„Ég myndi telja að efnahagsástandið spili þar stórt hlutverk. við sjáum að um 40 prósent launafólks á erfitt með að ná endum saman og þessi tala er farin að nálgast mjög það sem var á hrunsárunum, eftir hrunið, og auðvitað hefur ójöfnuður slæm áhrif á samfélagið í heild sinni,“ segir Sanna Magdalena.
Hún segir að sósíalistar telji vanta í umræðuna um andlega líðan ungmenna að hlutirnir séu skoðaðir út frá ójöfnuði; hver sé birtingarmynd þess að búa í ójöfnuðarsamfélagi? „Hefur það áhrif á fjölskyldur, á börn, á ungmenni, á líðan og getu þeirra til að tjá sig um það sem þau eru að ganga í gegnum. Við vitum bara að jafnara samfélag er betra fyrir alla, líka þau tekjuhæstu. Þetta er eitthvað sem þarf algerlega að taka með inn í reikninginn þegar það er verið að greina stöðuna og þegar það er verið að líta til þess hvað eigi að gera.“
Ísland hefur breyst mikið á skömmum tíma, m.a. vegna innflutnings á fólki sem að miklu leyti má rekja til breytinga í atvinnulífi þjóðarinnar, t.d. uppgangs ferðaþjónustu. Hvernig horfa útlendingamál og löggæslumál við sósíalistum?
„Kerfið þarf auðvitað að vera byggt á mannúð og að við séum að skoða hlutina í samhengi. það eru mjög margir að flýja hræðilegar aðstæður í heimlandi t.d. vegna stríðs, vegna loftslagshörmunga og ýmissa þátta og það er mjög eðlilegt að skoða í samhengi við það og Ísland vill vera hluti af þessu stærra alþjóðasamfélagi og okkur finnst eðlilegt að mannúð sé leiðandi í því hvernig þessum málum er háttað,“ segir Sanna Magdalena.
„En af því að þú talaðir um ferðamenn, í umræðu ráðandi stjórnvalda um álag á innviði þá er svona eins og stjórnvöld vilji, og sérstaklega hægra megin í stjórnmálaflokkakerfinu, tala um að þau sem sæki hér um alþjóðlega vernd séu að setja álag á kerfið, sem er alls ekki rétt. Álagið er vegna þess að stjórnvöld hafa ekki sinnt hlutverki sínu í að byggja upp þessa innviði í gegnum árin og þá finnst manni athyglisvert að tala um fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim, um tvær milljónir ár hvert, og það er svona gert ráð fyrir því að reyna að stækka þennan hóp sem heimsækir Ísland. En þetta setur líka álag á kerfið; þetta setur álag á vegakerfið, þetta setur álag á húsnæði sem er til staðar, eins og við sjáum með AirBnB ferðamannagistingu. Þegar við sjáum að húsnæði sem var byggt upp fyrir búsetu fjölskyldna og einstaklinga til lengri tíma fer í ferðamannagistingu þá sjáum við að svona ferðamálastefna er ekki beint að hafa jákvæð áhrif á innviðina, myndi ég segja.“
Sanna Magdalena segist ekki hafa áhyggjur af því að við höfum tekið á móti of mörgum hælisleitendum eða flóttafólki. Ef tölur séu skoðaðar komi í ljós að á undanförnum árum hafi orðið fjölgun sem tengist Úkraínu og eðlilegt sé að við tökum þátt í því að taka á móti fólki sem flýi þær hörmungar. „Tala þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hefur ekki farið gríðarlega vaxandi milli ára ef við tökum þennan hóp frá. Ég myndi segja að það sem er mikilvægast í þessu öllu er að vera með stefnu og vera tilbúin til að geta tekið á móti fólki með fjölbreyttan bakgrunn.“