fbpx
Sunnudagur 05.febrúar 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Nýju fötin keisarans

Eyjan
Sunnudaginn 16. október 2022 16:15

Þýskaland er aflvél evrópska hagkerfisins. Þegar hún höktir hefur það keðjuverkun um alla álfuna. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Liðið er nokkuð á aðra öld frá því að ævintýri H.C. Andersens komu út hér á landi í þýðingu þjóðskáldsins Steingríms Thorsteinssonar. Þeirra á meðal er sagan af keisaranum glysgjarna sem dvaldi fremur við fataskápinn en stjórn ríkisins. Vefarar tveir nýttu sér þennan veikleika keisarans og fengu afhent hið dýrasta silki sem þeir stálu en þóttust vefa úr. Svo kom að því að keisarinn skrýddist klæðunum og allir vegsömuðu keisarann og föt hans þar til barn nokkurt benti á að keisarinn væri nakinn.

Mér varð hugsað til ævintýrisins er ég las á dögunum inngang fjárlagafrumvarps næsta árs þar sem birtast fyrirheit um „ábyrgð í ríkisfjármálum svo tryggja megi hagsæld til framtíðar“. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að yfirlýsingarnar um ábyrgð og aðhald eru jafnvíðsfjarri veruleikanum og glitklæði keisararans. Þvert á móti einkennast fjárlögin af ábyrgðarleysi og skorti á aðhaldi. Gert er ráð fyrir því að útgjöld aukist um 78,5 milljarða króna milli ára og muni nema 1.296 milljörðum á ári komanda. Á sama tíma er áætlað að hallinn verði mikill því tekjurnar verða umtalsvert lægri eða 1.117 milljarðar. Sem fyrr er ríkisstjórninni fyrirmunað að sýna ráðdeild og áfram er haldið á fyrri braut ábyrgðarleysis í ríkisfjármálum en sem dæmi má nefna þá stefnir í að tekjur ríkissjóðs verði 80 milljörðum króna hærri í ár en búist var við en því er öllu eytt í stað þess að stemma stigu við auknum skuldum (ellegar lækka skuldir). Við liggur að bruðl sé kjörorð dagsins.

Þá má efast um forsendur fjárlagafrumvarpsins. Þeim til grundvallar liggja spár um hagvöxt sem lýsa mikilli bjartsýni. Þróun markaða á alþjóðavísu mun hafa mikið um það að segja hvernig efnahagslífi landsmanna reiðir af. Um þessar mundir er uppgangur í flestum atvinnugreinum hér á landi og hagvöxtur mikill. Við slíkar aðstæður eru lausatök í ríkisfjármálum, stjórnlaus eyðsla og skuldasöfnun, sérlega varhugaverð. En við bætist að illa horfir með efnahag ýmissa helstu viðskiptalanda á komandi misserum. Vandræði sem við munum ekki fara varhluta af. Lítum aðeins út fyrir landsteinana.

Útlitið er dökkt

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nýverið enn lækkað tölur um hagvöxt fyrir árið 2023 og einkum og sér í lagi fyrir Þýskalandi. Á blaðsíðunum 186 í nýjustu skýrslu sjóðsins er næstum ekkert jákvætt að finna og ekki nóg með það — eins og blaðamaður Die Welt orðaði það á dögunum: „Das Schlimmste kommt erst noch“ — Hið versta er ókomið. — Spáð er samdrætti í yfir þriðjungi hagkerfa heims á ári komanda. Bandaríkin, Kína, Japan, Frakkland og Spánn geta þó vænst lítilsháttar hagvaxtar en allt aðra sögu er að segja af aflvél evrópska hagkerfisins — Þýskalandi. Í júlí bjuggust hagfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við 0,8% hagvexti í Þýskalandi á næsta ári, nú gera þeir ráð fyrir 0,3% samdrætti. Allnokkrar gasbirgðir eru til staðar í Þýskalandi en í frétt Welt um málið á dögunum kemur fram að verði ekki hægt að afla gass frá Rússlandi næsta sumar muni ástandið versna enn veturinn 2023–2024. Hætt er við að verðbólga verði há samfara þessu næstu misserin og í ljósi yfirburðarstöðu Þjóðverja í evrópsku efnahagslífi mun efnahagsástandið þar hafa víðtæka keðjuverkun í för með sér.

