fbpx
Föstudagur 26.nóvember 2021
EyjanFastir pennar

Handritin og Beethoven í Færeyjum

Eyjan
Sunnudaginn 25. apríl 2021 18:00

Frá því þegar fyrstu handritin komu heim árið 1971. Danska varðskipið Vædderen stendur við bryggju, skátar standa heiðursvörð og sjóliðar af Vædderen halda á pökkum með handritum, Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða.  Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókmenntaiðkun Íslendinga á síðmiðöldum á sér enga hliðstæðu í nálægum löndum og íslenskar fornbókmenntir hafa auðgað menningu heimsins svo um munar. Í heimsbókmenntasögunni skipa þær heiðurssess. Allt er þetta kunnara en frá þurfi að segja. En frumleg sköpun bókmennta hér var vitaskuld ekki sjálfsprottin. Úti á miðju Norður-Atlantshafi lágu menningarstraumar saman vegna mikillar millilandaverslunar og landnáms fólks af ólíkum uppruna. Og í krafti auðs var hægt að senda unga menn til náms við fremstu skóla norðanverðrar álfunnar — og jafnvel sunnar.

Fátt hefur mótað íslenska menningu meira en fornbókmenntirnar og í nýliðinni viku var þess minnst að fimmtíu ár voru liðin frá afhendingu tveggja fyrstu handritanna frá Dönum, Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók. Enginn íslenskra ráðamanna átti meiri þátt í lausn handritamálsins en Gylfi Þ. Gíslason sem var menntamálaráðherra árin 1956–1971 og einkar vel við hæfi það skyldi einmitt vera hann sem veitti þessum tveimur dýrgripum viðtöku við hátíðlega athöfn í Háskólabíói síðasta vetrardag 1971. Gylfi var þá formaður Alþýðuflokksins sem hafði um langa hríð haldið góðum tengslum við systurflokka sína í öðrum Evrópuríkjum, sér í lagi á Norðurlöndum. Traust sambönd Gylfa við danska sósíaldemókrata skiptu sköpum við að ráða málinu til lykta, en hann naut mikillar virðingar meðal norrænna stjórnmálamanna. Thor Vilhjálmsson rithöfundur komst svo að orði um Gylfa í minningarorðum:

„Og það var líka unun að fylgjast með því þegar Gylfi kom fram fyrir hönd þjóðar sinnar, orðhagur, vandaði mál sitt, og talaði til að segja eitthvað, og þá brást ekki ef hann talaði á erlendum tungum var það lýtalaust í framburði, orðfæri og hugsun.“

Sannarlega fágætur eiginleiki stjórnmálamanns.

Handritin voru gjöf

Í rauninni áttu hérlendir ráðamenn ekki heimtingu á að Danir afhentu handritin. Þau voru gjöf til Íslendinga og leitun að öðru eins vinarbragði í samskiptum ríkja. Gylfi orðaði það svo síðar að Danir hefðu með þessu sýnt „öðrum þjóðum göfugmannlegt fordæmi um, hvernig hægt er að leysa hin viðkvæmustu deilumál með góðvild og drengskap“.

Þrátt fyrir að vera einlægur ættjarðarvinur varaði Gylfi við því í skrifum sínum að ást á þjóðmenningu leiddi til afturhaldssemi og þjóðrembings. Til eru vítin af varast í þeim efnum og víða í okkar samtíma eiga þjóðernisöfgar og útlendingahatur miklu fylgi að fagna. Líka hér á landi.

Slíkar öfgar breyta samt engu um gildi menningar einstakra þjóða og þjóðarbrota. Fjölbreytni menningar á heimsvísu er verðmæti í sjálfu sér. En að því sögðu er vert að huga að því sem ég nefndi hér að framan um tilurð íslenskra miðaldabókmennta. Þær eru ekki menningarlega einangrað fyrirbæri heldur orðnar til í kjölfar samruna ólíkrar menningar og ólíkra þjóða, ritaðar af hálærðum mönnum sem sumir hverjir höfðu sótt sér klassíska menntun við fremstu skóla álfunnar. Íslenskar fornbókmenntir eru samevrópskur arfur líkt og hljómkviður Beethovens.

Mynd/Stamps.fo

Kunningi minn, færeyski listamaðurinn Heiðríkur á Heygum, var fenginn til að teikna mynd fyrir frímerki konunglegu færeysku pótsþjónustunnar sem gefið var út í fyrra í tilefni þess að liðin voru 250 ár frá fæðingu Ludwigs van Beethovens. Myndin sýnir tónskáldið í færeyskum búningi umkringdur táknmyndum eyjanna; sauðkind, lunda, hval og sumarblómum.

Færeyingar eiga nefnilega jafmikið tilkall til Beethovens og íbúar meginlands Evrópu. Tónbókmenntir hans eru sameiginlegur arfur mannkyns. Það eru íslensku fornbókmenntirnar líka.

Eigum ekki að óttast alþjóðasamvinnu

Ég vitnaði hér að ofan til þess íslensks stjórnmálamanns sem átti hvað drýgstan þátt í farsælli lausn handritamálsins, Gylfa Þ. Gíslasonar. Árin 1959–1970 sat Gylfi í ríkisstjórn með Bjarna Benediktsyni sem var þar af forsætisráðherra frá 1963 allt þar til hann lést 1970. Með þeim Gylfa og Bjarna var gott persónulegt samstarf, heiðarleiki og gagnkvæmur trúnaður. Báðir voru þeir hálærðir, hvor á sínu sviði, prófessorar við Háskóla Íslands, og í miklum tengslum við stefnur á strauma á meginlandi Evrópu.

