fbpx
Miðvikudagur 08.febrúar 2023
EyjanFastir pennar

Offramboðið af löggum og sjálfboðaliðum á Ólympíumótinu – „Can I hold it for you?”

Eyjan
Föstudaginn 5. ágúst 2022 15:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingvar Þór Jóhannesson, liðsstjóri íslenska kvennalandsliðsins í skák, mun fjalla um Ólympíumótið í skák á síðum DV  sem fram fer dagana 29.júlí – 9. ágúst. Fyrsta umferð mótsins hófst núna í morgun kl.09.30 á íslenskum tíma en hægt er að fylgjast með beinum útsendingum frá mótinu á skák.is.

Sjöunda umferð stendur nú yfir á Ólympíumótinu í skák í Indlandi. Íslenska liðið í opnum flokki glímdi við landsliðs Ekvador á meðan kvennaliðið er í æsispennandi viðureign gegn landsliði Tajkistan sem enn stendur yfir þegar þessi orð eru skrfuð. Guðmundur Kjartansson reyndist hetjan í opna flokknum með því að leggja sinn andstæðing að velli en hinir þrír liðsmenn liðsins gerðu jafntefli og þar með vannst sigur með minnsta mun, 2,5 – 1,5. Hér má sjá árangur liðsins hingað til og hér má kynna sér árangur kvennaliðsins.

Indverjar standa sig fantavel

Við erum rétt rúmlega hálfnuð hér á Ólympíuskákmótinu í Chennai á Indlandi. Í þessum pistli ætlum við aðeins að stikla á stóru um mótshaldið, keppnisaðstæður og þess háttar. Þetta er í fjórða skiptið sem undirritaður fer á Ólympíuskákmót en einnig hef ég tekið þátt í fjórum Evrópumótum þótt jákvætt covid-próf hafi kostað mig eitt slíkt undir lok síðasta árs. Við höfum því eitthvað til að bera saman við og í stuttu máli þá eru Indverjar að koma ansi vel út í samanburðinum!

Í síðasta pistli fórum við aðeins yfir ferðalagið til Indlands en gestrisni Indverjana kom strax í ljós við komuna. Auk sérmeðferðar í vegabréfsskoðun fengum við strax gjafir og tókum eftir að nóg var af fólki sem vildi sinna okkur og hjálpa. Við komuna fengum við hálsklút og svo hálsmen við komuna á hótelið. Á hótelinu var okkur svo nánast bannað að bera töskurnar okkar sjálf.

Sjálfa með gjafirnar góðu, klútur um hálsinn og hálsmen. Myndin er tekin með svokölluðu andarandliti (e. duckface) sem þykir vinsælt í dag á samfélagsmiðlum.

 

Fyrsta kvöldið á hótelinu fengu allir sérstaka “skák-köku” sem beið keppenda á hótelherberginu, mótshaldarar stimpluðu sig eins og áður sagði strax inn á fyrsta degi! Mér þykir kökur mjög góðar.

Við komum að hjálpseminni og sjálfboðaliðum síðar í pistlinum en ætlum að hefjast leikinn á að ræða um aðstæður. Skákmenn geta nefnilega verið sérstakur þjóðflokkur og það skiptir okkur marga hverja miklu máli hvernig aðstæður eru þegar mennirnir eru færðir fram og til baka á reitunum 64. Hér á Indlandi virðist hafa að langmestu leiti tekist vel til og flestir hlutir sem bornir eru saman við fyrri móti eru að skora vel í samanburði.

