fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fastir pennarFókus

Er hægt að vera í góðu ástarsambandi? – Samböndin mín hingað til hafa verið frekar glötuð

Fókus
Sunnudaginn 4. júlí 2021 22:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar hún lesanda sem er að missa trú á ástinni.

Kristín Tómasdóttir

Sæl

Ég hef verið í nokkrum samböndum og þau hafa öll verið frekar glötuð en hvert á sinn hátt. Eins dramatískt og það hljómar þá er ég að missa trú á ástinni. Er hægt að vera í góðu ástarsambandi?

 

Góð ástarsambönd ýta undir lífshamingju

Sæl og blessuð

Stutta svarið: Já, það er hægt.

Langa svarið: Takk fyrir ansi góða og stóra spurningu. Mig grunar að ein ástæða þess að fólk endist í leiðinlegum samböndum sé einmitt sú að það trúir ekki að annað sé til. Það er algeng samfélagsleg mýta að ástarsambönd séu vinna og að fólk þurfi að leggja mikið á sig til þess að upplifa hamingjuríkt samband. Aftur á móti eru hin bestu sambönd áreynslulaus og nýtast sem grunnur að ánægjulegum tengslum og samskiptum á öðrum sviðum. Við þekkjum það flest að ef illa gengur í ástarsambandi þá bitnar það á t.d. vinnu, foreldrahlutverkinu og tengslum við vini og stórfjölskyldu.

Ef þú spyrð mjög hamingjusamt fólk hversvegna það er svona hamingjusamt þá er tíðasta svarið „gott parsamband”. Það merkir að það eru til ástarsambönd sem ýta verulega undir hamingju. Þessi staðreynd gæti hjálpað þér að meta sambandið sem þú ert í. Myndir þú segja að það ýti undir eða dragi almennt úr hamingju þinni? Hvort ýtir það undir eða dregur úr öðrum vanda sem þú stendur frammi fyrir?

Er makinn vinur þinn?

Spurningin þín er frekar heimspekileg að því marki að til þess að svara henni þurfum við að svara spurningunni „hvað er ást?” og „hvað felst í því að vera ástfangin?”. Spurningar sem heimspekingar og fleiri spekingar hafa reynt að svara í aldanna rás en ekkert einfalt svar hefur fundist við.

Í minni vinnu sem hjónabandsráðgjafi styðst ég við nokkrar grundvallarforsendur til þess að greina vanda og leggja mat á parsambönd sem koma inn á mitt borð. Þessar breytur eru í megin dráttum fjórar þ.e. vinátta, ástríða, lífsskoðanir og þekking. Góð parsambönd virðast innihalda góða blöndu af þessu öllu og því ágætt að nýta þessa þætti til greiningar. Telur þú maka þinn sem vin þinn? Leitar þú til hans/hennar þegar þú lendir í vanda? Er maki þinn góður félagsskapur? Er ástríða á milli ykkar? Eru þið skotin í hvort öðru og þyrstir ykkur í að snerta hvort annað? Deilið þið lífsskoðunum eða er annað ykkar vegan og hitt kjötæta, annað hægri sinnað og hitt vinstri sinnað? Einn trúleysingi og annar kaþólikki? Ef svo er, þá er mikilvægt að bera virðingu fyrir mismunandi skoðunum að öðrum kosti tel ég líklegt að þið rífist um ansi margt.

Sterk sjálfsmynd

Þekkingarhlutinn getur verið snúinn því flestir telja sig þekkja maka sinn vel og í raun má segja að það sé rangt svar. Við erum alltaf að breytast og það skiptir miklu máli að vera á tánum og forvitin um hvert makinn er að stefna. Uppáhalds maturinn þinn er ekki sá sami í dag og þegar þú byrjaðir með makanum þínum fyrir áratugum síðan og skoðanir þínar á ýmsum málefnum eru vafalaust búnar að breytast. Af þeim sökum er mikilvægt í ástarsambandi að þekkjast vel en því má ekki taka sem sjálfsögðum hlut og nauðsynlegt er að sanka stöðugt að sér nýrri þekkingu.

Af spurningu þinni að dæma þá grunar mig að þú hafir ekki enn fundið þinn „rétta” maka og þar flækjast málin. Það þarf margt að ganga upp svo fólk smelli saman og slíkt vex ekki á hvaða strái sem er. Þar liggur oft mergur málsins þ.e. að fólk leggur ekki nægilega rannsóknarvinnu í makaval og byrjar með fólki sem það á ekkert að vera að byrja með. Og það kann að hljóma þversagnarkennt en fyrir fólk í þeirri stöðu að vera á lausu í leit að góðum maka þá mæli ég helst með því að sinna sjálfsrækt af krafti og styrkja eigin sjálfsmynd. Sú breyta sem hefur mest forspágildi um hamingju í framtíðinni er einmitt sterk sjálfsmynd og fólk með sterka sjálfsmynd er líklegri til þess að hitta og kynnast öðrum með sterka sjálfsmynd. Fólk með sterka sjálfsmynd er svo aftur líklegra til þess að vera hamingjusöm saman sem par. Þetta helst sem sagt allt í hendur og eykur líkurnar á bæði hamingju og góðu parsambandi.

Ég vona að þetta svar auki örlítið á trú þína á ástinni og jafnvel sjálfri þér. Hver veit nema það skili þér einmitt stóru ástinni í lífi þínu.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til
Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki