fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Eyjan

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?

Eyjan
Laugardaginn 30. nóvember 2024 15:59

Skjáskot/RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru ekki bara kosningar, það eru líka að koma jól. Þetta hafði RÚV á bak við eyrað í leiðtogaumræðunum í gær en undir lok þáttar var haldinn pakkaleikur. Um var að ræða eins konar leynivinaleik. Hver leiðtogi fékk það verkefni að gefa einhverjum mótherja sínum jólagjöf. Pakkarnir voru ómerktir og þurftu frambjóðendur fyrst að giska hvaðan pakkinn kom áður en gefandinn gaf sig fram.

Fyrir þá sem misstu af gleðinni þá þá má horfa á umræðurnar hjá RÚV og hefst pakkaleikurinn eftir eina klukkustund og 48 mínútur. Fyrir þá sem hafa engan tíma til að horfa verður hér rakið hvað frambjóðendur fengu og frá hverjum.

Svandís Svavarsdóttir, Vinstri græn.

Svandís fékk dýrindis handgert konfekt úr smiðju Hafliða og SÁÁ jólaálfinn. Svandís giskaði á að það hefði verið Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sem átti heiðurinn að gjöfinni. Annað kom á daginn. Gjöfin kom frá Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins.

Að baki er handunnið dásamlegt konfekt. Ég veit að Svandís er sælkeri og henni veitti nú ekki að því að leggjast núna fyrir framan arineldinn og borða handunnið konfekt og hún fékk álfinn, jólaálfinn líka, af því að við Svandís ætlum saman að berjast gegn fíknisjúkdómum og efla starfsemina.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sósíalistaflokkur Íslands.

Sanna fékk litríka vettlinga sem hún var verulega lukkuleg með. Hún tók fram að það geri mikið fyrir sálina að vera í litum. Hún giskaði á að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefði gefið vettlingana en líkt og hjá Svandísi þá kom annað í ljós. Það var Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, sem átti heiðurinn.

„Þetta er íslensk menning, íslenskt handverk, kona sem gerir þetta. Og svo er þessu pakkað inn í Bændablaðið með sérstökum hætti, sem þú sást utan á. Og svo hannaði merkimiðann barnabarnið mitt.“

 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokkurinn

Sigmundur fékk bláan bol úr smiðju Havarí með áletruninni „Fáránlega hress“ sem er vísun í lag með Prins póló heitnum. Sigmundur sagðist sannfærður um að þarna væri einhver góður húmoristi á ferðinni. Hann giskaði fyrst á Sigurð Inga en fattaði svo að gjöf Sigurðar hafði þegar komið fram. Húmoristinn reyndist vera Svandís Svavarsdóttir.

„Ég hef alltaf sagt að þú sért húmoristi,“ sagði Sigmundur þá.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn.

Þorgerður fékk Liverpool-bol sem var merktur leikmanninum Mohamed Salah. Áður en Þorgerður gat giskað gaf Kristrún Frostadóttir sig fram.

„Þetta er Samfylkingarliturinn! Ég veit náttúrulega að þú ert mikil íþróttakona, þú ert mikill FH-ingur og Poolari. Ég reyndar bjó í Manchester sem barn en þetta eru bæði verkamannalið.“

Kristrún Frostadóttir, Samfylkingin

Kristrún þurfti nú ekki að hugsa sig lengi um enda fékk hún peysu og varning sem voru rækilega merkt Sjálfstæðisflokknum. Hún tók fram að líklega hefði Bjarni Benediktsson fengið hugmyndina frá Brynjari Níelssyni sem Kristrún hafði nýlega rekist á hann í einmitt svona peysu. Kristrún tók þó fram að hún hefði heldur viljað fá peysu sem væri aðeins sniðnari að hennar stjórnmálaskoðunum.

Bjarni tók fram að þetta væri náttúrulega æðisleg peysa sem allir vildu. Svo gaf hann henni sjálfstæðiskerti og sjálfstæðisspil í anda jólanna, kerti og spil. Þar með hefur Sjálfstæðisflokkurinn passað að formaður Samfylkingarinnar fari ekki í jólaköttinn og að hún hafi fengið eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil.

Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokkurinn

Bjarni Benediktsson komst aðeins við þegar hann greindi frá því hvað hann fékk frá sínum leynileiðtogavini. Hann fékk innrammað handskrifað biblíuvers úr fyrra bréfi Páls til Korintumanna,  um kærleikann. „Einhver fallegustu orðin úr biblíunni, sem maður fær oft lesin upp þegar maður kemur til kirkju,“ sagði Bjarni sem sagði að orð versins endist vel og falli aldrei úr gildi. Hann grunaði að Arnar Þór Jónsson stæði þar að baki.

En þá gaf Sanna sig fram með brosi. „Skilaboðin í þessu eru svo góð.“

Inga Sæland, Flokkur fólksins

Inga Sæland var í skýjunum með sína gjöf. Hún fékk karókímíkrofón og sýndi hann með tilþrifum. Inga hafði þegar áttað sig á því að Þórhildur Sunna var hennar leynivinur. Þórhildur tók fram að hún og Inga séu ekki alltaf sammála um allt en þær séu þó sammála um að það sé gaman að syngja í karókí.

„Og ég er eiginlega að bjóða mér í partý til hennar Ingu“

Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsókn

Sigurður Ingi var næstur. Hann fékk ósamsett piparkökuhús. „Trúlega til að leysa húsnæðisvandann,“ sagði Sigurður sem taldi ljóst að gjöfin væri smá pilla enda hefur hann verið innviðaráðherra á kjörtímabilinu. „Ég kemst ekki inn í þetta hús, en þetta er piparkökuhús,“ sagði Sigurður sem giskaði strax á að gjöfin væri frá Sigmundi Davíð.

„Það er rétt til getið. Ég byggði svona hús fyrir síðustu jól og það er mjög skemmtilegt. Ég mæli með þessu. Þetta er svona einingarhús.“

Sigurður tók gríninu vel og tók fram að hann hafi síðustu jól sett saman piparkökuhús með fjölskyldunni og ætlaði að gera aftur svo þetta kæmi sér vel.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Píratar

Þórhildur fékk gjafabréf í SPA hjá Bláa lóninu og litlar prufur af kremum. Þórhildur beitti útilokunarreglunni og giskaði réttilega á að Arnar Þór hefði gefið henni gjöfina.

„Þetta var mér hugleikið því þetta var það sem ég þurfti á að halda eftir að hafa hlaupið í raun tvö maraþonhlaup þetta ár. Þetta er búið að vera erfiðasta ár ævi minnar.“

Arnar Þór Jónsson, Lýðræðisflokkurinn

Arnar sagðist vilja hrósa þeim sem gaf honum jólagjöf enda var það gjafabréf í Sky Lagoon fyrir tvo. Það reyndist vera Þorgerður sem var leynivinurinn.

„Mig langaði að gefa þér þetta Arnar Þór því eins og þú sagðir réttilega þá ertu búinn að fara í gegnum stormasamt ár,“ sagði Þorgerður. Arnar hafi farið í gegnum forsetakosningar og svo strax farið og stofnað nýjan flokk samhliða því að missa föður sinn. Hana langaði því að gleðja Arnar og konu hans og svo skemmi ekki fyrir að Sky Lagoon er einmitt í kjördæmi Þorgerðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Stefnir í afar spennandi nótt hjá Brynjari – Er inni sem jöfnunarmaður

Stefnir í afar spennandi nótt hjá Brynjari – Er inni sem jöfnunarmaður
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokks: „Við höfum engan heillandi leiðtoga með sýn og það er okkur erfitt“ 

Fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokks: „Við höfum engan heillandi leiðtoga með sýn og það er okkur erfitt“ 
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stefán Einar birtir kosningaspá sína – Telur að Píratar detti út og Sjálfstæðisflokkurinn taki fram úr Samfylkingunni

Stefán Einar birtir kosningaspá sína – Telur að Píratar detti út og Sjálfstæðisflokkurinn taki fram úr Samfylkingunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Samkomulag við Arion banka og Landsbankann um fjármögnun First Water

Samkomulag við Arion banka og Landsbankann um fjármögnun First Water
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Willum gerir lækna að Framsóknarmönnum

Willum gerir lækna að Framsóknarmönnum