Í ágústmánuði sl. mældist verðbólgan í Þýskalandi 7,9% en er nú komin í tveggja stafa tölu. Fara þarf aftur til ársins 1951 til að finna viðlíka tölur og hér er rétt að hafa í huga að þýsk stjórnvöld hafa þó gengið mjög langt í aðgerðum til að halda aftur af verðhækkunum. Einkum og sér í lagi er það orkukostnaður sem hefur rokið upp úr öllu valdi en við blasir að orkuverð á enn eftir að hækka mikið segir Die Welt.

„Verðbólgutölurnar munu fara sífellt hækkandi. Endimörkin liggja ekki við tíu prósentin,“ segir Ulrike Kastens, hagfræðingur hjá eignastýringarfyrirtækinu DWS Group. Fleira kemur til en orkuskortur. Kínverjar eru enn að kljást við farsóttina með fram úr hófi harkalegum aðgerðum sem lama iðnframleiðslu og aðfangakeðjur og illa horfir með fasteignamarkaðinn þar eystra.

Sprekum kastað á bálið

Hverfum aftur hingað heim. Helsta orsök dýrtíðarinnar í nágrannalöndunum liggur í orkukostnaði. Íslendingar eru í öfundsverðu stöðu en kostnaður við rafmagn og húshitun hér á landi er nú orðinn aðeins brot af því sem hann er í nágrannalöndunum. Við bætist sérlega öflugt atvinnulíf hér á landi. En eðli máls samkvæmt munum við ekki fara varhluta af minnkandi kaupgetu almennings í helstu viðskiptalöndum og almennum samdrætti þar. Seðlabankinn hefur tæki til að hefta verðbólgubálið sem hann hefur beitt óspart og það eru aðgerðir sem koma til að mynda mjög illa við ungt fólk sem er að reyna að kaupa sínu fyrstu fasteign. Á sama tíma kastar ríkisstjórnin sprekum á bálið með hækkunum gjalda, miklum hallarekstri ríkissjóðs og óhófi í útgjöldum. Nógu erfitt verður að halda eldglæringunum í skefjum í kjölfar komandi kjarasamninga og afleitt að ríkisstjórnin geri illt verra með ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum.

Ekki það, við vonum heitt og innilega að hagfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins muni hafa rangt fyrir sér; hagvöxtur verði myndarlegur víðast hvar og stríðinu ljúki innan fárra vikna. En sem stendur bendir ekkert til annars en að dýrtíðin á meginlandinu verði langvarandi og muni hafa veruleg áhrif hér á landi. Ef til vill eru yfirlýsingarnar í upphafi fjárlagafrumvarpsins ætlaðar til heimabrúks fyrir fjármálaráðherrann sem er formaður í flokki sem byggir hugmyndafræðilega á sparnaðarhyggju í opinberum rekstri. En ætli flokksfólkið sjái í gegnum hin meintu skartklæði?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
13.11.2022

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu
EyjanFastir pennar
07.11.2022

Björn Jón skrifar: Grund í hundrað ár

Björn Jón skrifar: Grund í hundrað ár
EyjanFastir pennar
02.10.2022

Þurfum ekki fleiri atvinnupólitíkusa í sveitarstjórnir

Þurfum ekki fleiri atvinnupólitíkusa í sveitarstjórnir
EyjanFastir pennar
25.09.2022

Björn Jón skrifar: Hlustum á Píratana

Björn Jón skrifar: Hlustum á Píratana
EyjanFastir pennar
27.08.2022

Hjálpum Ara!

Hjálpum Ara!
EyjanFastir pennar
21.08.2022

Björn Jón skrifar: Að vera eða ekki vera sósíalisti

Björn Jón skrifar: Að vera eða ekki vera sósíalisti