Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, furðar sig á fjárfestingarstefnu íslenskra lífeyrissjóða. Í Danmörku fjárfesta lífeyrissjóðir í óhagnaðardrifnum leiguíbúðum og búa til heilbrigt leiguumhverfi en á Íslandi fjárfesta þeir í gróðafyrirtækjum sem eyðileggja húsnæðismarkaðinn.
Grímur segir þetta í færslu á samfélagsmiðlum. Innblásturinn var gönguferð í gær fram hjá gamla vinnustaðnum sínum í Kaupmannahöfn, Hørsholmsgade 20. En þar vann hann fyrir 25 árum.
„Ég bjó á þeim tíma íbúð í Roskilde sem ég leigði af lífeyrissjóðnum mínum (lífeyrissjóður starfsmanna í félags- og heilbrigðisgeiranum). Leigan var afar sanngjörn og kerfið tryggt og stærð íbúðar miðaðist við fjölskyldustærð,“ segir Grímur í færslunni. „Lífeyrissjóðurinn minn eins og margir fleiri lífeyrissjóðir í Danmörku fjárfesti á félagslegum og samfélagslegum grunni í bland við aðrar fjárfestingar sem eiga að vernda lífeyri minn og annarra sjóðfélaga.“
Þegar Grímur leit inn á heimasíðuna í dag og sá að nýbyggðar íbúðir í leigu hjá þessum lífeyrissjóði, 46 til 165 fermetrar að stærð og kosta frá 90 þúsund krónum, það er 4500 dönskum krónum.
„Raunávöxtun sjóðsins sl. 10 ár var 5,9% þrátt fyrir fjárfestingarstefnu sem setur samfélagslegar kröfur sem m.a. hefur orðið til þess að sjóðurinn á rúmlega 10.000 leiguíbúðir í Danmörku. Raunávöxtun í Lífeyrissjóði verzlunarmanna var 4,8% fyrir sama tímabil,“ segir Grímur. „Fjárfestingarstefna sjóðsins í Danmörku er bundin í samfélagslegum verkefnum á meðan LV, eins og aðrir íslenskir lífeyrissjóðir, er fastur í íslensku krónuhagkerfi og nær engum lagalegum skyldum gagnvart samfélaginu.“
Þá nefnir hann að í Danmörku eigi óhagnaðardrifin leigufélög 595 þúsund íbúðir, eða 21 prósent af heildarfjölda íbúða. Hagnaðardrifin leigufélög og einstaklingar eigi samanlagt 682 þúsund, eða rúmlega 23 þúsund. Leigumarkaðurinn allur er 44 prósent íbúða í Danmörku en aðeins 21 prósent á Íslandi. Hér á landi er minnihlutinn í eigu óhagnaðardrifinna leigufélaga.
„Leigumarkaðurinn á Íslandi er markaður ófyrirsjáanleikans og óöryggis,“ segir Grímur. „Það er mér algjörlega óskiljanlegt að á sama tíma og lífeyrissjóðurinn minn í Danmörku fjárfesti í u.þ.b. 100 til 200 nýjum íbúðum á ári til að setja í óhagnaðardrifið leigufélag sitt, sjóðfélögum til góða, þá fjárfesti lífeyrissjóðurinn minn á Íslandi í félögum eins og Gamma sem gerðu ekkert annað en að eyðileggja húsnæðismarkaðinn og hrun Gamma hafði einnig áhrif á ávöxtun lífeyris sjóðfélaganna.“