Í áramótaræðu sinni 1966 lét Bjarni svo um mælt að það væri fásinna að nokkur þjóð gæti á okkar dögum lifað án samvinnu við aðra. Hann bætti því við að einangrun og höft millistríðsáranna hefðu blandast „þjóðernishroka, svo að hver tók sér sinn rétt sjálfur, hirti eigi um alþjóðalög heldur gerðist dómari í eigin sök. Sjálfbirgingshátturinn hleypti svo skjótlega seinni heimssyrjöldinni af stað.“

En nú væri öldin önnur, menn hefðu lært af ósköpum kreppu og tveggja heimsstyrjalda:

„Samvinna og vaxandi skilningur þjóða í milli ráða nú í stað einangrunar og sjálftöku áður. Við eigum þess vegna ekki að óttast samvinnu við aðra, heldur sækjast eftir henni til að bæta landið og lífskjör fólksins, sem í því býr.“

Á sama hátt og erlend samskipti leiddu af sér íslenskar fornbókmenntir, merkasta framlag Íslendinga til heimsbókmenntanna, þá var það einangrun síðari alda sem drap næstum þjóðina. Bjarni Benediktsson gerði þetta að umtalsefni í deilum um inngöngu Íslands í Fríverslunarbandalag Evrópu 1969:

„Vísindi og tækni nútímans og hagnýting þeirra er bundin þeirri forsendu, að víðtækt samstarf eigi sér stað. Þess vegna leita jafnvel stórþjóðirnar samstarfs hver við aðra, jafnt stórar þjóðir sem smáar. Ef stórþjóðunum er slík þörf, þá er smáþjóðunum það nauðsyn … Ef aðrir, þeir sem okkur eru líkastir að menningu og efnahag, hafa svo góða reynslu, hví skyldum við þá óttast, að reynsla okkar yrði önnur og lakari?“

Alþjóðahyggja er nauðsyn

Og alþjóðasamstarf snýr ekki eingöngu að verslun og viðskiptum. Hið menningarlega samstarf skiptir ekki minna máli. Íslensk menning hefur gildi í sjálfri sér og hún hefur gildi fyrir heimsmenninguna. En líf hennar og framþróun hennar er komin undir alþjóðahyggju, víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi, ella mun hún tréna, visna og á endanum hverfa — líkt og ótal dæmi eru um.

Aukin samvinna Evrópuríkja hefur ekki orðið til að deyfa þjóðareinkenni heldur hefur menningarlegt sjálfstæði smáríkja og lítilla þjóðarbrota farið vaxandi í krafti þeirrar samvinnu. Gylfi Þ. orðaði það einmitt svo í bók sinni Vandi þess og vegsemd að vera Íslendingur að samvinna þyrfti ekki að stofna sérkennum þjóðanna í hættu. Hún gæti þvert á móti orðið til að styrkja þau og efla:

„En smáþjóðirnar þurfa að vita, hvað þær vilja. Þær þurfa að þekkja sinn vitjunartíma. Ef Íslendingar hafa opin augu fyrir því, sem er að gerast í heiminum og vilja halda áfram að vera Íslendingar í landi sínu, getur þeim tekist það. Og þá gegna þeir skyldu sinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

433Fastir pennarSport
05.10.2021

Arnari Viðarssyni til varnar

Arnari Viðarssyni til varnar
EyjanFastir pennar
03.10.2021

Stjórnarmyndunarumboðið er annað og meira en bara „goðsögn“

Stjórnarmyndunarumboðið er annað og meira en bara „goðsögn“
Fastir pennarFréttir
22.09.2021

Eva Rut Lund skrifar: Engin svör eftir að hafa greinst með HPV og frumubreytingar – Kerfin tala ekki saman

Eva Rut Lund skrifar: Engin svör eftir að hafa greinst með HPV og frumubreytingar – Kerfin tala ekki saman
EyjanFastir pennar
29.08.2021

Björn Jón Bragason skrifar: Vondir embættismenn – seinni hluti

Björn Jón Bragason skrifar: Vondir embættismenn – seinni hluti
EyjanFastir pennar
22.08.2021

Steingeldir stjórnmálaflokkar

Steingeldir stjórnmálaflokkar
EyjanFastir pennar
04.07.2021

Ríkisstofnanir í fjölmiðlaleik

Ríkisstofnanir í fjölmiðlaleik
Fastir pennarFókus
27.06.2021

Sonur minn er fíkill – Finnst ég þurfa að velja hann eða eiginmanninn

Sonur minn er fíkill – Finnst ég þurfa að velja hann eða eiginmanninn
Fastir pennar
13.06.2021

Ég dýrka nýja kærastann svo mikið að ég er með þráhyggju fyrir honum – Hvernig kem ég í veg fyrir að ég kæfi hann?

Ég dýrka nýja kærastann svo mikið að ég er með þráhyggju fyrir honum – Hvernig kem ég í veg fyrir að ég kæfi hann?
EyjanFastir pennar
13.06.2021

„Kerfið ver sig með kjafti og klóm“

„Kerfið ver sig með kjafti og klóm“