Flottar keppnisaðstæður

Mótið er haldið á lóð Sheratons hótelsins í Chennai. Magnað er að sjá hvað aðstæður hafa verið aðlagaðar á stuttum tíma. Stór ráðstefnusalur á hótelinu er notaður fyrir efstu 20 borð í hvorum flokki. Salurinn er yfir 2000 fermetrar að stærð en dugar ekki fyrir allt mótið enda keppendur og aðrir þátttakendur um þrjú þúsund talsins. Til að koma öllu mótinu fyrir þurfti að byggja tímabundinn sal sem er mun stærri en ráðstefnusalurinn. Þetta verkefni tókst skínandi vel hjá Indverjunum og báðir salirnir eru með fína loftræstingu enda veitir ekki af, loftið og hitinn um miðjan dag er nánast óbærilegur. Auk þess að hafa þessa tvo keppnissali er stórt svæði bæði fyrir áhorfendur og keppendur þar sem ýmislegt er hægt að aðhafast. Það er stór matsalur, stórt opið útisvæði með skjá þar sem hægt er að fylgjast með beinum útsendingum frá skákum og svo stórt expo svæði þar sem ýmsir sölu og kynningarbásar eru staðsettir. Sannkölluð paradís fyrir skákmenn og skákáhugamenn.

Rými í skáksölunum er fínt, gott bil milli borða og fínt göngupláss á milli. Íslensku liðin hafa eytt mestum tíma í tímabundna salnum, „gúlaginu” eins og neðri borðin eru oft kölluð á skákmótum. Neðri borðin fanga oft hinn sanna anda ólympíumótana. Þar er hægt að finna skáklönd sem eru lægra skrifuð og litadýrðin í búningum, hárlit og fléttum er oft mjög skemmtileg að sjá og skoða.

Keppendur mæta til leiks í skáksal 2, sem Íslendingar eru yfirleitt í

Við komuna á skákstað er hlið líkt og notast er við í vopnaleit á flugvöllum. Keppendur eru síðan skannaðir aftur þegar þeir koma inn í keppnissalinn af sjálfboðaliðum með málmleitartæki. Í keppnisskák er óheimilt að vera með síma, snjallúr eða annan slíkan búnað á sér Keppendur gleyma því slíkan búnað í geymsluhólfum fyrir utan skákstað. Því miður eru slíkar aðgerðir framkvæmdar á öllum stórum liðakeppnum nú til dags en ástæðan fyrir því er að árið 2010 varð einn liðsmaður ásamt liðsstjóra hjá Frakklandi uppvis að svindli einmitt á Ólympíumóti. Það er alltaf leiðinlegt þegar órfá skemmd epli eyðileggja fyrir öllum hinum.

Vopnaleit við komu á skákstað. Skipt í hlið fyrir karla og konur og auðvitað nóg af lögreglumönnum sem hafa í raun ekkert að gera.

 

Lögregla allsstaðar!

Strax við komuna til Tamil Nadu héraðsins og allsstaðar þar sem við förum höfum við tekið eftir lögreglumönnum nánast út um allt. Þeir mættu okkur á flugvellinum, þeir eru á hótelunum og mikið af þeim á keppnisstaðnum. Á köflum er eins og þeir séu hreinlega alltof margir og iðullega virðast þeir standa eða sitja margir saman og hafa bara hreinlega ekkert að gera.

Einn af upplýsingabæklingunum sem við fengum var bara um lögregluna í Tamil Nadu. Lögreglustjórinn skrifaði þar ávarp, bauð okkur velkomin og fór yfir öryggisatriði til að hafa í huga ásamt því að lofa að lögreglan á svæðinu myndi hjálpa með allt sem þeir gætu. Þar kom einnig fram að lögreglumenn í héraðinu eru um 140 þúsund! Það hljómar eins og svakaleg tala en í héraðinu búa hinsvegar 80 milljónir manna og ef við færum þetta hlutfallslega yfir á Ísland eru þetta rúmlega 600 íbúar per lögreglumann. Á Íslandi eru fleiri lögreglumenn en það og því hlutfallslega fleiri lögreglumenn per íbúa á Íslandi en í Tamil Nadu.

Algeng sjón, fjöldi lögreglumanna er mun fleiri en þörf er á.

