fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Eyjan

Björn kemur Þórdísi til varnar og sakar Frosta um delluyfirlýsingar

Eyjan
Fimmtudaginn 3. október 2024 14:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, er ekki hrifinn af yfirlýsingum Frosta Sigurjónssonar, frumkvöðuls og fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins, um Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra. Frosti sagði að Þórdís væri einn versti utanríkisráðherra sem við hefðum hátt og gagnrýndi harðlega þá ákvörðun hennar að loka sendiráði Íslands í Rússlandi eftir innrás Rússa í Úkraínu. Þá er hann afar óánægður með framlagninu bókunar 35 sem hann segir fela í sér að íslensk lög gildi ekki lengur á Íslandi umfram evrópskar tilskipanir.

Sjá einnig: Fer hörðum orðum um Þórdísi – „Einn versti utanríkisráðherra sem við höfum haft“

Þetta kom fram í viðtali Frosta við nafna hans Logason á hlaðvarpsveitunni Brotkast. Frosti Sigurjónsson sagði:

„Ísland gerði alveg gríðarleg mistök, varð fyrsta landið og eina landið til að loka sendiráði sínu í Rússlandi, og það var okkar utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún…Ég held að það eina sem hún fær út úr þessu sé að við fáum númeraða eldflaug á okkur, kjarnorkuflaug sko.“

Frosti segist gruna Þórdísi um að hafa þarna unnið verk fyrir Nató. „Við þurfum að reka okkar sjálfstæðu utanríkisstefnu, við getum ekki verið að breytast úr friðelskandi þjóð sem að vill í raun og veru… við höfum alveg frá örófi alda lýst yfir hlutleysi í þessum átökum.“

Frosti segir að ákvörðun Þórdísar jaðri við landráð. „Hún er að vinna gegn hagsmunum okkar og draga okkur inn í stríð. Það er landráð. Það er bannað samkvæmt lögunum. Þetta er einn versti utanríkisráðherra sem við höfum haft, að mínu mati. Alveg ævintýrlega slæmur. Hún samþykkti líka sem ráðherra að við mynum ekki biðja um neina undanþágu frá álögum á eldsneyti skipa og flugvéla sem hér millilenda. Eina sem gerist er að flugið færist bara til Bretlands. Við hættum að vera millilendingarstaður.“

Hann sagði ennfremur:

„Síðan leggur hún fram bókun 35 til að kóróna sköpunarverkið. Þessi bókun 35 er búin að vera þyrnir í augum Evrópusambandsins. Þegar við göngum inn í Evrópska efnahagssvæðið þá er skrifað undir samning um að íslensk lög gildi á Íslandi. Evrópsk í Evrópu. Og hér þurfi öll lög að vera sett á Alþingi. Þetta er búið að pirra Evrópusambandið í vaxandi mæli síðustu ár. Þetta er búið að vera í 30 ár. Á Íslandi er það þingið sem setur lögin en ekki ESB. Í raun er verið að ganga á bak orða sinna og brjóta samninginn sem var forsenda fyrir inngöngu okkar inn [í EES – innskot DV]. Og hún er verkfærið. Hún er að leggja fram frumvarp um að lög sem eru sett í Evrópusambandinu séu rétthærri íslensku lögunum. Afleiðingarnar af þessu eru ófyrirsjáanlegar.“

Delluyfirlýsingar til heimabrúks

Björn Bjarnason fer hörðum orðum um þennan málflutning Frosta á vefsíðu sinni:

„Frosti Sigurjónsson ætti að lesa sér til um málefni áður en hann ber utanríkisráðherra röngum sökum, aðeins til að skemmta skrattanum.

Delluyfirlýsingar sem gefnar eru til heimabrúks um eitthvað sem er á döfinni hverju sinni skipta almennt engu máli. Yfirlýsingar sem gefnar eru um málefni sem snerta samskipti okkar við aðrar þjóðir eða vegna aðildar okkar að alþjóðlegu samstarfi eru vegnar og metnar af öðrum. Þær hafa áhrif á orðspor þess sem yfirlýsingarnar gefur, hvort hann sé marktækur eða ekki.

Á DV var miðvikudaginn 2. október sagt frá samtali sem Frosti Logason átti á hlaðvarpi sínu við Frosta Sigurjónsson, frumkvöðul og fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins. Samkvæmt endursögninni ber þingmaðurinn fyrrverandi Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra mjög þungum sökum af því hún vinni gegn hlutleysi landsins (!) og gangi erinda NATO með því að standa með Úkraínu í stríðinu við Rússa og loka sendiráði Íslands í Moskvu. „Ég held að það eina sem hún fær út úr þessu sé að við fáum númeraða eldflaug á okkur, kjarnorkuflaug sko.“

Það var hárrétt ákvörðun hjá utanríkisráðherra að loka sendiráði Íslands í Moskvu. Sendiherrann, Árni Þór Sigurðsson, hafði að eigin ósk flust til Kaupmannahafnar. Tengslin við rússnesk stjórnvöld voru á ís og óttast var um öryggi þeirra sem störfuðu í sendiráðinu. Rússnesk stjórnvöld leggja sig fram um að gera vestrænum sendimönnum í Moskvu lífið eins erfitt og verða má.

Þá gerði lokunin íslenskum yfirvöldum kleift að krefjast brottflutnings rússneskra sendiráðsmanna héðan en fjöldi þeirra nálgaðist 30 og sendiherrann birti ögranir í garð utanríkisráðherra og sendi lygafréttir héðan til að sverta Íslendinga í augum Rússa og ala á þeirri skoðun að Íslendingar væru í hópi óvina þeirra. Gott ef hann hótaði ekki eins og Frosti með kjarnaflaug.“

Björn segir ennfremur að umræður um bókun 35, sem hafi gilt í 30 ár, séu takmarkalausar. „Þeir sem lúta lögsögu íslenskra dómstóla njóta ekki sama réttar og aðrir á EES-svæðinu vegna orðalags í íslenskum lögum. Lagt er til að alþingi breyti lögunum. Þegar það er gert afhjúpa menn vanþekkingu eða skort á lesskilningi á þann veg sem birtist í orðum Frosta Sigurjónssonar. Hann ætti að lesa sér til um málefni áður en hann ber utanríkisráðherra röngum sökum, aðeins til að skemmta skrattanum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Dýr myndi Jón Gunnarsson allur – kvalræði Sjálfstæðisflokksins ætlar engan enda að taka

Orðið á götunni: Dýr myndi Jón Gunnarsson allur – kvalræði Sjálfstæðisflokksins ætlar engan enda að taka
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni