fbpx
Fimmtudagur 19.september 2019  |
Eyjan

Brosandi lögreglumaður tjáir sig

Egill Helgason
Laugardaginn 29. nóvember 2014 23:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögreglumaðurinn brosandi, Birgir Örn Guðjónsson, skrifar grein sem virðist hafa vakið nokkra athygli. Ekki er það þó vegna frumlegrar hugsunar eða efnistaka – nema síður sé.

Það sem Birgir er að amast við er svonefnd „pólitísk rétthugsun“. Maður hefur reyndar lesið milljón greinar þar sem hún er rædd og þessi er ekki sú skarpasta. Hins virðist Birgir vera orðinn einhvers konar andlit lögreglunnar út á við og þess vegna er rétt að bregðast aðeins við.

Í málsgrein tvö segir Birgir að allt virðist leyfilegt á Íslandi „nema að vera kristinn“. Svo mikið sé látið með „múslima, ásatrúarfólk eða þá sem trúa ekki yfirhöfuð“.

Það er líklega þess vegna að lútersk-evangelísk kirkja er þjóðkirkja á Íslandi og fær mestan sinn kostnað borgaðan af ríkinu – og að allir helstu foringjar íslenska ríkisins, frá forseta og forsætisráðherra til langflestra alþingismanna eru meðlimir í þessu trúfélagi. Sennilega líka helstu embættismenn og almennt frammámenn í samfélaginu. Það hefur meira að segja verið talið óhugsandi að forsetinn sé ekki í þjóðkirkjunni.

Í málsgrein þrjú er harmað að ekki megi ræða um málefni innflytjenda „nema á ákveðinn hátt“ og kvartað undan því að þeir séu „skotnir niður“ sem vogi sér að segja að við getum ekki tekið við „öllum hælisleitendum“.

Nú vill svo til að Ísland býr við stranga innflytjendalöggjöf. Við tökum við afar fáum hælisleitendum og flóttamönnum, en hins vegar höfum við undirgengist það í EES samningnum að borgarar Evrópuríkja hafi ákveðin réttindi hér. Á móti fáum við sömu réttindi í Evrópuríkjum. En það er í raun opinber stefna að taka helst ekki við hælisleitendum. Væri til bóta að breyta umræðuhefðinni svo við getum sameinast um að tala illa um þá?

Í fjórðu málsgrein er talað um að bannað sé að „tala með stolti um land og þjóð“.

Er það þess vegna að við erum sífellt að monta okkur af hinni fögru íslensku náttúru – sem sumir unna svo heitt að þeir vilja ekki spilla frekar – bókmenntum okkar, tónlistarmenningu, handboltalandsliði og nú síðast knattspyrnulandsliði? Íslendingar gefa engum eftir í þjóðerniskennd, svo mjög að við álítum okkur einstök í heiminum og teljum að við þurfum lítið að læra af öðrum þjóðum. Útrás íslenskra fjármálamanna á sínum tíma snerist upp í einhvers konar þjóðrembufár þar sem stjórnmálamenn kyntu undir – og hver er búinn að gleyma DeCode sem ætlaði að lækna alla heimsbyggðina með íslenskum genum?

Síðan er kykkt út með sögu um erlendan karl sem leyfði ekki konunni sinni að fara út að skemmta sér – og lögreglu sem bar að garði. Lögreglumaðurinn virðist hafa sagt við manninn að samkvæmt „íslenskum lögum í íslensku samfélagi“ megi menn ekki fara svoleiðis með konurnar sínar. Mikið rétt. En hugsanlegt er þó að í fleiri löndum sé kvennakúgun ekki liðin – og jafnvel að til séu íslenskir karlar sem fara illa með konurnar sínar, sumar máski af erlendum uppruna. Sagan gerir ekki annað en að vekja enn meiri spurn um viðhorfin sem liggja að baki greininni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Sjáðu línuritið um Ísland sem rataði ekki í kynningargögnin um OECD skýrsluna: „Hreint djöfullegt – Hvílík skömm!“

Sjáðu línuritið um Ísland sem rataði ekki í kynningargögnin um OECD skýrsluna: „Hreint djöfullegt – Hvílík skömm!“
Eyjan
Í gær

Ásmundur boðar nýjungar til íbúðakaupa: Skynsamleg leið til að komast yfir útborgunarþröskuldinn

Ásmundur boðar nýjungar til íbúðakaupa: Skynsamleg leið til að komast yfir útborgunarþröskuldinn