fbpx
Sunnudagur 20.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Aðdáun á fornköppum

Eyjan
Sunnudaginn 20. júlí 2025 16:30

Sumarnótt við strönd Grænlands um árið 1000 með augum danska málarans Carl Rasmussen. Verkið er frá árinu 1875 og varðveitt í Charlottenborg í Kaupmannahöfn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Erlingur Sighvatsson og Bjarni Þórðarson og Indriði Oddsson hlóðu þessa vörðu laugardaginn fyrir gangdaginn.“ Þetta er áletrun á rúnasteini sem inúíti nokkur fann á eynni Kingittorsuaq snemma á 19. öld. Steinninn vakti mikla undran þegar hann barst til Kaupmannahafnar því eyjan er á 72 breiddargráðu, þúsund kílómetrum norðar en nyrstu bæir norrænna manna í Vestribyggð. Áletrunin er ýmist talin vera frá tólftu eða þrettándu öld.

Í fornum sögum er talað um veiðiskap norrænna manna langt norðan við byggðina — í Norðursetu þar sem minnst er á örnefnin Króksfjarðarheiði og Bjarney, sem að líkindum er Diskóeyja. Þangað var um 25 daga sigling frá Vestribyggð. Rúnasteinninn er samt langt norðan við Diskóbugt og ekki vitum við hverjir þeir voru, Erlingur, Bjarni og Indriði, komnir þangað norður eftir á gangdag sem er á Markúsarmessu, 25. apríl. Þann daginn skyldi ganga um tún og bæi með krossum, vígðu vatni og bænahaldi.

Útvörður vestrænnar menningar

Þegar þetta er ritað er ég staddur á bát úti fyrir ströndu Austur-Grænlands, á leið frá Góðvon norður til Jakobshafnar, kaupstaða sem Danir reistu upphaflega á átjándu öld en nú hafa fengið nöfnin Nuuk og Ilulissat. Hin forna Vestribyggð var staðsett langt fyrir innan bæjarstæði Nuuk, á harðbýlum slóðum, uppundir jökli en líkt og við þekkjum var loftslag mun hlýrra er norrænir menn hófu þar búsetu. Þar hefur fundist fjöldi rústa norrænna bæjarhúsa en byggðin þarna var þó aldrei jafnfjölmenn og Eystribyggð, þar sem Eiríkur rauði hafði sest að, og Vestribyggð lagðist mun fyrr í eyði.

Ilulissat er á slóðum hinnar fornu Norðursetu og hver sem ferðast um Grænland getur ekki annað en hrifist af harðfengi og karlmennsku hinna fornu Grænlendinga sem létu ekki bugast af óblíðum náttúruöflum heldur byggðu upp stórmerkilegt norrænt menningarsamfélag sem um aldir var einangraður útvörður vestrænnar menningar. Þar höfðu menn manndóm til að setja sér lög og koma á stjórnskipan, reisa fjölda kirkna, biskupsstól og klaustur, og auk fjölskrúðugs búskapar og verslunar með eftirsóttan munaðarvarning lögðu þeir stund á sagnalist og skáldskap. Talið er að eitt Eddukvæða, Atlamál, sé ort á Grænlandi. Hluti Norðursetudrápu hefur varðveist þar sem lýst hrakningum á veiðiför þangað norður eftir.

Mig fýsti að fara siglandi þessa leið, frá hinni gömlu Vestribyggð í Norðursetur en ferjan er tæpa tvo sólarhringa á leiðinni og ég get ekki annað en hrifist af kjark og árræði forfeðra okkar og frænda á liðnum öldum sem brutust gegn stormum og hafísum. Eftir miklu var að slægjast; rostungum, náhvölum og ísbjörnum en af fornsögum að dæma voru menn drifnir af áfram af fróðleiksfíkn og beinlínis löngun til að hætta sér sífellt lengra.

Ofurmannleg hreysti

Nokkrar sögur eigum við af Íslendingum sem færðu konungum hvítabirni að gjöf, til að mynda á Auðunn vestfirski að hafa handsamað björn á Grænlandi og fært Sveini Úlfssyni Danakonungi. En konungar víða um álfuna héldu dýragarða á miðöldum þar sem aldar voru skepnur úr fjarlægum álfum.