 

Á köflum er það hálf pínlegt hvað lögreglumennirnir hafa lítið að gera. Til að mynda sitja 3-4 lögreglumenn í hverju horni á keppnissal nr. 2 og sitja þar alla umferðina. Ein umferð tekur yfirleitt rétt rúmlega 5 klukkutíma fyrir lengstu skákirnar. Aðrir lögregluþjónar eru heppnari og fá stundum eitthvað að gera og liggur við að maður sjái hlakka í þeim ef þeir þurfa að gera eitthvað. Á hóteli íslenska liðsins eru alltaf nokkrir lögregluþjónar við innganginn á hótelið sem spyrja okkar altlaf hvaðan við erum og svo skrá 3-4 mismunandi lögreglumenn sömu upplýsingar um komur okkar og farir inn og út af hótelinu í stílabækur. Það er eins og það vanti aðeins skilning á frasanum “less is more” hjá mótshöldurum. Það er oft betra að það séu fáir að vinna vinnuna ef þeir vita hvað þeir eruð að gera heldur en of margir að vinna og nánast enginn veit hvað á að gera!

Sjálfboðaliðarnir og furðulega aðstoðarbeiðnin

Auk offramboðs lögreglumanna er líka algjört offramboð á sjálfboðaliðum. Vegna fjöldans vita einmitt margir þeirra ekki hvað þeir eiga að gera eða virðast finna nýjar leiðir í hvert skipti til að gera einfaldan hlut flókinn. Mesta snilldin sem sjálfboðaliðarnir okkar fundu upp á var tvöfalt bókhald við að halda utan um hverjir væru í rútunum. Við förum alltaf á keppnisstað í rútu og fyrst þegar við fórum í rúturnar voru tekin niður nöfn á öllum sem fóru í rútuna og hakað við nöfnin. Þegar komið var á áfangastað var AFTUR tékkað á öllum nöfnum…svona til öryggis ef einhver hefði verið afnuminn af geimverum úr rútunni á leiðinni. Allavega dettur mér engin önnur leið í hug til að fara upp í rútu, keyra á áfangastað án þess að stoppa og vera einhvern veginn ekki í rútunni.

Nokkrir fleiri útfærslur voru teknar áður en aðeins var slakað óþarfa vinnu og skriffinnsku. Í eitt skiptið datt einum snillingnum í hug að taka myndir af öllum nafnspjöldum keppenda (allir hafa slíkt um hálsinn) við komuna uppá hótel.

Sjálfboðaliðar taka sér vel verðskuldaða pásu

Á skákstaðnum eru ólíklegastu hlutir fundnir fyrir sjálfboðaliða til að fást við. Við innganginn á klósettið þegar heitast er má t.d. finna tvo sjálfboðaliða með flugnaspaða. Moskítóflugurnar eiga engan séns á mótsstað! Klósettin eru annars mjög vel hirt og skora vel þar í samanburði við önnur mót. Það liggur við að klósettið sé skúrað aðra hverju mínútu og undan litlu að kvarta í þeim efnum. Fyrir utan klósettin eru svo alltaf nokkrir sjálfboðaliðar sem passa að allir fari nú á rétt klósett, kóngarnir á sín og drottningarnar á sín, eins og merkingar segja til um.

Í eitt skiptið hélt ég að sjálfboðaliði við klósettið væri nú aðeins að ganga of langt í hjálpseminni. Þá stóð kona við innganginn á karlaklósettið og þegar ég er við það að koma inn spyr hún mig á engilsaxnesu „Can I hold it for you?”. Mér var heldur brugðið, ég er vanur að sjá um mitt sjálfur í þessum efnum og átti ekki von á að fá boð um aðstoð. Ég var að hugsa hvernig ég ætti að afþakka þetta óvenjulega boð eins kurteisislega og ég gæti þegar ég áttaði mig á því að greyið konan átti að sjálfsögðu við vatnsflöskuna sem ég hélt á. Ég afþakkaði boðið engu að síður.

Gengi íslensku liðana og staðan í mótinu

Í opnum flokki eru strákarnir okkar á ágætis róli. Fjórir sigrar hafa unnist sem gefa 8 stiga af 12 mögulegum. Tvö töp hafa komið á móti sterkum sveitum Indlands B og Króatíu. Það er gott að klára stigalægri sveitirnar og hefur það gengið vel en til að ná góðu sæti á mótinu þarf að ná góðum úrslitum á móti hærra skrifuðum þjóðum. Eftir sigur í 7. umferðinni gegn Ekvador má búast við því að Ísland mæti sterku liði í næstu umferð.

Armenar eru efstir í opnum flokki með fullt hús og er það nokkuð óvænt. Armenarnir misstu sinn langbesta skákmann, Levon Aronian, yfir í bandaríska liðið þar sem gull og grænir skógar auðkýfingsins Rex Sinquefield hefur gert bandarísku sveitina að hálfgerðri ofursveit. Liðin mættust í 7. umferð og skildu jöfn, 2-2, og ákvað Aronian að tefla ekki gegn sínum gömlu löndum.

Í kvennaflokki hafa komið 3 sigrar , 3 töp og eitt jafntefli. Nokkurn veginn eftir bókinni en tap gegn Thailandi var ekki nógu gott en sú sveit þó greinilega mun sterkari en skákstig þeirra segja til um.

Heimastelpurnar í Indlandi eru með fullt hús í kvennaflokki og væri gaman fyrir gestgjafana að ná gulli á þessu Ólympíumóti, hvort sem það er í opnum flokki eða kvennaflokki.

Indverjar gleðjast einnig yfir vasklegri framgöngu hins 16 ára gamla Gukesh en þar virðist ný stjarna vera að fæðast. Gukesh teflir á fyrst borði fyrir B lið Indlands og hann hefur unnið allar skákir sínar til þessa. Margir telja þarna heimsmeistaraefni á ferð, næsti Anand þeirra Indverja.

Talandi um heimsmeistara að þá er annað af stærstu fréttaefnum mótsins til þessa slakt gegni Norðmanna. Magnus Carlsen heimsmeistari hefur vissulega verið að standa fyrir sínu en samherjar hans hafa verið algjörlega heillum horfnir og tapað mikilvægum skákum og fallið á tíma og gert allskonar klaufamistök. Norðmenn eru til að mynda á eftir íslenska liðinu í opnum flokki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
20.11.2022

Björn Jón skrifar: Erfitt að gæta fengins fjár

Björn Jón skrifar: Erfitt að gæta fengins fjár
EyjanFastir pennar
13.11.2022

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu
EyjanFastir pennar
14.10.2022

Heimir skrifar: Sendum þann rússneska heim og lokum á landa hans

Heimir skrifar: Sendum þann rússneska heim og lokum á landa hans
EyjanFastir pennar
09.10.2022

Björn Jón skrifar: Aðfluttur mannauður — ekki „útlent vinnuafl“

Björn Jón skrifar: Aðfluttur mannauður — ekki „útlent vinnuafl“
EyjanFastir pennar
04.09.2022

Þegar ég datt í það með föður hættulegasta manns internetsins

Þegar ég datt í það með föður hættulegasta manns internetsins
EyjanFastir pennar
28.08.2022

Björn Jón skrifar: Tilræðið við Rushdie og óttinn við að tjá sig

Björn Jón skrifar: Tilræðið við Rushdie og óttinn við að tjá sig
EyjanFastir pennar
27.08.2022
Hjálpum Ara!
EyjanFastir pennar
07.08.2022

Björn Jón skrifar – Agaleysi er þjóðarböl

Björn Jón skrifar – Agaleysi er þjóðarböl
EyjanFastir pennar
01.08.2022

Björn Jón skrifar: Stjórnviska öldungsins

Björn Jón skrifar: Stjórnviska öldungsins