæti ég þess að drekka mikið vatn og hef vatnsbrúsa til taks út um allt. Því má svo við þetta bæta að áfengi hefur ekki verið vinur minn. Undir áhrifum reyndi ég alltaf að vera skemmtilegi gaurinn en gerði mig oft að fífli. Þannig að ég tók það eiginlega allt út nema stöku vínglas með matnum.“

Unnustan, Sigþrúður Þorfinnsdóttir

 Musterið í Bolungarvík og stóra ástin úr Reykjavík

Svona hefur þetta gengið sleitulaust hjá Gaua í sjö ár. Hann hefur misst marga tugi kílóa og öðlast aukna sálarró. Hann starfar í sundlauginni í Bolungarvík sem hann vill reyndar aldrei kalla sundlaug – heldur Musterið. „Það eru til margar sundlaugar en bara eitt Musteri: The Temple of Water and Well Being,“ segir Gaui og hlær. Hann segist elska starfið sitt en þar fær hann mikla hreyfingu, gengur um nær allan vinnudaginn og sinnir ýmiskonar viðgerðum og viðhaldi.

Gaui er síðan nýtrúlofaður Sigþrúði Þorfinnsdóttur – henni Dúu. Dúa er lögmaður í Reykjavík og rekur stofuna Laga – lögfræðiþjónusta. Brúðkaup er ráðgert á næstu mánuðum eða misserum:

„Örlögin leiddu þarna saman tvo vinnuhesta sem hafa glímt við margvíslega erfiðleika í lífinu. Við erum afskaplega samstíga og stefnum á brúðkaup. Við gætum ekki verið hamingjusamari,“ segir Gaui að lokum, alsæll.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Halldóra um móðurhlutverkið og athyglina: „Þetta var alls ekki það sem ég ætlaði mér að gera við líf mitt“

Halldóra um móðurhlutverkið og athyglina: „Þetta var alls ekki það sem ég ætlaði mér að gera við líf mitt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Unnar Þór og Agnes Ýr eiga von á barni

Unnar Þór og Agnes Ýr eiga von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nornadans og galdrar í Skarðsdalsskógi – Sjáðu myndbandið

Nornadans og galdrar í Skarðsdalsskógi – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Óvænt uppákoma í Hagkaupum – Spiluðu hljóð og öskur dýra í sláturhúsi

Óvænt uppákoma í Hagkaupum – Spiluðu hljóð og öskur dýra í sláturhúsi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þorgrími blöskrar – Umhverfisspjöll í miðbæ Reykjavíkur

Þorgrími blöskrar – Umhverfisspjöll í miðbæ Reykjavíkur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gunnar upplifði versta dag lífs síns: „Ég þurfti að kyngja þessu og ég grét mikið“

Jón Gunnar upplifði versta dag lífs síns: „Ég þurfti að kyngja þessu og ég grét mikið“