fbpx
Miðvikudagur 11.september 2024
Eyjan

Vegakerfið: Ráðamenn svíkja þjóðina – komið að skuldadögum með innviðaskuldina

Ólafur Arnarson
Fimmtudaginn 8. ágúst 2024 17:30

Runólfur Ólafsson er framkvæmdastjóri FÍB. Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á síðasta ári námu tekjur ríkissjóðs af ökutækjum samtals um 95,5 milljörðum króna. Útgjöld ríkisins til vegamála námu um þriðjungi þeirrar fjárhæðar. Árið 2023 skar sig ekki frá öðrum árum hvað þetta varðar. Á þessu ári er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins vegna ökutækja og útgjöld vegna vegamála verði áþekk og á síðasta ári.

Tekjur ríkisins af ökutækjum námu í fyrra 2,23 prósentum af landsframleiðslu á meðan ríkið varði 0,85 prósentum af landsframleiðslu til vegamála. Í Covid jukust útgjöld tímabundið til vegamála vegna sérstaks átaks, sem þó var ekki annað en dropi í hafið saman borðið við kerfislæga innviðaskuldina sem íslensk stjórnvöld hafa meðvitað hlaðið upp á liðnum árum. Mjög hefur dregið úr framlögum til vegamála frá árinu 2021. Á sama tíma hafa tekjur ríkisins af ökutækjum aukist um hartnær 50 prósent.

Vegakerfið svikið um 580 milljarða á áratug

Frá árinu 2015 hefur ríkið innheimt um 750 milljarða tekjur vegna ökutækja. Á sama tíma hafa um 290 milljarðar runnið til vegamála og því má segja að innviðaskuldin sem safnast hefur upp á þessu tíu ára tímabili nemi alls um 460 milljörðum. Framreiknuð til núvirðis nemur innviðaskuld ríkisins gagnvart bíleigendum og vegakerfinu um 580 milljörðum á þessum eina áratug.

Þegar tölur fyrir einstök ár eru skoðaðar, reiknaðar til núvirðis, kemur í ljós að tekjur ríkisins af ökutækjum hafa aukist merkjanlega á þessum áratug en útgjöld til vegamála að sama skapi dregist merkjanlega saman. Jafnvel Covid átakið vegur lítið í þessum efnum.

Þá ber einnig að hafa í huga að þegar horft er til tekna ríkisins af ökutækjum er einungis um mjög beina tekjur að ræða. Ekki eru til hér á landi tölur sem taka inn í dæmið óbeinar tekjur ríkisins á borð við virðisaukaskatt af bílaviðgerðum og þess háttar. Í nágrannalöndum okkar, á borð við Svíþjóð, eru hins vegar til mjög nákvæmar tölur um bæði beinar og óbeinar tekjur hins opinbera af ökutækjum.

Almenningur skattpíndur

Þá er það staðreynd að virðisaukaskattur af ökutækjum og eldsneyti leggst af mjög mismunandi þunga á bíleigendur. Einstaklingar sem eiga sinn bíl bera þann kostnað af fullum þunga á meðan lögaðilar geta notað virðisaukaskattinn sem innskatt á móti útskatti og greiða því lítið sem ekkert af virðisaukaskatti vegna bifreiðanotkunar. Það eru svo ökutæki í eigu lögaðila, flutninga- og fólksflutningabifreiðar, sem setja margfalt álag á vegakerfi landsins samanborið við fólksbifreiðar – einn fjörutíu tonna flutningabíll slítur yfirborði vega á við tvö þúsund fólksbíla.

Þessi svimandi háa innviðaskuld er raunveruleg og ekki verður undan því vikist að greiða hans eigi ekki illa að fara. Vegakerfi landsins er þegar í óverjanlegu ástandi, það ræður ekki við álagið sem á því er og hefur ekki gert það í mörg ár. Hið kynlega er að stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar reiðir sig einmitt að verulegu leyti á vegakerfið. Við seljum útlendingum landið okkar sem náttúruparadís en stöndum okkur svo ekki í því að gera þessa paradís aðgengilega fyrir ferðamenn, innlenda og erlenda.

Ekki aðeins er það ferðaiðnaðurinn sem sett hefur aukið álag á vegakerfi landsins. Vegakerfið hefur þurft að taka á móti gríðarlegu magni þungaflutninga vegna fiskeldis, en allan þann fisk þarf að flytja eftir vanbúnu þjóðvegakerfi til Keflavíkur í flug.

Lántaka með afborgunum inn í framtíðina

Er nú svo komið að íslensku þjóðvegirnir eru að molna fyrir augum okkar. Lífshættulegt er orðið að aka um vegina. Þá ranka ráðamenn, sem svikið hafa þjóðina um innviði árum og áratugum saman, við sér og segja að eitthvað verði að gera í málinu. Þeir leggja til auknar álögur á bíleigendur til að mæta fyrirsjáanlega auknum kostnaði við vegakerfið. Ráðamenn vilja leggja á vegatolla til að fjármagna viðhald og nýframkvæmdir í vegakerfinu. Skattpína á enn frekar skattpíndasta hóp þjóðarinnar. Hópurinn sem á tíu árum hefur borgað næstum þúsund milljarða til ríkisins og fengið þriðjung þeirrar upphæðar í vegakerfið á að taka upp veskið. Vilji fólk ekki vera í bráðri lífshættu hvenær sem það hættir sér út á þjóðveg skal það vesgú fá að borga fyrir það.

Ráðamenn hafa svikið þjóðina í áraraðir, veitt fjármunum í hvers kyns gæluverkefni og svelt vegakerfið í landinu. Svikin eru upp á 580 milljarða á síðustu tíu árum.

Gott og öruggt vegakerfi er lykillinn að farsælli uppbyggingu samfélagsins. Fjölskyldubíllinn hefur í áratugi verið skattlagður langt umfram raunkostnað af notkun og er þá tekið tillit til slits á vegakerfinu, slysa-, sjúkrakostnaðar og mengunar m.m. Uppsöfnuð viðhaldsþörf vegakerfisins sem tengist skorti á fjárveitingum frá stjórnvöldum hefur stóraukið slysahættu vegfarenda og viðhaldskostnað bíleigenda,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenska bifreiðareigenda í samtali við Eyjuna.

Það er á ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis að vegakerfið hefur verið látið sitja á hakanum allt of lengi. Auknu álagi með uppbyggingu atvinnustarfsemi og vexti í ferðaþjónustu hefur engan veginn verið mætt á liðnum árum. Að láta innviði grotna niður er lántaka með afborgunum inn í framtíðina,“ segir Runólfur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ársreikningaskil stjórnmálaflokka í ólestri – Af 150 sem þáðu peninga frá sveitarfélögum eru aðeins 21 rétt skráðir

Ársreikningaskil stjórnmálaflokka í ólestri – Af 150 sem þáðu peninga frá sveitarfélögum eru aðeins 21 rétt skráðir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Bæjarstjóri Akureyrar útskýrir óheppilega mynd sem hefur vakið mikla lukku – „Ég var ekki handtekin“

Bæjarstjóri Akureyrar útskýrir óheppilega mynd sem hefur vakið mikla lukku – „Ég var ekki handtekin“