fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Við þurfum að virkja meira

Eyjan
Sunnudaginn 23. janúar 2022 18:32

Frá Nesjavallavirkjun /Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stundum er eins og stóru málin gleymist í þjóðfélagsumræðunni á meðan margvísleg aukaatriði eiga sviðið dögum og vikum saman. Kannski er slík firring afleiðing góðra lífskjara og margir hreinlega misst sjónar á því hvernig ömmum þeirra og öfum tókst að brjótast úr örbirgð til allsnægta — úr torfbæ þar sem ef til vill ein lítil týra á lýsilampa logaði í skammdeginu til stórhýsa þar sem hvert skúmaskot er upplýst með raforku. Með allnokkurri einföldum má segja að bætt lífskjör okkar hafi einkum falist í tvennu: tækniframförum og greiðu aðgengi að orku á hagstæðu verði.

Stóraukin eftirspurn eftir raforku

Á seinni árum taka flestir gnægð raforku sem gefna — enda nóg fallvötn hér til að virkja. Það var því sem margir vöknuðu við vondan draum þegar fregnir bárust af því í haust sem leið að Landsvirkjun gæti ekki afhent orku til loðnubræðslna og þær yrðu því keyrðar á jarðefnaeldsneyti. Í aðsendri grein á Vísi 11. desember sl. lét Gunnar Guðni Tómasson, frkvstj. vatnsafls hjá Landsvirkjun, svo um mælt að vinnslukerfi Landvirkjunar væri í reynd fullselt og veruleg umframeftirspurn sem ekki væri hægt að mæta. Lítið innrennsli í miðlunarlón gerði stöðuna enn verri.

Þetta á sér stað á sama tíma og ríkisstjórnin segir í sáttmála sínum að stefnt skuli að því að ná fram „kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði [Ísland] þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja“. En Guðlaugur Þór Þórðarson, nýr umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu sl. fimmtudag að því mætti halda fram með rökum „að ekkert framlag Íslendinga til lausnar loftslagsvandanum vegi þyngra en nýting hreinnar orku og útflutningur þekkingar á því sviði“.

Helmingsaukning nauðsynleg

Morgunblaðið greindi frá því á forsíðu sl. fimmtudag að umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Orkustofnun hefðu sent út neyðarkall til raforkuframleiðenda á þriðjudaginn var. Í bréfi Orkustofnunar til framleiðenda, sem Morgunblaðið hafði undir höndum, var kallað eftir upplýsingum um framleiðslugetu svo bregðast mætti við raforkuskorti. Til marks um alvarleika málsins gaf Orkustofnun framleiðendum raforku aðeins tvo daga til að svara erindinu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins á dögunum að framleiða þyrfti allt að fimmtíu prósentum meiri raforku en nú svo unnt yrði að ljúka orkuskiptum. Orkuþörf muni aukast á næstu áratugum og henni yrði að mæta með nýjum virkjunum. Og ekki er ráð nema í tíma sé tekið því um það bil áratug þurfi til undirbúnings virkjunar. Hörður segir að um fimm ár taki að fá tilskilin leyfi til framkvæmda og fimm ár að reisa virkjun. Í heild sinni taki þetta því um tuttugu ár. Virkjanir sem gangsetja eigi á fimmta áratug þessarar aldar þurfi að vera í skoðun núna.

Ljón í veginum

Því miður hafa margir þvælst fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku og nýjum virkjunum. Sigurður Hannesson, frkvstj. Samtaka iðnaðarins, orðaði það svo í viðtali á Bylgjunni í desember sl. að allar framkvæmdir yrðu að deiluefni, pólítíkin þvældist fyrir og kerfið. Staðan væri því miður sú að erlendum aðilum sem hefðu áhuga á að setja upp atvinnustarfsemi hér væri vísað frá vegna skorts á raforku, Grípum niður í samtalið við Sigurð:

„Það segir sig sjálft að það er flókið að afla nýrra viðskipta á meðan staðan er svona. Þannig að áhugamönnum um fjölbreyttari orkusækinn iðnað, sem eru fjölmargir, þeir hljóta að hafa áhyggjur af þeirri stöðu.“

Hann benti enn fremur á að á heimsvísu sé nær ótakmörkuð eftirspurn eftir grænni orku sem nóg sé til af hér.

Fleiri en ríkið geta komið að málum

Í skýrslu um störf Framtakssjóðs Íslands var þess getið að ríkið væri með of mikið fjármagn bundið í ýmsum hliðarverkefnum sem ekki tengdust kjarnastarfseminni — sem sé að sinna velferðarþjónustu. Of stór efnahagsreikningur íþyngdi ríkisrekstrinum og í reynd væri ómögulegt fyrir ríkisvaldið að standa eitt í þeim innviðafjárfestingum sem við blöstu á næstu árum og áratugum.

Vel mætti hugsa sér virkjanir sem tilvalinn fjárfestingarkost til langs tíma fyrir lífeyrissjóði, aðra fagfjárfesta — og allan almenning — í formi öflugra fjárfestingarfélaga. Það yrðu vitaskuld að vera félög með mjög mikla fjárfestingargetu. Hægt væri að binda í lög að slík innviðafjárfestingarfélög yrðu að meirihluta í eigu sameiginlegra sjóða almennings en með skráningu á markað mætti tryggja að stjórnendur nytu lýðræðislegs aðhalds. Þannig væri hægt að létta á skyldum ríkissjóðs, losa um opinbera forsjá í framkvæmdum vegna innviða og veita almenningi og fagfjárfestum öfluga fjárfestingarkosti til langs tíma.

Stórbætt flutningskerfi raforku og bygging nýrra virkjana er mál sem þolir enga bið. Framtíðarmöguleikar þjóðarinnar eru háðir því að við virkjum meira.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund
EyjanFastir pennar
08.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi