fbpx
Fimmtudagur 20.janúar 2022
Fastir pennarFókus

Ég held að pabbi sé með Alzheimer á byrjunarstigi og mamma er í afneitun – Hvernig get ég stungið á kýlið?

Fókus
Sunnudaginn 11. júlí 2021 19:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem telur að náinn ættingi sé með Alzheimer á byrjunarstigi. 

Kristín Tómasdóttir


Sæl

Ég held að pabbi minn sé á byrjunarstigi heilabilunar/Alzheimer. Hann er 69 ára, eldhress og frískur. Hann hefur aldrei glímt við heilsuvanda, alltaf andlega og líkamlega frískur. Núna veit ég ekki hvernig ég ber mig að. Mér líður eins og ég þurfi að stinga á stækkandi kýli innan  fjölskyldunnar sem allir sjá en enginn þorir að ræða um. Ég á tvö systkini og móður. Mamma er í afneitun og systkini mín eru jafn ráðalaus og ég. Erfiðast verður samt að taka þetta samtal við pabba sjálfan sem fattar ekki að eitthvað sé að. Helstu einkennin eru að hann villist oft og við þurfum að fara að leita að honum. Mér er ekki sama um að hann sé eftirlitslaus því hann virðist detta út annað slagið og ranka svo við sér á stöðum sem hann veit ekki hvað hann er að gera á. Hann er líka hættur að geta gert ýmsa hluti í daglegu lífi og nýlega tók ég eftir því að hann vissi ekki við hvern hann var að tala þegar hann ræddi við barnabarnið sitt. Það getur ekki verið að við séum fyrsta fjölskyldan að glíma við þennan vanda svo ég spyr: hvað og hvenær gerir fólk í þessari stöðu?

Þú ert sérfræðingur í þinni fjölskyldu

Takk fyrir spurningu þína. Mikið er pabbi þinn heppinn að eiga nána fjölskyldu sem fylgist vel með, er til staðar og grípur inní þegar þess er þörf. Því miður er ekkert einfalt svar til við spurningu þinni en algengt er að eftir því sem svona veikindi þróast og vinda upp á sig þá verður fjölskylda að stíga inn. Af spurningu þinni að dæma þá bendir allt til þess að slík tímamót séu handan við hornið og þá er ekki úr vegi að vera búin að undirbúa sig.

Þú nefnir að þú vitir ekki hvernig þú eigir að hefja samtalið og stinga á kýlið, en þá gæti verið hjálplegt að ákveða að næst þegar þú verður sterklega vör við einkenni heilabilunar hjá pabba þínum þá getur þú notað það sem „brú” yfir í þetta erfiða samtal við t.d. systkini þín. Þú getur sagt eitthvað á þá leið að þú hafir orðið vitni að því að pabbi þinn væri áttaviltur eða ringlaður og að þú hafir áhyggjur af honum.

Þú ert sérfræðingur í þinni fjölskyldu og þekkir einstaklingana innan hennar best. Þú þarft að treysta á þá þekkingu og meta við hvern er best að ræða þetta fyrst og hvernig þið getið stutt hvort annað í átt að aðstoð fyrir pabba þinn. Það verður að teljast líklegt að svipaðar hugsanir séu að brjótast um í hausnum á systkinum þínum og mögulega getur það framkallað létti hjá þeim ef þú hefur orð á því.

Ákveðið mynstur þróast

Mikilvægt er fyrir aðstandendur sjúklinga með heilabilun að fá góðar upplýsingar um það hvernig best sé að lifa með slíkum sjúkdómi, eykur það lífsgæði sjúklingsins og dregur úr kvíða aðstandanda. Á Íslandi eru starfandi samtök FAAS – félag áhugafólks og aðstandenda um Alzheimersjúkdóminn og aðra skylda sjúkdóma. Á heimasíðu þeirra www.alzheimer.is má finna ótrúlega mikla fræðslu auk þess sem félagið heldur úti ráðgjafarsíma. Fyrsta skrefið fyrir ykkur fjölskylduna gæti verið að sanka að ykkur þessum upplýsingum og sameinast í því að fræðast meira.

Í fjölskyldum fólks með heilabilun þróast oft ákveðið mynstur sem getur gert það að verkum að sjúkdómurinn verður meira falinn. Mamma þín gæti t.d með sinni hegðun dregið úr því að þið sjáið ákveðin einkenni sem þið annars mynduð setja spurningamerki við. Sem dæmi má nefna; taka ábyrgð á lyklum, veski, símum og öðrum munum sem sjúklingar með heilabilun myndu annars týna. Ekki ræða um atvik þar sem sjúklingurinn hefur týnt eða gleymt einhverju og jafnvel yfirfæra einkennin yfir á sjálfan sig, þ.e þykjast sjálf ekki þekkja fólk eða muna hvert leiðinni er heitið. Það gæti því varpað skýrara ljósi á stöðu pabba þíns að vera vakandi fyrir hegðun móður þinnar.

Flókið verkefni sem bíður

Sennilega bíður ykkar flókið verkefni en hafðu í huga að þú leysir það ekki ein og ekki á einni nóttu. Þess vegna gæti reynst þér vel að hægja aðeins á og létta á pressunni um að eitthvað verði að gerast strax. Mögulega þarf mamma þín meiri aðlögunartíma eða fleiri dæmi til sönnunar um veikindin og því gæti verið gott fyrir ykkur að lauma inn fræðslumolum og ábendingum sem sá fræjum hjá foreldrum þínum. Þarna geta spurningar verið mjög voldugar. Þú gætir t.d spurt pabba þinn hvort hann hafi villst eða hvort hann muni ekki eftir fólki sem þú veist að hann hefur alltaf kannast við. Á þessu stigi geta líka heimildarmyndir, kynningarefni eða fræðslufundir komið sterkt inn. Þá gæti verið næsta skref að fá viðtal við lækni sem getur kannað ástand pabba þíns. Kannski er bara um eðlilega ellihrörnun að ræða, kannski vill hann gera frekari athuganir en þá hefur þú komið þessum grun í ferli sem þú ein berð ekki ábyrgð á.

Þú ert að gera hárrétt með því að vera vakandi og umhugað um heilsu foreldra þinna og leita þér aðstoðar við óþekktum aðstæðum. Það mun skila jákvæðum árangri. Gangi ykkur öllum sem allra best.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Sýndi á sér brjóstin í stúkunni og allt varð snælduvitlaust – „Það eru börn hérna!“ – „Sestu aftur niður tíkin þín“

Sýndi á sér brjóstin í stúkunni og allt varð snælduvitlaust – „Það eru börn hérna!“ – „Sestu aftur niður tíkin þín“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þessi einfalda spurning gæti komið í veg fyrir næsta rifrildi við makann

Þessi einfalda spurning gæti komið í veg fyrir næsta rifrildi við makann