Það mætti eiginlega halda að morðtilraunir, heitar sjónvarpskappræður, harðar persónulegar árásir, Taylor Swift og samsæriskenningar væru nóg fyrir kjósendur. En svo er ekki því skoðanakannanir benda til að kosningarnar verði þær jöfnustu á síðari tímum. Allt þetta hlýtur að geta fengið marga, sem að öllu jöfnu nenna ekki að kjósa, til að standa upp úr sófanum og skunda á kjörstað.
Sjónir flestra beinast auðvitað að sveifluríkjunum sjö þar sem fylgi frambjóðendanna mælist svo jafnt að úrslitin geta ráðist á örfáum atkvæðum. Þetta eru Nevada, Arizona, Wisconsin, Michigan, Pennsylvania, Norður Karólína og Georgía.
Hin 43 ríkin skipta í raun litlu máli því þar er gengið út frá því að annað hvort Demókratar eða Repúblikanar séu með svo öruggan meirihluta að ekkert geti ógnað honum.
Í nýrri könnun Politico kemur fram að að í raun geti úrslitin ráðist í þremur sveifluríkjum. Segir miðillinn að ef Trump sigrar í Pennsylvania, Norður Karólínu og Georgíu geti hann reiknað með sigri.
Ef Kamala Harris sigrar ekki í Pennsylvania, verður hún að sigra í annað hvort Norður Karólínu eða Georgíu eða auðvitað báðum ríkjum til að sigra. Ef hún sigrar ekki í Pennsylvania verður hún einnig að sigra í Michigan og Wisconsin og tveimur Suðurríkjum og annað hvort Nevada eða Arizona, í vesturhlutanum, til að ná þeim 270 kjörmönnum sem þarf að ná til að sigra.