Stjórnsýslufræðingurinn Haukur Arnþórsson telur að stjórnarandstaðan sé að bergmála rússneskan áróður og veltir fyrir sér hvort það vaki fyrir henni að berjast gegn vestrænum gildum og samvinnu. Þetta kemur fram í færslu Hauks á Facebook sem er rituð í tilefni harðra viðbragða stjórnarandstöðunnar við Íslandsheimsókn forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Stjórnarandstaðan hefur farið mikinn síðustu daga út af heimsókn Ursulu von der Leyen. Meðal annars hefur því verið haldið fram að um leikrit sé að ræða, að lauma eigi Íslandi inn í Evrópusambandið og að Ursula von der Leyen hafi fengið handrit frá íslensku ríkisstjórninni um hvað hún ætti að segja í heimsókninni.
Hauki þykir þetta framferði stjórnarandstæðinga vægast sagt furðulegt og segir það vekja upp áleitnar spurningar um hvað vaki fyrir minnihlutanum á Alþingi.
„Það er eins og stjórnarandstöðunni renni ekki reiðin og hún slappi af, grilli og drekki sjampó. Nema hún gerir of mikið af hinu síðastnefnda. Hún þolir ekki að framkvæmdastjóri ESB heimsæki Ísland. Samt eru tæpur helmingur laga frá Alþingi frá ESB komin og allir stjórnmálamenn sameinast um að vinna faglega að gerð þeirra. Ísland þarf að hafa áhrif á þau og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Af hverju er stjórnarandstaðan að búa til hatur gagnvart ESB?“
Haukur rekur að jarðvegurinn hafi svo sem verið undirbúinn af rússneskum nethernaði. Sá hernaður hafi beinst gegn ESB til að skapa upplausn í Evrópu, aðskilnað milli ríkja og til að hindra að Evrópuríki komi fram sem sameiginlegt afl. Eins hafi áróður gegn ESB verið áberandi í tengslum við útgöngu Bretlands úr sambandinu, Brexit-málið alræmda. Sá áróður hafi að mestu verið byggður á ósannindum og nú hafi Bretar fengið að súpa af því seyðið. Eins hafi stjórnvöld í Bandaríkjunum undanfarið ráðist gegn Evrópuríkjum.
„Allt byggir þetta á því að sameiginleg gildi Evrópu, lýðræði, frelsi, mannréttindi og velsæld, jafnvel þeirra fátækustu – ógna alræðisríkjum. Sérstaklega Rússlandi þar sem kröfur almennings eru um frelsi að vestrænni fyrirmynd og alræðið stenst ekki nema með stórfelldri kúgun og upplognum áróðri.“
Sovétríkin hafi stundað þetta sama forðum gagnvart nágrannaþjóðum sem nutu meiri velsældar og meira frelsis. Nú er það þó Evrópa sem er óvinurinn og hafi margir Íslendingar sem eru lengst til vinstri fallið fyrir óróðrinum eins og sjá megi á spjallsvæði Sósíalistaflokksins, Rauða þræðinum, og þjóðernissinnar hafi svo fallið í þennan sama pytt.
„Rússneska pyttinn. Og hefur nóg af heimildum – flestum upplognum – um hörmungarnar í Evrópu, fátækt, niðursveiflu sem tekur engan endi og almenna vesöld og ófrelsi. Rússarnir reka „óháðar“ rannsóknar- og vísindastofnanir víða um heim og heimildir ysta hægrisins hér á landi (sjá t.d. Fréttin og Stjórnmálaspjallið) og ysta vinstrisins hafa á sér sannfærandi yfirbragð. Nethernaðurinn er bæði stórfelldur og árangursríkur.“
Lygin sé helsta vopnið í þessari baráttu gegn Evrópusambandinu, sem Haukur segir vera það ríkjasamband sem er Íslandi velviljaðast og einnig okkar stærsti útflutningsmarkaður.
„Og lygin er núna helsta afl stjórnarandstöðunnar – nú, þegar hún kemst ekki einu sinni í sumarfrí vegna haturs. Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum og vestrænni samvinnu?“