fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Eyjan

Stjórn Heimssýnar skrifar: Evrópusambandssinna svarað

Eyjan
Fimmtudaginn 28. nóvember 2024 09:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn Heimssýnar skrifar: 

Ole Anton Bieltvedt skrifar grein um Evrópusambandið sem birtist á Eyjunni og DV þann 24.11.2024. Þar sem höfundur nefnir Heimssýn sérstaklega er okkur bæði ljúft og skylt að svara ýmsum fullyrðingum og rangfærslum sem þar koma fram.

Höfundur byrjar á því að fabúlera um pólitískar skoðanir sem meðlimir Heimssýnar gætu verið með. Hann telur þá sem ekki eru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu vera m.a. “Hægri öfgamenn, þjóðernissinna með þrönga sýn, popúlista …” Innan Heimssýnar eru fjölbreyttar skoðanir á ýmsum málum, enda ekki við öðru að búast í mörg þúsund manna hreyfingu. Það sem sameinar okkur er að við viljum að valdið á Íslandi sé í höndum fulltrúa fólksins í landinu sem geti átt frjáls viðskipti við sem flesta. Það kalla sumir frjálslynt lýðræði.

Síðan segir höfundur; “Á sama tíma er Evrópa miðstöð lýðræðis, baráttunnar gegn spillingu, mannréttinda, virðingar við jörðina, velferðar og öryggis.” Það er margt til í þessu og má segja að Evrópa og Bandaríkin hafi verið í fararbroddi við að búa til stjórnmálakerfi sem hefur mannréttindi og lýðræði í hávegum. Hins vegar er ljóst að lönd geta hæglega haldið þessum gildum á lofti, án þess að vera í Evrópusambandinu, sem er á margan hátt afar ólýðræðilegt bandalag. Einnig má vinna að öryggismálum með öðrum hætti. Þannig hefur það reyndar verið hingað til.

Þá fer höfundur að ræða um málefni hælisleitenda og þeirra sem flakka á milli landa í leit af betra lífi. “Er ljóst að margur maðurinn í Asíu, Afríku eða S-Ameríku muni renna hýru auga til Evrópu og þeirrar velferðar, frelsis og þess öryggis sem hér má finna á komandi áratugum.” Þetta er líklega hárrétt. Þau lífsgæði sem við njótum sem búum í hinum vestræna heimi, munu án efa halda áfram að laða til sín fólk úr öllum heimsálfum sem eru að leita að betra lífi. Félagar í Heimssýn og aðrir hafa ýmsar skoðanir á málum sem tengjast flutningum fólks til Íslands, en félagsmenn eru sammála um að stjórn þeirra mála eigi að vera í höndum fulltrúa fólksins í landinu, ekki einhverra annarra.

Síðan ásakar höfundur nokkra stjórnmálaflokka um að vinna að því að veikja Evrópu; “ .. vegna þröngrar þjóðerniskenndar sinnar og skammsýni, afdalamennsku, aðhyllast og beinlínis styðja þessi sjónarmið og tilraunir til niðurrifs og uppskiptingar, veikingar, eyðileggingar Evrópu.” Erfitt er að skilja þetta á annan veg en þann, að höfundi finnist að allir sem eru ósammála honum um hversu gott Evrópusambandið sé, séu varla marktækir vegna fávisku sinnar og vonsku. Hér birtist með skýrum hætti einhvers konar trúarleg frelsun og sannfæring um að það sé ekki hægt að lifa góðu lífi án þess að ganga hinum nýja konungi, Evrópusambandinu, á hönd. Staðreyndir eins og að efnahagur Evrópusambandsins sé bágborinn og stefni jafnvel niður á við, að reglugerðafargan sé að kæfa nýsköpun, helti rótgróin fyrirtæki og að embættismenn hafi gríðarleg völd miðað við kjörna fulltrúa, virðist ekki trufla trú þeirra frelsuðu á að allt sé betra innan veggja bandalagsins.

Höfundur heldur síðan áfram í svipuðum dúr og skrifar; “Vettvangur fyrir þetta lífsnauðsynlega samstarf og aðgerðir er vitaskuld Evrópusambandið, ESB, sem, Guði sé lof, er komið vel á veg með að sameina og styrkja Evrópu viðskiptalega og efnahagslega og sér þörfina nú á hernaðarlegri styrkingu og sjálfstæði.” Heimssýn er sammála mati höfundar um að gott samstarf við Evrópu sé nauðsynlegt. Hinsvegar er alveg ljóst að hægt er að gera það án þess að vera í Evrópusambandi og færa völdin til ókjörinna embættismanna í Brussel. Alþjóðasamstarf og milliríkjaviðskipti blómstra um allan heim og þarf ekkert Evrópusamband til að það gangi upp.

Heimssýn undrast þau gífuryrði sem höfundur ber á borð í þessari grein. Betra er að ræða mál sem þessi með yfirveguðum og rökrænum hætti og forðast ber að gera öðrum upp skoðanir. Það er ekki í anda þeirra gilda sem hinn vestræni heimur hefur þróað undanfarnar aldir.

Stjórn Heimssýnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?