Kolbrún Bergþórsdóttir segir í pistli í Morgunblaðinu í dag að Samfylkingin þurfi að gæta sín á því að fyllast ekki sama hroka og einkennir Sjálfstæðisflokkinn. Djúp óánægja sé með störf borgarstjórnarmeirihlutans í sumum hverfum borgarinnar og þar hafi íbúar á tilfinningunni að ekki sé hlustað á raddir þeirra.
„Það er ekki gott þegar helstu fréttir af verkum meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur snúast að stórum hluta um að hún sé að gera fólki lífið erfiðara en það þyrfti að vera. Ótal fréttir þessa efnis hafa birst undanfarið og verða ekki flokkaðar sem áróður andstæðinga meirihlutans í borginni.
Fólk sem einu sinni gat lagt bíl sínum við heimili sitt getur það ekki lengur. Það er verið að þétta byggð á skringilegustu stöðum um leið og ýtt er undir ljótleika. Það á að byggja eða er verið að byggja íbúðir með engum eða örfáum bílastæðum, jafn galið og það nú er. Svo er græna gímaldið vitanlega ógleymanleg mistök. Íbúar kvarta en meirihlutinn í borgarstjórn svarar yfirleitt að svona sé þetta nú bara og engu sé hægt að breyta.“
Segir Kolla og bendir á skoðanakönnun þess efnis að djúp gjá sé á milli kjósenda í vestur- og austurhluta borgarinnar þegar kemur að fylgi flokka:
„Í úthverfum hefur Samfylkingin lítið fylgi á meðan kjósendur í miðbæ og Vesturbæ virðast ánægðir með hana. Samfylkingin hefur verið æði lengi við völd í borginni og hefur ekki sýnt því áberandi áhuga að þjóna íbúum í úthverfum Reykjavíkur sómasamlega. Gagnrýni íbúa þessara svæða á ýmsar ákvarðanir í borgarkerfinu hefur staðið lengi og verið hörð. Varla stafar hún af því að íbúar þar séu geðverri og vanþakklátari en íbúar í miðbæ og Vesturbæ.“
Kolla segir að fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn þurfi að hitta fólkið sem kvartar undan samskiptaleysi við borgaryfirvöld. Því fólki líði eins og ekki sé hlustað á það en fyrir tilverknað fjölmiðla komist umkvörtunarefni þeirra á framfæri. Hún segir ennfremur:
„Það er ekkert óskaplega hollt fyrir einn og sama stjórnmálaflokkinn að vera lengi við völd. Menn fara að vera ánægðir með sig, líta jafnvel svo á að þeir eigi vissan rétt á völdum og öðrum sé alls ekki treystandi til að stjórna. Þetta viðhorf getur brotist út í taumlausri frekju eins og undanfarið hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem ákveðinn hópur er beinlínis að tryllast vegna þess að flokkurinn er ekki lengur í ríkisstjórn.“