Ný könnun Maskínu á fylgi stjórnmálaflokkanna var kynnt í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld og helstu tíðindin eru að Miðflokkurinn er á mikilli siglingu og Viðreisn farin að kroppa í hælanna á Sjálfstæðismönnum.
Samkvæmt könnuninni bætir Miðflokkurinn við sig og mælist nú með marktækt meira fylgi en Sjálfstæðisflokkur, eða 17%.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað með 13,4 prósent en Viðreisn mælist með 11,3 prósent og því ekki marktækur munur á milli flokkanna tveggja.
Samfylkingin lækkar lítillega en mælist enn með mest fylgi eða 25 prósent.
Flokkur fólksins mælist með 8,8 prósent og Píratar með 8,5 prósent stjórnarflokkarnir Framsókn og Vinstri Græn koma illa út, Framsókn með aðeins 7,6 prósent og Vinstri Græn með 3,7 prósent. Vinstri Græn næðu þar með ekki manni inn ef kosið væri í dag. Sósíalistar nálgast þó Alþingi og mælast með 4,5 prósent.
Svandís Svavarsdóttir segir Vinstri Græn á tímamótum og finnur hún fyrir auknum meðbyr í aðdraganda landsfundar í næstu viku. Nú þurfi flokkurinn að skoða hvaða erindi hann hefur í stjórnmálum, efla tengslin við ræturnar og horfa inn á við. Svandís segir eðlilegt að á landsfundi komi til umræðu framtíð stjórnarsamstarfsins og telur líklegt að boðað verði til kosninga í vor.