Ef miða á við skoðanakannanir undanfarið er hugsanlegur möguleiki að Samfylkingin og Miðflokkurinn gætu myndað tveggja flokka stjórn eftir kosningar. Miðað við kannanir er þetta eina mögulega tveggja flokka stjórnarmynstrið.
Páll Magnússon, íhlaupastjórnandi þáttarins Sprengisandur, á Bylgjunni, var með formenn beggja flokka í viðtali í morgun og spurði þau hvort þau gætu hugsað sér að vinna saman eftir kosningar. Hvorugt útilokaði það.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri styttra á milli margra flokka en þessara tveggja og minnti á að formenn þeirra hefðu setið saman í ríkisstjórn, er Sigmundur Davíð var formaður Framsóknarflokksins. Það væri styttra á milli Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins en Miðflokksins og Samfylkingarinnar. En Kristrún útilokaði ekkert. Hún sagði að það væri þjóðarinnar að ákveða hvað kæmi upp úr kjörkössunum.
Páll spurði Sigmund Davíð, formann Miðflokksins, hvort styttra væri á milli þessara flokka en virtist. Sigmundur hafði áður nefnt til sögunnar þá Pétur Blöndal og Ögmund Jónasson, sem dæmi um menn úr öðrum flokkum sem hann hefði vel getað hugsað sér að vinna með í ríkisstjórn, vegna þess að þeir hafi báðir lagt áherslu á innihald umfram umbúðir og ímynd.
Sigmundur sagði þetta allt velta á því hvers konar Samfylking birtist okkar eftir kosningar. Hann sagðist ekki vita hvort Kristrún hefði breytt stefnu Samfylkingarinnar en hún hefði breytt umræðunni. Hann sagði Kristrúnu hafa nálgast sum mál af skynsemi en hann viti ekki hvort hún ein og sér geti breytt stefnu flokksins. Miðflokkurinn tali fyrir skynsemishyggju.
Páll benti á að bæði Kristrún og Sigmundur Davíð væru praktískir stjórnmálamenn og þau neituðu því ekki.