fbpx
Mánudagur 27.september 2021
Fastir pennarFókus

Meint andlát Avril Lavigne og róandi máttur samsæriskenninga

Fókus
Mánudaginn 5. apríl 2021 19:30

Skondin mynd sem varpar ljósi á hvað sumar samsæriskenningar geta verið þunnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elva Björk Ágústsdóttir, sálfræðikennari og umsjónarkona Poppsálarinnar skrifar:

Undarleg kenning um andlát Avril Lavigne hefur verið á sveimi á netinu undanfarin ár. Samkvæmt kenningunni á popp pönk söngkonan Avril Lavigne að hafa tekið sitt eigið líf í kringum 2003, þegar hún var á hátindi ferilsins og önnur kona komið í hennar stað.

Vegna álagsins í kringum árið 2003 og áfalla í fjölskyldu Avril Lavigne á umboðsskrifstofa hennar að hafi ráðið leikkonu að nafni Melissa Vandella til að hlaupa í skarðið. Samkvæmt kenningunni átti umboðsskrifstofan síðan að hafa tekið þá ákvörðun að halda áfram með Avril Lavigne nafnið og áætlanir hennar eftir að hún átti að hafa tekið sitt eigið líf og fengið leikkonuna Vandella til að taka við keflinu.

Þeir sem trúa þessu benda á ýmis teikn í textum Avril, eða Melissu, hugmyndum sínum til stuðnings. Einnig benda þeir á breytt útlit hennar, breytta rithönd, líkamshæð, söngstíl og fatasmekk. Avril hefur þrætt fyrir þetta, en telja þeir sem þessu trúa að um falskar yfirlýsingar sé að ræða.

Í nýjasta þættinum af Poppsálinni er farið í þessa sérkennilegu kenningu eða samsæriskenningu, upphaf hennar og hví kenningin lifir áfram. Einnig er farið í það af hverju fólk fellur í þá gryfju að trúa samsæriskenningum. 

Kenningin um andlát Avril Lavigne er nefnilega tilbúin samsæriskenning, samin af brasilískum bloggara eða bloggsíðu, sem nefnist Avril esta morta, með það að markmiði að kanna hve hratt slúður nær að dreifast og hve auðvelt það er að blekkja fólk.

Þrátt fyrir að brasilíska bloggið hafi staðfest að um uppspuna hafi verið að ræða, trúir fólk ennþá kenningunni. Þetta er því samsæriskenning sem virðist hafa náð að lifa sjálfstæðu lífi og erfitt virðist vera að telja fólki trú um að Avril sjálf sé ekki látin.

Aðrir frægir einstaklingar hafa einnig þurft að sverja fyrir það að vera enn á lífi.  Dæmi um slíkt er þekkt saga um dauðsfall Paul McCartney. Hann er talinn hafa látist í bílslysi árið 1966 og að tvífari hans hafi leikið hann eftir það. Aðdáendur reyna að finna sannanir á öllu sem viðkemur þessu máli, telja til dæmis að John Lennon segi í laginu Strawberry fields forever „I buried Paul”. Lennon hefur sjálfur fullyrt að hann segi cranberry sauce. Einnig telja aðdáendur að sú staðreynd að McCartney sé sá eini sem er berfættur á plötuumslagi Abbey Road sé merki um andlát hans. Þegar svona kenningar eru ræddar opinberlega, fara aðrir að hlusta og leita að merkjum sem styðja þær og safnast þá meira í samsæriskenningasarpinn.

Elva Björk. Mynd/Valli

Ótrúleg dreifing samsæriskenninga

Þetta er klassískt dæmi um það hvernig samsæriskenningar ná að dreifast og lifa. Ákveðnar hugsanaskekkjur ná að viðhalda kenningunum. Staðfestingarskekkja (e. Confirmation bias)  er dæmi um hugsanavillu sem gegnir stóru hlutverki í myndun samsæriskenninga. Við höfum tilhneigingu til að leita frekar að upplýsingum sem samræmast núverandi viðhorfi okkar og trúa þeim. Við tökum sem sagt betur eftir hlutum sem staðfesta trú okkar en hlutum sem hrekja hana

Þegar alvarlegir og óvæntir atburðir gerast, þar sem hversdagslegri skýringar virðast ófullnægjandi aukast líkur á myndun samsæriskenninga. Samsæriskenningar verða einnig til þegar fólk upplifir mikla óvissu og óöryggi.  Þegar við upplifum stóra atburði og fáum óljósar og takmarkaðar upplýsingarnar um þá, þá eigum við það til að reyna að tengja slitróttu punktana saman. Samsæriskenningar bjóða upp á skýringar sem veita þessa tengingu.

