fbpx
Miðvikudagur 12.maí 2021
EyjanFastir pennar

„Við eigum þess vegna ekki að óttast samvinnu við aðra…“

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 17. janúar 2021 16:00

Bjarni Benediktsson í maí 1963. MYND/ INGIMUNDUR MAGNÚSSON

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umræðan um Evrópumálin er öfgakennd. Ríki neyta fullveldis síns með því að undirgangast alþjóðlegar skuldbindingar. Eineðliskenning í framkvæmd hér fyrr á árum.

Nú um áramótin, bráðum fimm árum frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um útgöngu úr Evrópusambandinu, yfirgáfu Bretar loks innri markað og tollabandalagið. Hinir áköfustu stuðningsmenn útgöngu gátu þó ekki fagnað sem skyldi því pöbbarnir eru lokaðir í sóttvarnaskyni.

Umræðan um Evrópusambandið er á tíðum öfgakennd og pendúllinn hefur sveiflast æ meira í kjölfar Brexit. Staksteinar Morgunblaðsins vitnuðu síðastliðinn laugardag til skrifa Páls Vilhjálmssonar, bloggara og þekkts andstæðings ESB, sem gert hafði útgönguna að umtalsefni á vefsvæði sínu. Meðal tilvitnaðra ummæla Páls eru þessi: „Nasisminn kynnti hugmyndina einn foringi, eitt ríki á meðan kommúnisminn boðaði alræði öreiganna. Evrópusambandið er millivegurinn: eitt ríki undir skrifræði embættismanna.“ Þessi óhróður er hlægilegur og furðulegur í senn en það var fyrir framsýni lýðræðissinnaðra leiðtoga Vestur-Evrópu að stofnað var til Efnahagsbandalags Evrópu, forvera Evrópusambandsins.

Mikilvægi viðskiptabandalaga

Íslenskum stjórnvöldum var ljóst frá stríðslokum að landið yrði að vera þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi um efnahagsmál. Þau fylgdust grannt með stofnun Efnahagsbandalagsins (EBE) vitandi að tvíhliða samningar við einstök ríki yrðu aldrei jafngildir fjölþjóðlegum markaðsbandalögum, en sem dæmi má nefna þá voru hin umfangsmiklu viðskipti Íslands og Sovétríkjanna í formi vöruskipta með öllu því óhagræði sem slíkum viðskiptum fylgir.

Viðreisnarstjórnin, samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, hóf könnunarviðræður um inngöngu í Efnahagsbandalagið (forvera ESB) snemma á sjöunda áratugnum. Þá var almennt talið að EFTA og EBE rynnu brátt í ein samtök, en aðild að EFTA gat ekki komið til greina í upphafi sjöunda áratugarins vegna landhelgisdeilunnar við Breta sem voru þá forystuþjóð EFTA.

Bjarni Benediktsson tók við embætti forsætisráðherra 1963. Í áramótaræðu þremur árum síðar lét hann svo um mælt: „Fásinna er, að nokkur þjóð geti nú á dögum lifað án samvinnu við aðra.“ Þá nefndi hann að einangrun og höft millistríðsáranna hefðu blandast „þjóðernishroka, svo að hver einstakur tók sér sinn rétt sjálfur, hirti eigi um alþjóðalög heldur gerðist dómari í eigin sök. Sjálfbirgingshátturinn hleypti svo skjótlega seinni heimsstyrjöldinni af stað. Sem betur fer hafa menn lært svo mikið af öllum þeim ósköpum, að nú eru allt önnur viðbrögð en áður fyrri. Samvinna og vaxandi skilningur þjóða í milli ráða nú í stað einangrunar og sjálftöku áður. Við eigum þess vegna ekki að óttast samvinnu við aðra, heldur sækjast eftir henni til að bæta landið og lífskjör fólksins, sem í því býr.“

Fullveldi er ekki í sneiðum

Þegar Bjarni flutti ávarp sitt hafði verið mikill uppgangur í íslensku efnahagslífi um hríð og því hvorki efnahagslegur né pólitískur þrýstingur fyrir því að knýja dyra hjá Efnahagsbandalaginu. Það var ekki fyrr en harðna tók á dalnum í kjölfar hruns í norskíslenska síldarstofninum 1967 samfara verðhruni á erlendum mörkuðum að Evrópumálin komust aftur á dagskrá enda voru tollalækkanir innan viðskiptabandalaganna beggja farnar að skaða íslenska útflutningshagsmuni.

