Pólitíkin þarf jafnan að svara spurningum sem brenna á almenningi. Þegar stórum spurningum er látið ósvarað um langan tíma veldur það óvissu.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna sagði í viðtali í síðasta mánuði að stjórnvöld þyrftu að svara því hvers vegna vextir væru viðvarandi miklu hærri hér en í grannríkjunum.
Formaðurinn finnur hvar skórinn kreppir hjá umbjóðendum sínum.
Hitt var ekki síður eftirtektarvert að formaðurinn taldi þetta vera milljón dollara spurningu, sem óhjákvæmilega yrði kallað eftir svörum við í kosningunum.
Vextir hækka og lækka hér eins og annars staðar. Þess vegna gætu vextir verið komnir niður í 6 til 7% að ári. Kosningaspurningin snýst þó ekki um það. Hún krefst svara við hinu: Hvers vegna eru vextir hér alltaf þrefalt hærri en í grannlöndunum hvort sem þeir hækka eða lækka.
Það er þessi staða sem veldur skuldugum heimilum endalausum búsifjum. Og það er þessi staða sem veldur því að þrátt fyrir hærri skatta þurfum við að þrengja meir að velferðarkerfinu en grannlöndin. Það er þessi viðvarandi skekkja gagnvart grannlöndunum sem kallað er eftir svörum við.
Við blasir að raunvextir munu hækka á næstunni jafnvel þótt nafnvextir lækki eitthvað. Nú eru raunvextir ekki slæmt fyrirbæri. Það sem máli skiptir fyrir samkeppnishæfni landsins, fólks og fyrirtækja, er að þeir séu sambærilegir við grannlöndin. Það er mælikvarði á hagstjórnina.
Vextir lækkuðu um tíma fyrir nokkrum árum. Fyrir síðustu kosningar lofuðu stjórnarflokkarnir lágum vöxtum á vorum dögum. Það var álíka innihaldsríkt loforð og fyrirheit Chamberlains um frið á vorum dögum.
Loforðið reyndist tómt vegna þess að vaxtalækkunin var hvorki afleiðing snjallrar hagstjórnar né góðrar peningamálastjórnar. Hún var einfaldlega komin til vegna þess að stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar stöðvaðist fyrirvaralaust vegna heimsfaraldurs.
Skekkjan milli Íslands og annarra landa var alltaf óbreytt.
Þegar loforðið um lága vexti á vorum dögum rættist ekki þurfti þáverandi forsætisráðherra að svara á Alþingi spurningunni sem nú brennur á neytendum. Svarið var: „Það skýrist af stærra samhengi.“
Með öðrum orðum: Ríkisstjórnin kaus að svara út í hött einfaldlega vegna þess að það stangaðist á við leiðarval hennar að segja sannleikann.
Nú er það svo að trúlega vilja ríkisstjórnarflokkarnir að heimilin greiði sambærilega vexti og heimili í grannlöndunum. Ég er sannfærður um að vandræði ríkisstjórnarflokkanna stafa ekki af skorti á snotru hjartalagi.
Ríkisstjórnarflokkarnir eru hins vegar í sjálfheldu af því að þeir vilja ekki fara þá leið sem haldbest er. Svarið við stóru spurningunni felst ekki í hjartalagi heldur vali á leiðum.
Ef sjávarútvegurinn hefði ekki fengið leyfi til að starfa í erlendu vaxtaumhverfi á sínum tíma væri hann fastur í dýi flókinna millifærslna eða niðurgreiddra vaxta þrátt fyrir frjálst framsal aflaheimilda.
Ríkisstjórnarflokkarnir vilja leysa vanda heimilanna með auknum vaxtabótum, sem ekki verða greiddar nema með hærri sköttum. Þeir vilja líka hjálpa bændum með niðurgreiðslu á vöxtum í gegnum sjóði og með því að slátra samkeppni. Það er afar óskilvirk leið og kallar líka á hærri skatta.
Hin leiðin er að tryggja heimilunum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum og rekstri einstaklinga eins og bænda og iðnaðarmanna aðgang að sama vaxtaumhverfi og útflutningsfyrirtækin njóta.
Það er hin heilbrigða leið jafnra tækifæra á markaði.
Til þess að svara brennandi spurningu formanns Neytendasamtakanna þurfa flokkarnir að svara því í komandi kosningabaráttu hvora leiðina þeir vilja fara.
Allt annað er útideyfa. Sá tími er liðinn að unnt sé að vísa í stærra samhengi.
Nú starfa fyrirtæki sem ráða um það bil 40% þjóðarframleiðslunnar í erlendu vaxtaumhverfi. Reynslan sýnir að útflutningsfyrirtækin þrífast mun betur í alþjóðlegu vaxtaumhverfi.
Það er vissulega flóknara að tryggja öllum jöfn tækifæri. Hitt er víst að heimilin munu líka þrífast betur. Hvers vegna má þá ekki velja þá leið. Svarið verður ekki umflúið.