fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Eyjan

Segir sigur Kristrúnar og Samfylkingarinnar geta orðið mun stærri en búist er við

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 7. júlí 2024 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kjósendur hafa látið af flokkshollustu og heimta breytingar, kjósa eftir sannfæringu sinni. Straumurinn liggur til sigurvegaranna og kjósendum stendur á sama um þá sem sitja eftir með sárt ennið og tapa völdum. Þetta gæti leitt til þess að sigur Samfylkingarinnar í næstu þingkosningum verðu mun stærri en skoðanakannanir benda nú til.

Þetta skrifar Ólafur Arnarson í nýjum Náttfarapistli á Hringbraut. Hann vísar til nýliðinna þingkosninga í Bretlandi og Frakklandi þar sem urðu vatnaskil í stjórnmálunum. Hann segir strauminn liggja til Samfylkingarinnar og óhætt sé að spyrja hvort hið sama gerist hér og í fyrrnefndum ríkjum Evrópu þar sem þróunin hefur verið stöðug, skýr og afgerandi í þá átt að fylgið sópist til þess flokks sem mælist sterkastur í skoðanakönnunum í langan tíma og ber svo sigur úr býtum þegar kemur að sjálfum kosningunum.

„Fjölmiðlar hafa skýrt frá því að formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, hafi verið á vettvangi í London ásamt fylgdarliði til að samfagna með systurflokknum í Bretlandi og læra af flokksfélögum sínum þar í landi hvernig á að reka svo árangursríka kosningabaráttu. Hún virðist því ætla að koma vel undirbúin og þungvopnuð til næstu kosninga. Margt bendir til þess að þróunin á Íslandi í næstu kosningum geti orðið með svipuðum hætti og gerðist í Frakklandi og Englandi. Kjósendur gætu fylkt sér enn frekar um væntanlega sigurvegara. Verði þróunin þannig er ekkert sem stöðvar Samfylkinguna við 30 prósentin. Fylgi flokksins gæti allt eins endað í 35 prósentum sem ætti að gefa 22 til 24 þingsæti.“

Ólafur er ekki sannfærður um að gamlar og öflugar kosningamaskínur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar muni duga að þessu sinni. Þær verði örugglega ræstar en óvíst sé hvort þær virki nú þegar stemningin í þjóðfélaginu og straumurinn meðal kjósenda liggi í aðrar áttir, einkum til Samfylkingarinnar, sem sé að ná stöðu sem forystuflokkur íslenskra stjórnmála.

Hann nefnir nýafstaðnar forsetakosningar sem dæmi um þá breytingu sem sé að eiga sér stað. Stjórnarflokkarnir þrír hafi augljóslega viljað fá Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forseta en kjósendur hafi hafnað þeirri hugmynd þeirra á eftirminnilegan hátt.

“Af samtölum við dygga stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins að dæma virðist von þeirra um bættan hag flokksins dofna jafnt og þétt. Algengt er að menn segi að ekki þurfi að vænta aukins fylgis hjá flokknum fyrr en algjörlega hefur verið skipt um forystu hans. Þeir telja að Bjarni Benediktsson verði að láta af formennsku til þess að flokkurinn geti spyrnt sér upp á við. Hins vegar virðist flestum vera það ljóst að Bjarni ætlar sér ekki að hætta, hvað sem ömurlegum skoðanakönnunum líður mánuð eftir mánuð. Hann ætlar að gera eins og Jóhanna Sigurðardóttir gerði á sínum tíma, stritast við að sitja á stóli forsætisráðherra út kjörtímabilið þó svo að afleiðingarnar geti orðið skelfilegar eins og varð hjá Jóhönnu og samstarfsfólki hennar vorið 2013.”

Ólafur segir það almennt álit þessara dyggu stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi ekki lengur áhuga á að verða formaður, hann hafi verið lítt sýnilegur á þessu kjörtímabili. Þá sé varaformaðurinn, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ekki lengur talin koma til greina vegna ítrekaðra axarskafta í embætti utanríkisráðherra, ekki hvað síst lokunar sendiráðs Íslands í Moskvu á síðasta ári.

„Er þá enginn til að taka við flokknum ef Bjarni lætur af forystu? Að sönnu er ekki um auðugan garð að gresja. Einhverjir ganga svo langt að nefna Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem mögulegan formann Sjálfstæðisflokksins, en talsvert hefur mætt á henni í embætti dómsmálaráðherra og þar af leiðandi hefur hún verið talsvert í sviðsljósi fjölmiðla.

Verði það þrautalendingin munu margir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins brosa breitt.“

Náttfara í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“