Úr varð að Íslendingar hófu viðræður um inngöngu í Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) í janúar 1969 og þingsályktun um aðild var samþykkt á Alþingi í desember sama ár. Hún vakti harðar deilur, rétt eins og innganga Íslands í Evrópska efnahagssvæðið sem samþykkt var 1993. Var gjarnan vísað til þess að EES-samningurinn væri stórhættulegur íslensku fullveldi, en svo virðist sem þá hafi (já og löngum) gleymst að í fullveldinu er fólgin heimild til að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar. Þessu má líkja við lögráða einstakling. Ef hann ræður sig í vinnu er hann ekki að skerða lögræði sitt heldur beita því.

Tal um „skerðingu fullveldis“ er síður en svo séríslenskt. Það hljómaði í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um útgöngu úr Evrópusambandinu og ámóta viðhorfa gætir líka í þjóðmálaumræðu Ungverjalands þessi misserin þar sem þjóðernisöfgaöfl hafa átt vinsældum að fagna.

Eineðli og tvíeðli

Bjarni Már Magnússon lagaprófessor var gestur minn í þættinum Sögu & samfélagi á Hringbraut síðastliðið haust og sagði þar frá rannsóknum sínum sem sýndu meðal annars að dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands frá því á fjórða áratug síðustu aldar bæri skýr merki svokallaðrar eineðliskenningar, en þar hafi Hæstiréttur látið ólögfesta alþjóðasamninga ganga framar stjórnvaldsfyrirmælum.

Íslenskir fræðimenn hafa á seinni áratugum haldið því fram að hér á landi sé við lýði svokölluð tvíeðliskenning sem felur það í sér að ólögfestir alþjóðasamningar sem Ísland hefur undirgengist hafi ekki beina réttarverkan. Bjarni Már bendir þó á að svo virðist sem önnur viðhorf hafi verið uppi fyrr á árum. Þannig hafi Bjarni Benediktsson, þá utanríkisráðherra, bent á það þegar Ísland gerðist aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu um 1950 að samningurinn hefði bein áhrif á landsrétt hér þó svo að hann hefði ekki verið lögfestur. Bjarni Már bendir enn fremur á að nafni hans Benediktsson hafi verið dómari í tveimur skaðabótamálum á fjórða áratugnum sem vörðuðu tökur á skipum innan íslenskrar landhelgi þar sem gert sé ráð fyrir því að þjóðréttarsamningar gangi framar stjórnvaldsfyrirmælum. Bjarni Már segir að svo virðist sem nafni sinn geri „ráð fyrir því að einstaklingar geti byggt rétt á Mannréttindasáttmálanum óháð því að hann sé ólögfestur og þetta er öðruvísi en myndi vera í dag og það hefur verið erfitt fyrir einstaklinga að beita ólögfestum mannréttindasamningum til að öðlast einhvern rétt fyrir íslenskum dómstólum.“

Óskandi væri að íslenskir stjórnmálamenn ræddu þessi mál til þrautar og tækju þá afstöðu til þess hvort hugsanlega væri rétt að breyta um kúrs þannig að almenningur geti reist rétt á alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist og Alþingi samþykkt – óháð því hvort sérstök lög hafi verið sett um málefnið. – Eða hví skyldu íslensk stjórnvöld undirgangast alþjóðlegar skuldbindingar sé ekki ætlunin að þær hafi neina réttarverkan fyrir íslenska borgara?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fastir pennarFókus
Fyrir 1 viku
Vondir embættismenn

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Þrjú smit í gær
EyjanFastir pennar
09.04.2021
Farsóttarfangelsið
Fastir pennarFókus
01.04.2021

Tenerife verður Hveragerði verður Verahvergi

Tenerife verður Hveragerði verður Verahvergi
Fastir pennar
01.04.2021

Karlar sem pressa á konur til að stunda kynlíf

Karlar sem pressa á konur til að stunda kynlíf
Fastir pennar
19.03.2021

Stóra leyndarmál lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Stóra leyndarmál lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
Fastir pennar
17.03.2021

Það er hjálp að fá!

Það er hjálp að fá!
Fastir pennarFókus
01.03.2021

Sjálfsvíg, eiturlyf, barnaklám og drukknun – Hvílir bölvun á Glee ?

Sjálfsvíg, eiturlyf, barnaklám og drukknun – Hvílir bölvun á Glee ?
EyjanFastir pennar
26.02.2021

Sagan um saklausa símtalið

Sagan um saklausa símtalið
EyjanFastir pennar
13.02.2021

Misbeiting valds – Málsvörn Jóns Ásgeirs vekur áleitnar spurningar

Misbeiting valds – Málsvörn Jóns Ásgeirs vekur áleitnar spurningar
Fastir pennarFókus
11.02.2021

Svala Björgvins: Tónlistin björgunarbátur í öldusjó

Svala Björgvins: Tónlistin björgunarbátur í öldusjó