Eitthvað hefur verið um að íslenskri menn héldu lifandi hvítabjörnum föngnum samanber Grágásarákvæði þar um. Þetta hefur alla tíð verið mér undrunarefni því ísbirnir eru einhver grimmustu rándýr jarðar og til að mynda hefur ekki tekist að þjálfa þá til að leika kúnstir í fjölleikahúsum, ólíkt brúnleitum nöfnum þeirra. Fyrir okkur nútímamönnum er þetta nálega ofurmannleg hreysti; að hætta sér svo langt í norður miðað við skipakost og siglingaþekkingu þess tíma, fanga lifandi hvítabirni og sigla með þá á opnum skipum yfir úthaf. Ekki er annað hægt en hrífast af slíkum manndómi og því hugviti og verkkunnáttu sem til hefur þurft.

Eyðileggingarmáttur efahyggjunnar

Og við megum hrífast af afrekum norrænna fornkappa. Fyrir réttri viku gerði ég Íslandssögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu að umtalsefni en þar birtist einlæg aðdáun á kjarki og snilli Íslendinga sögualdar. Þar var sagan sögð með svo leiftrandi hætti að börn heilluðust og þorri Íslendinga varð fyrir vikið vel að sér í eigin sögu. Íslandssaga Jónasar jók með mönnum fróðleiksfýsn um eigin fortíð og menningu. Síðar var henni ýtt til hliðar og tekið til við að segja börnum ópersónulega og þurra Íslandssögu, enda tilvist ýmissa fornkappa dregin í efa, hvað þá að segja mætti börnum af þeim sögur sem hluta þjóðarsögunnar. Afleiðing efahyggjunnar er sú að söguþekkingu hefur farið mikið aftur.

Allnokkrir komu að máli við mig og ræddu efni síðasta pistils og einn lesenda sendi mér viðtal við Emmanuel Macron Frakklandsforseta sem birtist í 42. hefti þýska tímaritsins Spiegel árið 2017. Þar gagnrýndi hann efahyggju samtímans sem til að mynda birtist í því að margir álitu það skyldu sína að efast um grundvallargildi og meginþætti í sögu og menningu. Á Vesturlöndum skorti menn þvert á móti trú á eitthvað æðra. Menn yrðu að eiga sér glæsta drauma.

Hér hefur sagan gildi. Ungu fólki nútímans er hollt að kynnast sögu forfeðra sinna, ekki síst afreksverkum sem getur styrkt sjálfsmynd þeirra og um leið sameiginlega sjálfsmynd þjóðfélagsins.

Megum dást að afreksverkum

Afdrif hinna fornu Grænlendinga eru enn ráðgáta þó svo að fornleifarannsóknir hafi fært okkur sífellt meiri þekkingu á þjóðfélagi þeirra. Látum vangaveltur um endalok byggðarinnar liggja á milli hluta, athugum fremur hitt að norrænir menn bjuggu á Grænlandi í að minnsta kosti hálft árþúsund. Ef við setjum það í samhengi við okkar tíma þá erum við komnir aftur fyrir siðaskipti. Og vel að merkja er aðeins fjórðungur úr árþúsundi frá því að Bandaríki Ameríku vori stofnuð.

Hvað rak þá Erling, Bjarna og Indriða óralangt í norður svo snemma að vori? Við getum velt ýmsu upp en eftir stendur að ótrúlegt áræði, þor, verkkunnátta og hugvit bjó að baki hinum hættulegu veiðiferðum og könnunarleiðöngrum svo langt í norður, sem og allri tilveru hins þróaða útvarðar vestrænnar menningar og Rómakirkjunnar. Ekki er annað hægt en fyllast lotningu gagnvart slíku þrekvirki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum

Óttar Guðmundsson skrifar: Foringjakreppa í flokknum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Óvinir!

Nína Richter skrifar: Óvinir!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Málæði um ekki neitt meðan sumarið líður hjá

Svarthöfði skrifar: Málæði um ekki neitt meðan sumarið líður hjá
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Gullaldir fyrr og nú

Björn Jón skrifar: Gullaldir fyrr og nú
EyjanFastir pennar
19.06.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Það erfiðasta við ræðulist

Þorsteinn Pálsson skrifar: Það erfiðasta við ræðulist
EyjanFastir pennar
15.06.2025

Björn Jón skrifar: Alvöru leiðtogi

Björn Jón skrifar: Alvöru leiðtogi