fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Töfrar Ingó í fjóra áratugi: „Ég er haldinn gríðarlegum áhuga og ástríðu gagnvart töfrum“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 29. apríl 2018 14:30

Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir/Svart.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingólfur Hjálmar Ragnarsson Geirdal fagnar fimmtugsafmæli sínu þann 9. maí næstkomandi. Það er þó ekki eina stórafmælið sem hann fagnar í ár, því hann hefur einnig sýnt töfrabrögð í 40 ár og heldur hann af því tilefni afmælissýningu í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 13. maí.

Í dag er Ingó, eins og hann er jafnan kallaður, best þekktur sem gítarleikari þungarokksveitarinnar Dimmu, sem hann stofnaði ásamt bróður sínum, Silla Geirdal bassaleikara, árið 2004. Ingó hefur þó verið í sviðsljósinu frá 10 ára aldri, en hann var byrjaður að æfa og sýna töfrabrögð á þeim aldri, en þeir sem komnir eru á miðjan aldur muna vel eftir skemmtunum Ingós.

„Ég fékk áhugann þegar ég var sex ára og var 10 ára þegar ég hringdi í Baldur Brjánsson, sem þá var eini starfandi töframaðurinn á Íslandi, og sagði honum að við værum kollegar. Við þyrftum því að hittast og ræða málin,“ segir Ingó. Baldur hló að drengnum í fyrstu, en Ingó gafst ekki upp og komu þeir síðar fram í sjónvarpsþáttum saman. „Baldur og ég erum ennþá góðir vinir og hann kenndi mér mikið.“

Sýndi töfrabrögð heima og erlendis

Ingó byrjaði 10 ára gamall að sýna töfrabrögð sín á skemmtistöðum á kvöldin, meðal annars í Hollywood, skemmtistaðnum vinsæla sem var í Ármúla 5 árin 1978–1987. „Ég var 12 ára þegar ég var orðinn fastráðinn og kom fram tvisvar í miðri viku. Ég kom fram um hálf eitt um nóttina og foreldrar mínir einfaldlega skutluðu  mér og biðu á meðan ég sýndi. Um helgar kom ég fram á Skiphóli í Hafnarfirði.

Maður leit á þetta sem tækifæri til að koma fram, var að fá auglýsingu í blöðum og smá pening í vasann. Bekkjarfélögum mínum fannst þetta skrýtið, en spennandi um leið.“


Auglýsingar um skemmtanir Ingós birtust reglulega á sínum tíma og skemmtanir voru vel sóttar, þó að áhorfendur væru töluvert eldri að árum en töframaðurinn ungi.

Árið 1986 þegar Ingó var 18 ára kom hann í fyrsta sinn fram erlendis, á Nordisk Magi-Kongress í Stokkhólmi. Árin 2007–2010 vann Ingó eingöngu við að sýna töfrabrögð og hefur hann í gegnum árin sýnt á fjölmörgum skemmtunum, skemmtiferðaskipum og í sjónvarpsþáttum í Skandinavíu, Asíu og Ameríku. Auk þess að skemmta í einkaboðum fyrir Sigur Rós, Depeche Mode og Alice Cooper. Til gamans má geta þess að Ingó er gríðarlegur aðdáandi Cooper, hefur hitt hann margoft og sótt marga tónleika hans, auk þess sem Dimma hitaði upp fyrir hann á tónleikum í Kaplakrika árið 2005. Einnig á Ingó fjölda muna frá Cooper: sviðsföt, sviðsmuni, handskrifaða lagatexta frá 1978-2005 og fleira.


Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir/Svart.

„Ég tók pásu 1992–2004, en þetta blundaði alltaf í mér og áhuginn var áfram til staðar, en ég kom ekkert fram, var bara í músíkinni. Þegar ég byrjaði aftur fékk ég síðan enn meiri áhuga en áður.“

Ingó sýnir oft á árshátíðum, í þorrablótum og slíku hjá fyrirtækjum og félagasamtökum, en einnig í stórafmælum, fermingarveislum og fleiri viðburðum. „Það er sjaldan sem almenningi gefst kostur á að sjá sýninguna mína, það eru komin þrjú ár síðan ég hélt slíka sýningu.

Þetta er í blóðinu. Ég er haldinn gríðarlegum áhuga og ástríðu gagnvart töfrum og sé ekki fyrir mér að ég sé að hætta einhvern tímann. Maður er alltaf að undirbúa, æfa og hanna ný atriði, þannig að þegar ég er búinn með þessa sýningu fer ég strax að huga að næstu og ég held að það verði ekki mjög langt í hana,“ segir Ingó, sem er með sinn eigin stíl á sýningunum. „Ég er sami karakterinn og á tónleikum með Dimmu, þetta er bara minn persónuleiki og oft er ég í sömu fötunum. Þegar ég var yngri var ég oft klæddur í jakkaföt, en í seinni tíð held ég mig bara við minn stíl og er svoleiðis alltaf, ég er alltaf svartklæddur, sama hvar ég er eða hvernig viðrar.“

Þrátt fyrir langan, áhugaverðan og farsælan feril á tveimur sviðum, töfrabrögðunum og tónlistinni, er Ingó þó ávallt stoltastur af dótturinni Katrínu Jenný sem fæddist 2008. Hún er hjá móður sinni í Svíþjóð, en kemur reglulega í heimsókn til föður síns á Íslandi og má þá stundum sjá hana baksviðs að fylgjast með honum á sviðinu. Hvort hún feti í fótspor föður síns í töfrabrögðunum og/eða tónlistinni mun tíminn leiða í ljós.


Ingó hefur náð töluverðri færni í bæði spilagöldrum og beygingu hnífapara, tækni sem ísraelski sjónhverfingamaðurinn Uri Geller vakti mikla athygli með á sínum tíma.
Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir/Svart.

Sjá einnig: Ingó Geirdal-Rokkið, töfrarnir og stafur Chaplins.

Allar nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Í gær

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 4 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla