Ofan á stafni Alþingishússins við Austurvöll hvílir kóróna af sverari gerðinni. Þar hefur hún blasað við vegfarendum frá því þetta sögufræga hús var hlaðið á áttunda og níunda áratug þar síðustu aldar. Og henni hefur ávallt verið vel við haldið, frá einni öld til annarrar, sjálfri konungskrúnunni, kóngablárri að lit, til dýrðar dönsku valdi, svo augljóslega sem hún er merkt Kristjáni níunda, húsbóndanum í Amalíuborg við Eyrarsund, sem ríkti frá 1863 til 1906, einráður og óumdeildur.
Því er á þetta minnst að krafa nýrra tíma er að afmá söguna með einum eða öðrum hætti. Þessa sér stað í umræðunni um kirkjugarða á Íslandi sem hefur verið áberandi um nokkurra daga skeið. Og sýnist vitaskuld sitt hverjum. Sumum finnst orðið full til gildishlaðið á tímum frjálslyndis og trúfrelsis og vilja jafnvel meina að það meiði og skeri í augu þeirra sem trúa á annað en Jesú Krist, eða telja sig jafnvel trúlausa með öllu. Öðrum finnst nafnið liggja beinast við, enda séu garðar af þessu tagi í flestum tilvikum við hliðina á kirkju. Og svo eru þeir sem segja heitið einfaldlega vera til vitnis um veruleika og sjálfsmynd þjóðar við ysta haf sem hafi fundið sér fátt annað til frístunda en að sækja kirkju til að hlýða á heilagt orð eins og það var gjarnan kallað. Og viljað svo hvíla þar hjá í vígðri mold.
En tímarnir breytast. Vitaskuld. Og samtímann sjá menn svo ólíkum augum að oftar en ekki gapir tómlegt svarið við þeim spurningum sem vakna á líðandi stundu. Að minnsta kosti ekkert rétt svar. Og hvað þá óumdeilt, eins og átti stundum við um einsleitni fyrri alda, fyrir tíma upplýsingarinnar.
Ein þessara spurninga er hvort það megi jafnt virða söguna og læra af henni? Og hvort gera megi þá málamiðlun í ákafa samtímans að gömul orð verði ekki bannfærð innan um þau nýju?
„ … samtímann sjá menn svo ólíkum augum að oftar en ekki gapir tómlegt svarið við þeim spurningum sem vakna á líðandi stundu.“
Íslandssagan er að mestu átakanleg. Og þótt hún sé á köflum rismikil fjallar hún að mestu um basl hjá búandfólki sem dregur fram lífið við einkar harðneskjulegar aðstæður, ef ekki sakir óveðra, þá vegna tíðra farsótta og endalausra eldsumbrota sem oft og tíðum voru við það að eyða byggð og mannlífi á þessum einangraða norðurhjara. Og fyrir vikið lögðu þúsundir á flótta. Raunar tugþúsundir, sem fóru ýmist vestur um haf eða austur á bóginn í leit að betra lífsviðurværi.
Þetta er meginstefið í Íslandssögunni. Ef bændur flugust ekki á, fórust þeir úr hor eða óveðrum, ellegar þeir forðuðu sér úr landi. Svo þetta er engin skemmtisaga, Íslandssagan. Lengst af.
En við virðum hana þrátt fyrir allt. Allan þennan tíma ofbeldis, vistarbands og þrælamennsku, alla þessa tíð af karlægu ofríki þar sem kvenfrelsi og jafnrétti voru ekki einu sinni til í kolli manna. En við höfum vitaskuld lært af henni. Annað væri það nú. Lært og virt í hæfilegum hlutföllum.
Og svo er hitt. Sagan hverfur ekki. Hún breytist ekki hvernig svo sem við tölum um hana. Og hún batnar ekkert þótt við þegjum um hana. Ekki frekar en við bönnum hana.
Þess vegna mega gömlu orðin líkast til lifa áfram. Innan um þau nýju. Kirkjugarðar innan um grafreiti og minningarlundir innan um sóllönd bæði og greftrunarsvæði. Því krafan um fjölbreytileika á ekki endilega að fækka orðum heldur miklu heldur að fjölga þeim.