fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Eyjan

Jón tekur með auðmýkt og hlýju á móti nýjum verkefnum – „Ekkert á Íslandi mér óviðkomandi“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 28. janúar 2025 18:00

Jón Gnarr

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Gnarr þingmaður Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fer í einlægri og gamansamri færslu yfir síðastliðið ár og þann pólitískra óróa innra með honum sem hvatti hann til að bjóða sig fram til forseta og Alþingis á síðasta ári. Hann segist hlakka til að hefja störf á þingi með dómarann og kviðdóminn með sér í liði.

Jón segir pólitískan óróa hafa tekið sig upp innra með sér í fyrravetur þar sem hann var staddur í Leifshúsum á Svalbarðsströndinni í Eyjafirði.

„Öll sem þekkja til vita að Eyjafjörður er kyngimagnaður staður og þrunginn töfrum og göldrum sem vefa sig inn í alla tilveruna þar, náttúruna, loftið og hvern einasta stein. Og eru líka óháð tíma og þar eru 1000 ár einn dagur eða jafnvel augnablik. Maður getur bara hreinlega ekki annað en orðið þjóðlegur við svona aðstæður. Ég hafði verið þarna einn vetur áður. Þá hlotnaðist mér sá mikli heiður að fá að leika Skugga Svein í uppfærslu Leikfélags Akureyrar. Þann veturinn dvaldi ég í Kaupangi, landnámsjörð Helga magra hins sænska landnámsmanns og bjó í húsi sem Guðjón Samúelsson teiknaði. Allur sá staður er kyngimagnaður og þegar maður ráfar þar um og talar sænsku þá svarar Helgi stundum. Kaupangur er helgur staður. Og það eru flestir staðir þarna, t.d. Öngulstaðir.“

Segir Jón að ofangreindur Helgi hafi átt stóran þátt í því að hvetja Jón til að bjóða sig fram til Forseta Íslands. Jón var eins og alþjóð man einn 12 frambjóðenda til embættis forseta Íslands vorið 2024, hlaut hann 21.634 atkvæði eða 10,09% atkvæða og var fjórði eftstur í vali kjósenda.

„Ég ákvað að gera það, ekki af útpældri ástæðu, heldur frekar til að fylgja innsæi eða yfirskilvitslegri handleiðslu. Ég kalla það að fylgja kviðdómi. Ég hef notast mikið við hann í gegnum lífið. Dómarinn og hans fólk situr í höfðinu en kviðdómurinn í maganum. Það er mín reynsla að dýrmætustum árangri nái maður ef þetta tvennt gengur saman. Það er lenska að fylgja dómaranum að máli og oft í andstöðu við kviðdóminn. Það hefur komið mörgum í vondar ógöngur. Svo getur það líka kallast fífldirfska að fylgja niðurstöðu kviðdómsins í andstöðu við dómarann og hans fólk. En þegar það heppnast kallast það gjarnan hetjudáð.“

Jón segir dómarann hafa fallist á ákvörðun kviðdómsins og hann því byrjað að setja sig inn í málin jafnframt því sem hann lék stórt hlutverk í leikverki sem er jafnvel þjóðlegra en Skugga Sveinn að mati Jóns: And Björk of course… eftir Þorvald Þorsteinsson.

„Ég las Stjórnarskrá Íslands, ævisögu Kristjárns Eldjárn og ævisögu Vigdísar. Og einhverjar greinar. Og svo ræddi ég auðvitað við lærða og leika.
Þegar leið á forsetaframboðið og það var allt komið á fullt þá áttaði ég mig nokkuð fljótt á því að ég var líklega ekki að fara að verða neinn forseti. En kviðdómurinn hvatti mig áfram. Þetta var ákaflega lærdómsríkt ferli og ég hafði mjög gaman af því að taka þátt og er þakklátur öllum þeim sem studdu mig og kusu.“

Svaraði heiðri barna með framboði til Alþingis

Samhliða hefðbundnum kosningum stóð Umboðsmaður barna og Krakka-RÚV fyrir Krakkakosningum og fóru þær fram í skólum landsins. Þær kosningar sigraði Jón og segir að honum hafi verið sýndur mikill heiður.

„Jóga kona mín, sem er líka minn besti vinur og vitrasti ráðgjafi spurði mig ítrekað að því hvernig ég vildi svara þessum mikla virðingarvotti og hlýju sem börnin á Íslandi hefðu sýnt mér. Ég velti því fyrir mér og ákvað á endanum að halda áfram mínu pólitíska æði og bjóða mig nú fram til Alþingis og ef ég næði kjöri, reyna að vinna að farsæld og sálarheill barna og ungmenna á Íslandi og sérstaklega þeirra sem höllum fæti standa einhverra hluta vegna. Vanlíðan barna hefur farið nokkuð vaxandi á síðustu árum og ríkir nú því miður neyðarástand í þeim málaflokki víða. Ég á nokkuð brösuga sögu sjálfur og farsæld barna og barnamenning hefur alltaf verið mér hugleikin. Það er oft sagt að hitt og þetta sé góð fjárfesting. Það eru skrifaðar skýrslur um alls konar hagræn áhrif og það er allt satt og rétt. Hver króna sem sett er í skapandi greinar skilar þremur krónum tilbaka. En hver króna sem sett er í barn, hvert augnablik, hvert hlýlegt orð, hver fyrirgefning og hvert einasta gramm af kærleika sem barni er gefið skilar sér þúsundfalt til baka.“

Jón segir að hann hafi svo sem getað valið hvaða flokk sem er til að bjóða sig fram fyrir. Hann telji sig hafa valið hárrétt með að velja Viðreisn.

