Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að það sé rangt að tala um að kjósa til hægri eða til vinstri. Hið rétta sé að landsmenn kjósi nú um frjálslyndi eða stjórnlyndi.
„Hægri eða vinstri?
Röng spurning. Það þarf hvort tveggja. Þetta er heldur ekki spurning um „hægri hagstjórn, vinstri velferð“. Það þýðir ekkert. Við þurfum beggja blands af opinberri þjónustu í opinberum og einkarekstri. Opinbert vald virkar nefnilega þannig að það þarf utanaðkomandi aðhald. Sama á við um einokun á almennum markaði.
Raunverulega spurningin er frjálslyndi eða stjórnlyndi. Frelsi til þess að vera maður sjálfur eða að þurfa að haga sér eins og öðrum finnst.“
Frjálslyndið beiti sér fyrir frelsi, frelsi hvað varðar trú, kyn, tjáningu og svo frelsið til að njóta friðhelgi. Stjórnlyndið standi á móti þessu.
Björn segir að þeir sem vilji stjórnlyndi séu frjálsir til að hafa slíkar skoðanir en þessir aðilar eigi þó ekkert erindi í lagasetningu og eigi ekki að fara með opinbert vald. Það sé hægt að blanda saman hægri og vinstri stefnum. Það sé ekki hægt að blanda saman stjórnlyndi og frjálslyndi.
„Þetta er kynfrelsi, trúfrelsi, tjáningarfrelsi, friðhelgi, … allt sem stjórnlyndið vill ekki.
En sumir eru þannig og mega vera þannig. Þau eru frjáls til þess að vera eins og þau eru. En að mínu mati hafa þau ekkert að gera neins staðar nálægt lagasetningu og opinberu valdi. Þau vilja almennt fjarlægja réttindi fólks.
Umræðan milli frjálslyndis og stjórnlyndis er stóra pólitíska umræðan í dag. Hægri og vinstri er tilgangslaus umræða ef svarið á að vera annað hvort eða. Það sama á ekki við um frjálslyndi og stjórnlyndi. Blanda beggja virkar ekki. “