fbpx
Fimmtudagur 20.janúar 2022
Fastir pennarFókus

Sonur minn er fíkill – Finnst ég þurfa að velja hann eða eiginmanninn

Fókus
Sunnudaginn 27. júní 2021 19:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem er meðvirk með syni sínum sem er fíkill.

Kristín Tómasdóttir

Sæl Kristín.

Sonur minn er fíkill og maðurinn minn (stjúppabbi stráksins) er að gefast upp á því hvað ég er meðvirk og að líf okkar snúist um drenginn sem er orðinn fullorðinn. Mér líður eins og ég þurfi að velja á milli þeirra og að mér sé stillt upp við vegg. Ég skil manninn minn mjög vel en ég get ekkert gert til þess að laga þetta því ég get ekki breytt syni mínum. Ég kem allsstaðar að lokuðum dyrum og fæ enga aðstoð fyrir mig nema borga tugir þúsunda til sálfræðings.

Bestu kveðjur.

Ógjörningur að velja milli sonar og eiginmanns

Takk fyrir spurninguna þína. Mikið finn ég til með þér í þessari erfiðu stöðu. Eins og þú segir sjálf þá er ógjörningur að ætla sér að velja milli sonar og eiginmanns. Það er staða sem engin kona á að þurfa að vera í. Í svona málum er mun auðveldara að segja en að gera. Það vilja allir ráða þér heilt en ef það væri til töfralausn fyrir aðstandendur fíkla þá væru ekki jafn margir og raunin er í þínum sporum.

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að fjölskyldu- og parameðferð er ein árangursríkasta meðferðarleiðin við allskyns andlegum vanda einstaklinga. Þetta merkir að það getur skilað sambærilegum árangri að veita fjölskyldu þunglyndissjúklings samtalsmeðferð og lyf geta hjálpað þunglyndum einstaklingi. Sem betur fer eru fæstir eyland og okkar nánasta fólk er svo voldugt og áhrifamikið þegar kemur að andlegri líðan. Þessu til stuðnings má benda á að Alþjóða heilbrigðisstofnunin telur einmannaleika og tengslaleysi vera efst yfir alvarlegustu heilbrigðisvandamál í heimi. Punkturinn minn er þessi: til þess að geta hjálpað syni þínum og verið til staðar fyrir hann þá gæti verið gott fyrir þig og manninn þinn að sækja ykkur aðstoð sem par.

Getur hann verið stuðpúðinn þinn?

Fjölskyldur eru samsettar af kerfum. Þú og maðurinn þinn eruð eitt kerfi, þú og sonur þinn eruð mæðgina kerfi og svo tilheyrir þú öðru kerfi með t.d. foreldrum þínum. Til þess að stuðla að heilbrigðum samskiptum innan fjölskyldna er afar mikilvægt að mörk milli þessara kerfa séu skýr. Af spurningu þinni að dæma gæti ég trúað að það mætti skýra betur mörk milli parakerfisins sem þú og maðurinn þinn eigið og svo mæðginakerfisins. Þarna komum við líka að þeirri staðreynd að maðurinn þinn er stjúpfaðir sonar þíns og stjúptengsl geta verið afar illa skilgreind og markalaus. Það gæti því verið hjálplegt fyrir þig og manninn þinn að kortleggja vel og skilgreina hvenær þú þarft á hans aðstoð að halda í tengslum við son þinn og hvenær ekki. Hvert er hans hlutverk í tengslum við uppkominn son þinn? Getur hann verið stuðpúðinn þinn þó hann sé ekki sjálfur í samskiptum við hann? Getur þú verið í samskiptum við son þinn án þess að hann sé það?

Tengsl eru ferskvara

Fjölskyldufræði eru ekki allskostar ólík stefnumótunarfræðum því tengsl eru ferskvara og við þurfum stöðugt að vera að meta hvert við viljum að þau séu að þróast. Setja okkur stefnu um hver hlutverk okkar eru gagnvart hvort öðru og marka vörður að því hvert við viljum fara með þessi tengsl svo öllum líði vel.

Við sem samfélag erum afar föst í því hvernig pör og fjölskyldur „eigi” að haga sér og þessar óskrifuðu reglur geta verið ansi óraunhæfar. Sem dæmi má nefna að pör „eiga” að búa saman, stunda sameiginlegt áhugamál og bera útivistarjakka í stíl. Pör eiga að vera samstíga í uppeldi og mæta börnum sínum og stjúpbörnum jafnt. Þessar óskrifuðu lífsreglur samfélagsins geta flækst fyrir fjölskyldum þegar á reynir og ég hef séð í mínu starfi hve vel það getur reynst að stíga út fyrir þennan kassa. Gæti það til að mynda hentað ykkur hjónunum að búa í sitthvoru lagi þó þið haldið áfram að vera hjón? Gætir þú hitt son þinn á ákveðnum dögum án þess að maðurinn þinn sé með? Nú veit ég ekki nákvæmlega hvernig aðstæður ykkar eruð en prófaðu að endurhugsa þær með tilliti óhefðbundinna leiða.

Að lokum, ég vildi að ég væri með töfralausn en þú ert miklu líklegri til þess að geyma hana sjálf hjá þér. Þú þarft að finna þína lausn sem hentar ykkur þremur án þess að koma þurfi til skilnaðar eða að þú þurfir að slíta á tengslin við son þinn. Kannski er sú lausn óhefðbundinn og þá verður bara að hafa það. Prófaðu að stokka aðeins upp, setja súrefnisgrímuna fyrst á þig og finna nýjar vörður sem þú getur stuðst við á þessum grýtta vegi. Eitt er víst, þú ert með hjartað á réttum stað og þú getur treyst því. Gangi þér vel.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Sýndi á sér brjóstin í stúkunni og allt varð snælduvitlaust – „Það eru börn hérna!“ – „Sestu aftur niður tíkin þín“

Sýndi á sér brjóstin í stúkunni og allt varð snælduvitlaust – „Það eru börn hérna!“ – „Sestu aftur niður tíkin þín“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þessi einfalda spurning gæti komið í veg fyrir næsta rifrildi við makann

Þessi einfalda spurning gæti komið í veg fyrir næsta rifrildi við makann