fbpx
Sunnudagur 08.desember 2024
Eyjan

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Eyjan
Laugardaginn 30. nóvember 2024 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), hefur áhyggjur af kosningunum og hvetur landsmenn til að hugsa sig vel um áður en þeir kjósa. Hagur almennings sé í húfi en í framboði séu öfl sem vilja einkavæða heilbrigðis- og velferðarkerfið sem og hækka orkukostnað landsmanna. Þetta kemur fram í langri grein sem Finnbjörn birti í dag.

„Nefni ég fyrst markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu og velferðarþjónustu, sem fjármagnsöflin hafa einsett sér að koma á og snýst fyrst og fremst um óheftan aðgang þeirra sömu að ríkissjóði landsmanna. Hið sama á við um orkumálin. Þar eygja fjárplógsmenn mikil tækifæri í frekari markaðsvæðingu líkt og sjá má af skipulögðum uppkaupum á landi undir vindmyllur og aðra starfsemi sem ætlað er að skapa viðkomandi mikinn hagnað með nýtingu auðlinda og landsins gæða“

Einkavætt heilbrigðiskerfi

Finnbjörn rekur að þessi sömu öfl standi nú vörð um fákeppni og einokun í verslun og viðskiptum sem reynist Íslendingum dýrkeypt. Nái þessir aðilar fram vilja sínum muni samfélagið eins og við þekkjum það vera úr sögunni.

„Hér verður innleitt einkavætt heilbrigðis- og velferðarkerfi og skiptir þá engu þótt fræðimenn í Svíþjóð, Bretlandi og víðar ráði Íslendingum eindregið frá því að halda út á þessa ógæfubraut.“

Fáheyrð ósvífni

Svo séu það orkumálin. Verð á raforku fari hækkandi á landinu enda hafi milliliðum verið fjölgað með skipulegum hætti. Greinilega sé stefnt að því að keyra orkuverð upp í það sem þekkist á meginlandi Evrópu. Til þess noti peningaöflun Evrópulöggjöf en tali svo á sama tíma gegn Evrópusambandinu.

„Þannig reyna peningaöflin í landinu að nýta sér lög og reglugerðir Evrópusambandsins sem þeir keppast síðan við að lýsa yfir að Íslendingar eigi ekkert erindi í. Það er fáheyrð ósvífni“

Það yrði Íslendingum þungt högg ef raforkuverð hækkar og þá helst þeim hópum sem hafa minnst milli handanna.

Eins ætli peningaöflun sér að nýta auðlindir Íslendinga enn frekar. Nú sé horft til vatnsauðlinda á bújörðum. Bændasamtökin halda því fram að stjórnvöld hafi sofið á verðinum en Finnbjörn telur að raunin sé önnur. Hér hafi leynt og ljóst verið unnið að því að skapa „fjárplógsmönnum“ möguleika til uppkaupa á bújörðum.

Aðeins 3% landsmanna eru hlynnt því að nýting auðlinda til orkuframleiðslu sé að miklu eða öllu í höndum einkafyrirtækja. 85% vilja að nýting sé alfarið eða að miklu í höndum ríkisfyrirtækja.

„Reynslan kennir að hófleg tortryggni er við hæfi þegar stjórnmálaflokkar lýsa afdráttarlausum stuðningi við almannahag. Hér hefur stjórnmálamönnum áratugum saman tekist að ganga „óbundnir til kosninga“ sem felur í sér að þeir geta hagað samstarfi sínu á hvern þann veg sem þeir kjósa þegar almenningur hefur skilað sér í kjörklefann. Með öðrum orðum er það hlutverk almennings eitt að gefa stjórnmálamönnum umboð til að haga málum á þann veg sem þeir kjósa eftir kosningar. Þetta er til marks um frumstæðan skilning á lýðræðinu og heldur ógeðfelld sýn til fólksins og samfélagsins.“

Vítahringur verðhækkana

ASÍ hafi eins reynt að vara við því að sveitarfélögin séu nú orðin háð hækkunum á húsnæðismarkaði. Þannig fái þau meira í formi fasteignaskatta og ástandinu haldið við með lóðaskort. Þetta skapi vítahring verðhækkana, verðbólgu og vaxta.

„Henni fylgir siðlaust brask með lóðir og hún eykur beinlínis ójöfnuð í landinu. Lóðaskortsstefnan er skýrt dæmi um þann skaða sem stjórnmálamenn og flokkar þeirra geta valdið með vanhæfni og fráleitri forgangsröðun. Hana má með réttu telja hamfarir af mannavöldum.“

Húsnæðisástandið megi rekja til forkastanlegrar vanrækslu stjórnmálamanna gagnvart almenningi og Finnbjörn segist ekki bjartsýnn á að það fari að rofa til í húsnæðismálum heldur segir þvert á móti að það stefni í að endurtaka leikfléttuna í kringum kvótakerfið. Nú ætli fjármagnsöflin að eignast Ísland eins og það leggur sig og almenningur fær að borga.

„Nú ríður á að almenningur geri sér ljóst að til stendur að endurtaka leikfléttuna í kringum kvótakerfið og framsal veiðiheimilda. Fjármagnsöflin og töskuberar þeirra hafa einsett sér að komast yfir eignarhald á Íslandi og auðlindum þess. Verði ekki brugðist við áformum peningavaldsins og erindreka þeirra innan og utan stjórnmálanna verður vindinum, landinu, vatninu og jarðvarmanum líka komið í hendur útvaldra. Almenningur verður krafinn um miklu meiri fjármuni fyrir vatn, hita og rafmagn og stærstum hluta hagnaðarins komið úr landi.

Ég hef hér fjallað stuttlega um nokkur stærstu málin sem blasa við fólkinu í landinu á þessum kjördegi. Ég leyfi mér að hvetja þá sem þessi orð mín lesa til að hugleiða hagsmuni almennings og verja atkvæði sínu í samræmi við þá niðurstöðu. Mikið er í húfi; samsetning og forgangsröðun þeirrar ríkisstjórnar sem við tekur mun ráða miklu um samfélagsþróunina, nýtingu auðlinda og innviði, skiptingu gæðanna og kjörin. Ekki verður síður mikilvægt að verjast yfirgangi sérhagsmuna þegar samningaviðræður flokksleiðtoga hefjast að kosningum loknum og stjórnmálafólk hreiðrar um sig í valdastólunum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Vuk í Fram
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Ég tók það ráð að bregðast við með brosi og hafa bakið beint, sama á hverju hefur gengið“

„Ég tók það ráð að bregðast við með brosi og hafa bakið beint, sama á hverju hefur gengið“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?