„Það er með pólitíkina eins og mannskepnuna að þar gildir sama með Dómarann og Kviðdóminn. Það var Kviðdómurinn sem valdi Viðreisn og dómarinn samþykkti það með láði. Ég sé ekki eftir því og held að ég hafi valið hárrétt og gæti ekki hugsað mér betra samflokksfólk. Og áður en ég vissi af var ég kominn í nýja kosningabaráttu. En ólíkt fyrri kosningabaráttunni þá náði ég kjöri í þetta sinn og er orðinn alþingismaður. Kjördæmið mitt er Reykjavík suður. En kúnninn eru allir Íslendingar og sérstaklega börn og ungmenni.“

Tekur sæti í velferðarnefnd og framtíðarnefnd

Jón segir það ferli sem kosningar eru óvissuferð. Eftir viðræður varð til ríkisstjórn þriggja flokka.

„Ég hef ekki farið leynt með það, frá upphafi, að málefni barna og ungmenna á Íslandi eru mitt hjartans mál og ég óski þess að fá tækifæri til að sinna þeim málaflokki. Og nú er komin niðurstaða í það hvað ég er formlega að fara að gera. Ég mun taka sæti í Velferðarnefnd. Ég ætla mér að sinna því starfi af krafti og heiðarleika og með kærleika að leiðarljósi en leggja þó aðaláherslu á minn málaflokk. Ég hef líka tekið að mér formennsku í Framtíðarnefnd. Þar er framtíð Íslands undir.

Auk nefndarstarfa hef ég tekið að mér formennsku í Vestnorræna ráðinu, samstarfsráði Íslands, Færeyja og Grænlands. Í starfi mínu sem borgarstjóri átti ég gott samstarf við Núk og Þórshöfn og hlakka til að halda því áfram og efla tengsl þessara þjóða. Og við hæfi að ítreka það hér, sem ég hef sagt áður, að ég styð sjálfákvörðunarrétt Grænlensku þjóðarinnar til að taka sjálfstæða og lýðræðislega ákvörðun um framtíð sína. Og þar getum við Íslendingar verið fyrirmynd einsog í svo mörgu öðru.“

Hlakkar til að hefja störf

Jón segist hlakka mikið til að hefja störf og þakkar um leið öllum sem kusu hann og hafa hvatt hann áfram og stutt.

„Ég hlakka til að kynnast nýju fólki og eiga ánægjulegt samstarf með velferð barna að leiðarljósi. Ég ætla að leitast við að eiga gott samstarf við Reykjavík og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og kynna mér þau úrræði sem eru til staðar og reyna að leggja mitt af mörkum til að bæta úr, fylgja eftir eða laga þar sem það á við. Ég ætla að reyna að vera duglegur að fara um kjördæmið mitt, hitta fólk og fá innsýn og leiðsögn frá fólkinu sem starfar í fremstu víglínu alla daga. En auðvitað er ekkert á Íslandi mér óviðkomandi.
Ég ætla mér ekki að gera neina byltingu og tel ekki að við höfum verið á rangri leið. Það hefur margt gott verið gert og nú þarf bara að halda því áfram, styrkja, fylgja eftir og hrinda í framkvæmd lausnum fyrir börn í vanda. Við megum alls ekki sofna á verðinum eða horfa framhjá vandanum eða reyna að sjá hann ekki. Dómarinn og hans fólk og Kviðdómurinn eru samstíga í þessu máli.
auðmýkt og hlýja.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Spá stórtíðindum um helgina – „Við erum búnir að fella meirihlutann í borginni. Hann er sprunginn“

Spá stórtíðindum um helgina – „Við erum búnir að fella meirihlutann í borginni. Hann er sprunginn“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hampiðjan hf. eignast meirihluta í indverska félaginu Kohinoor

Hampiðjan hf. eignast meirihluta í indverska félaginu Kohinoor
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin fær byr í seglin – Sjálfstæðisflokkurinn nötrar í aðdraganda landsfundar

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin fær byr í seglin – Sjálfstæðisflokkurinn nötrar í aðdraganda landsfundar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings

Bandaríkjamenn styðja ekki fyrirætlanir Trump varðandi Grænland – Getur gert hann óútreiknanlegan að mati sérfræðings