fbpx
Sunnudagur 08.desember 2024
Eyjan

„Mér finnst mjög skrítið að hægt sé að komast upp með annan eins munnsöfnuð“

Eyjan
Fimmtudaginn 7. nóvember 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Þór Jónsson, oddviti Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi, vill fá kvótann aftur til þjóðarinnar. Hann mætti í Morgunútvarpið á RÁS2 þar sem hann sagði sósíalista ekki vera lengra til vinstri en vinstri hreyfingar voru almennt hér á landi fyrir 20-30 árum síðan. Hins vegar hafi hægrið fært sig lengra til hægri. Nú sé flokkur í framboði sem hefur farið fram með slíkum munnsöfnuði að það hefði aldrei þótt boðlegt hér áður fyrr. 

„Það sem hefur gert er að hægrið hefur öfgavætt sig. Hægrið hefur radicalise-að og það er komið sturlað öfga-hægri lið í framboð með málflutning sem fyrir 20-30 árum hefði þótt með öllu óboðlegur.“

Kvótan úr klóm auðvaldsins

Davíð Þór útskýrir að sósíalismi í grunninn gangi út á að það að hrifsa ríkisvaldið úr klóm auðvaldsins. „Við lítum svo á að það eigi að vera hlutverk ríkisins að ganga erinda almennings gagnvart auðvaldinu, ekki öfugt eins og tíðkast hefur á Íslandi undanfarna áratugi þar sem litið er á það sem hlutverk ríkisvaldsins að ganga erinda auðvaldsins gagnvart almenning.“

Það sé flókið mál að snúa þessari þróun við. Fyrst og fremst þurfi að setja auðvaldinu skorður. Nú sé forgangsmál að koma húsnæðismálum í viðunandi stand, en neyðarástand á húsnæðismarkað sé einmitt gott dæmi um græðgi auðvaldsins. „Auðvaldið hefur sölsað undir sig húsnæðismarkaðinn og skapað ófremdarástand. Við höfum lýst yfir algjöru neyðarástandi á húsnæðismarkaði og leggjum til víðtækar félagslegar aðgerðir“

Að mati sósíalistaflokksins sé staðan mannréttindabrot enda komi skýrt fram í mannréttindasáttmála Evrópu að það séu mannréttindi að eiga þak yfir höfuðið. Annað mál sé svo efnahagsástandið. Það þurfi að halda verðbólgu niðri og lækka vexti.

„Við viljum koma á réttlátu samfélagi. Við höfum lagt til gerbreytingar á því til dæmis hvernig sköttum er dreift og hvernig þeir eru innheimtir. Núverandi ríkisstjórn stærir sig af því að hafa lækkað skatta en þegar rýnt er í tölurnar þá kemur í ljós að hún hefur hækkað skatta á lágtekjufólk og millitekjufólk en lækkað þá töluvert á tekjuháa einstaklinga. Við viljum að fjármagnstekjur séu skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur og við viljum endurheimta auðlindir þjóðarinnar. Við gerum okkur grein fyrir því að það verði ekki gert með einu pennastriki en það er hægt að vinda ofan af því á 2-3 kjörtímabilum. Við viljum benda á að eitt ríkasta land í heimi um þessar mundir, Noregur, þegar þeir uppgötvuðu gríðarlegar auðlindir í hafinu, hvað gerðu þeir? Fóru þeir íslensku leiðina og bjuggu til litla olíubaróna meðfram allri ströndinni sem náðu heljartökum á sínu byggðarlagi og stungu að lokum ríkisstjórninni í rassvasann? Nei þeir gerðu það ekki. Þeir þjóðnýttu auðlindirnar með þeim afleiðingum að Noregur er í dag ríkasta land í heimi.“

Vissulega þurfi að standa við skuldbindingar en það sé ekki ómögulegt að losa kvótann aftur til íslensku þjóðarinnar. Hægt og rólega.

„Kvótinn yrði þá seldur hæstbjóðanda þannig að þjóðin fengu hámarksverð fyrir auðlindina sína en þess yrði samt sem áður gætt að það yrði ekki bara selt hæstbjóðanda heldur líka gætt að því að kvótinn myndi dreifast með eðlilegum og sanngjörnum hætti á smærri útgerðir, byggðarlög og annað slíkt.“

Sá ykkar sem siðlaus er

Hvað varðar aðild að Evrópusambandinu þá segir Davíð Þór að það sé í raun fráleitt að flokkar eyði tíma í að taka afstöðu til þess þar sem það eigi að vera undir þjóðinni komið. Þjóðin eigi að taka ákvörðun. Flokkar geti þó rætt sín á milli hvort þeir ættu að þrýsta á að efna til þjóðaratkvæðisgreiðslu. Og niðurstöðu þjóðaratkvæðisgreiðslur beri að virða og það vilja sósíalistar gera með því að taka upp nýju stjórnarskránna.

Davíð Þór segist hafa áhyggjur af öfga-hægri umræðunni á alþjóðlegum vettvang sem hafi eitthvað smitast hingað heim. Megi sjá það glöggt af því að 41 prósent stuðningsmanna Miðflokksins hefði kosið Trump samkvæmt könnum Prósents í síðustu viku, en í heildina hefðu aðeins 11 prósent landsmanna kosið Trump. Eins blikkni margt af því sem Trump hefur sagt í samanburði við það sem Miðflokksmenn hafi látið út úr sér á Klausturbar.

„Mér finnst mjög skrítið að hægt sé að komast upp með annan eins munnsöfnuð, jafn afhjúpandi mannfyrirlitningu og kvenfyrirlitningu og það bara detti af mönnum eins og þeir séu teflonhúðaðir og allir eru bara búnir að gleyma því að þetta átti sér stað núna. Eins og ég hef sagt, öllum getur orðið á, en það er alveg eðlismunur á setningunni: „Sá ykkar sem syndlaus er“ og „Sá ykkar sem siðlaus er“.“

Davíð Þór hefur komið víða við á ferli sínum og stundum fyrir gróft orðalag og húmor. Aðspurður hvort hann haldi að það geti komið honum í koll í pólitískri baráttu segir Davíð Þór:

„Hendið bara því sem þið eigið, það er ekkert þarna í pokanum mínum sem ekki hefur verið dregið upp og veifað framan í mig áður. Do your worst. Ég veit ekki hvað þið gætuð gert mér sem þið eruð ekki búin að gera.“

Hann telur að fyrir nýliða í pólitík sem er andspænis reynsluboltum sem beinlínis hafa verið í áskrift að þingsætum þá komi reynsla af því að koma fram sér vel. Þetta sé ekki fyrir hvern sem er. Davíð komi inn í baráttuna sem borgari þó hann hafi undanfarið starfað sem prestur. Hann segir sósíalista nálgast stjórnmálin líkt og í dæmisögunni um týnda sauðinn. Þar eru 99 sauðir í fjallinu öruggir. Maðurinn telur þá og sér það vantar einn. Hann leitar að týndu kindinni þar til hún finnst.

„Það er það sem sósíalisminn gengur út á. Enginn er skilinn eftir. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeim sem hafa það gott. Við förum og finnum þennan sem er í hættu á að farast og við leggjum allt í sölurnar fyrir hann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Ég tók það ráð að bregðast við með brosi og hafa bakið beint, sama á hverju hefur gengið“

„Ég tók það ráð að bregðast við með brosi og hafa bakið beint, sama á hverju hefur gengið“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna