

Í Morgunblaðinu í gær birtist heilsíðuauglýsing þar sem leitað er eftir tilboðum í Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru allnokkur tíðindi en hugmyndir um sölu hússins komu reglulega til umræðu þegar sá sem hér heldur á penna sat í miðstjórn flokksins. Þær voru þó jafnan slegnar út af borðinu með þeim rökum að húsið væri tengt flokknum órjúfanlegum böndum í ljósi þess hversu margir flokksmenn hefðu lagt hart að sér við smíðina, jafnt með sjálfboðavinnu sem frjálsum fjárframlögum.
Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður rifjar þetta upp í grein á vefsvæði sínu í gær og fullyrðir að án Alberts Guðmundssonar, formanns byggingarnefndar, hefðu áformin um smíði Valhallar aldrei orðið að veruleika. Albert hefði verið vakinn og sofinn yfir verkefninu en sjálfstæðismenn í verkalýðsstétt, félagsmenn í Óðni, hefðu lagt mest af mörkum við bygginguna.
Fyrir þremur árum kom út ævisaga Halldórs H. Jónssonar arkitekts sem við Pétur Ármannsson arkitekt rituðum. Þar gerði Pétur verkum Halldórs vel skil, þar með talið Valhöll sem Halldór teiknaði ásamt syni sínum, Garðari Halldórssyni. Pétur kemst svo að orði í bókinni að svipmikið og formfast útlit hússins endurspegli hlutverk þess og húsið hafi þar með orðið táknmynd Sjálfstæðisflokksins, en Valhöll er raunar eina húsið hér á landi sem er sérhannað til að hýsa höfuðstöðvar stjórnmálaflokks. Henni var ætlað að setja sterkan svip á umhverfi sitt og verða „menningarleg- og stjórnmálaleg“ miðstöð Sjálfstæðisflokksins.
Ég er ekki einn um þá skoðun að þykja afleitt að flokkurinn skyldi gerast þátttakandi í þrengingarstefnu vinstrimanna í borgarstjórn og hola íbúðablokkum í kringum Valhöll þannig að þessi formfagra bygging fær ekki lengur notið sín. Það var gert til að leysa geigvænlegan fjárhagsvanda flokksins og afleitt hvernig haldið hefur verið á fjármálum flokksins um langa hríð. En allt um það.
Hugmynd þeirra feðga, Halldórs og Garðars, var að götuhæð Valhallar yrði opin almenningi með sýningaraðstöðu og kaffistofu fyrir starfsfólk og gesti, sem átti að geta orðið vettvangur umræðna og aukið tengsl flokksins við hinn almenna sjálfstæðismann. Og þannig var Valhöll lengi lifandi vettvangur sjálfstæðismanna. Seinni árin hefur dofnað mjög yfir pólitísku félagsstarfi — sér í lagi með síhækkandi ríkisstyrkjum til stjórnmálaflokkanna, stórfjölgun pólitískra sendisveina og hneisa að Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur einstaklingsframtaks, skyldi hafa tekið þátt í þeirri vegferð að slíta þannig stjórnmálin úr tengslum við frjálst félagslíf.
En gott og vel. Ákvörðunin hefur verið tekin um að selja húsið og þá þarf flokkurinn að finna sér nýjan samastað. Í Morgunblaðinu í gær birtist viðtal við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún kveðst telja ólíklegt að reist verði ný Valhöll. Aftur á móti sé hún „skotin í þeirri hugmynd að við reynum að færa okkur nær þinginu og borgarstjórnarflokknum, svo við getum nýtt starfsfólkið okkar í þinginu, Valhöll og ráðhúsinu betur, samhæft það betur,“ eins og hún orðar það.
Það væri að mínu viti afleitt að flytja höfuðstöðvar flokksins í gamla miðbæinn, þangað sem almenningur á ekkert erindi nema til að sækja öldurhús um helgar. Ein af röksemdunum fyrir því að selja Valhöll er sögð skortur á bílastæðum (sem flest hafa verið lögð undir íbúðablokkir) en hér þarf ekki að fjölyrða um bílastæðavandann í miðbænum sem er slíkur að þangað hætta sér fáir.
Ég hef heyrt Oddfellowhúsið við Vonarstræti nefnt sem mögulegar höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins en oddfellowar hyggja á húsbyggingu í Urriðaholti. Félagsmönnum í Oddfellowreglunni hefur fækkað mikið síðustu árin og eðlilega vilja þau góðu samtök færa sig nær fólkinu. Og það er einmitt það sem sjálfstæðismenn eiga líka að gera — finna sér samastað nærri hringiðu mannlífsins, til að mynda við Kringluna eða Smáralind. Yrði Kringlan fyrir valinu mætti ef til vill semja um afnot af sölum Sambíóanna eða Borgarleikhússins fyrir fjölmenna fundi, svo óþarft væri að koma sér upp miklum salarkynnum. Smáralind kann þó að vera enn hentugri staðsetning enda nær þungamiðju byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru líka salarkynni í næsta nágrenni sem hægt væri að samnýta, svæðið liggur vel við helstu stofnbrautum og enginn skortur á bílastæðum.
Miklu skiptir að hér verði vandað til verka — menn ani ekki að neinu og hugsi nýjar höfuðstöðvar til langrar framtíðar. Hægt væri að gefa sér tvö til þrjú ár til að kanna málin þar til lausn finnst og við þá vinnu þarf að leita eftir afstöðu hins almenna flokksmanns.
Fyrir fjöldahreyfingu er staðsetning höfuðstöðva algjört lykilatriði og huga þarf að þörfum félagsstarfsins fremur en skrifstofuhaldi. Ný Valhöll verði þannig öflug félagsmiðstöð sem geti orðið vettvangur umræðna og aukið tengsl flokksins við hinn almenna sjálfstæðismann, rétt eins og hugsunin var með Valhöll við Háaleitisbraut. Það yrði heillaríkt að færa þannig stjórnmálin að nokkru marki aftur nær fólkinu, fyrsta skrefið í að vinda ofan af ríkisvæðingu stjórnmálanna.