Kenningarnar gera svo oft ráð fyrir einhverri einni undirliggjandi orsök sem er jafnvel falin almenningi.  Þegar ruglingslegir og kvíðavaldandi  hlutir gerast, sem erfitt er að finna ástæðu fyrir, geta trúaðir þá gengið út frá því að það sé vegna þess að þeir eru blekktir viljandi. Utanaðkomandi öfl séu að verki sem við höfum ekki upplýsingar um. Atburðinn gerðist því ekki fyrir algjöra tilviljun og eða vegna margra ótengdra þátta. Þegar ástæða stórra og ótrúlegra atburða eru taldar vera huldar almenningi og stjórnað af ytri og jafnvel yfirnáttúrulegum öflum getur verið svo auðvelt að fella allar hugmyndir og atburði að því. Rökfærslan verður stutt og skýr sem minnkar óöryggið.

Netið ýtir undir samsæriskenningar

Þegar þú trúir á samsæriskenningu nærðu svo auðveldlega að sveigja sannleikann að þinni hugmynd og verður það oft auðveldara því sérkennilegri sem kenningin er. Ef ég til að mynda trúi því að geimverur stjórni heiminum, þá er svo auðvelt fyrir mig að skilja af hverju óskiljanlegri hlutir gerast. Ef ég skil ekki eitthvað, þá er það af því geimverur stjórna okkur og ég skil ekki geimverur. Ef eitthvað er ósanngjarnt, þá er það af því geimverur stjórna okkur og þær eru ósanngjarnar og ég skil þær ekki. Ég þarf ekkert að útskýra mál mitt frekar þegar ég trúi á svona skrítna hluti. Allt nær einhvern veginn að falla að málstað mínum. Ég næ alltaf að sveigja hlutina í mína átt.

Netið ýtir síðan undir svona kenningar. Einstaklingar sem trúa á sérkennilega hluti voru mögulega einir í heiminum með sínar pælingar og fáir tóku undir þær. Fyrir tíma netsins gátu svona hugmyndir fjarað fyrr út. En núna geta einstaklingar reifað sínar hugmyndir á netinu og og fundið einhvern sem er á sömu bylgjulengd. Hópurinn stækkar, „sannanirnar” hrúgast inn og einstaklingarnir finna fyrir öryggi yfir því að hafa fundið aðra sem eru eins þenkjandi.

Hægt er að nálgast nýjasta Poppsálar-þáttinn hér:

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Innbrot í Hlíðahverfi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Oscar Leone spilar við opnun þjóðarleikvangs Lúxemborgar

Oscar Leone spilar við opnun þjóðarleikvangs Lúxemborgar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hvernig hefði Jónas Hallgrímsson ort á tímum loftslagsbreytinga?

Hvernig hefði Jónas Hallgrímsson ort á tímum loftslagsbreytinga?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fyrrum kennari ætlar sér að gera klám í geimfari Elon Musk

Fyrrum kennari ætlar sér að gera klám í geimfari Elon Musk
Fókus
Fyrir 3 dögum

Helgi Ómars var í ofbeldissambandi í átta ár – „Ég var í sambandi með, að ég hélt, ástinni í lífi mínu“

Helgi Ómars var í ofbeldissambandi í átta ár – „Ég var í sambandi með, að ég hélt, ástinni í lífi mínu“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vinsælasta fólkið á Tinder gefur ráð – „Byrjaðu samtalið á góðum brandara“

Vinsælasta fólkið á Tinder gefur ráð – „Byrjaðu samtalið á góðum brandara“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ragnhildur Steinunn gerði allt vitlaust er hún bjó til aðganginn – „Vinsælasta stúlkan þakkar góðar móttökur“

Ragnhildur Steinunn gerði allt vitlaust er hún bjó til aðganginn – „Vinsælasta stúlkan þakkar góðar móttökur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kærastinn talaði upp úr svefni og ljóstraði upp leyndarmáli sem eyðilagði sambandið

Kærastinn talaði upp úr svefni og ljóstraði upp leyndarmáli sem eyðilagði sambandið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sjáðu stikluna fyrir þriðju þáttaröð af „You“

Sjáðu stikluna fyrir þriðju þáttaröð af „You“