Þeir verða seint kallaðir vinir, Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins, og Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri. Það kemur Vilhjálmi lítið á óvart, enda telur hann seðlabankastjóra vera í nöp við vinnandi stéttir Íslands, nokkuð sem hafi sannað sig á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku. Vilhjálmur skrifar færslu á Facebook um „uppistand“ seðlabankastjóra á ráðstefnunni.
„Á síðasta fimmtudag var seðlabankastjóri með uppistand á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og eins og svo oft áður þá gat hann ekki setið á sér með að hnjóða í verkalýðshreyfinguna.
Ég skal fúslega viðurkenna að ég er alveg ónæmur fyrir gagnrýni frá seðlabankastjóra enda virðist honum vera einstaklega í nöp við vinnandi stéttir þessa lands sem hafa gegnum marga áratugi þurft að búa við okurvexti fjármálakerfisins. “
Vilhjálmi þótti þó undarlegt að seðlabankastjóri hafi gagnrýnt verkalýðshreyfinguna fyrir óhóflegar launahækkanir, fyrir framan fullan sal af fulltrúum sveitarfélaganna. Enda liggi fyrir að sveitarfélögin beri mun meiri ábyrgð á verðbólgunni en verkalýðurinn.
„Sveitarfélögin bera stóra ábyrgð á 49% af verðbólgunni sem nú ríkir á Íslandi. Ef skoðað er 10 ár aftur í tímann eru 42% af verðbólgunni knúin áfram vegna hækkunar á húsnæðisliðnum.“
Allir viti að húsnæðisliðurinn sé einn helsti drifkraftur verðbólgunnar. Að sama bragði viti allir að framboðsskortur á lóðum hafi keyrt upp fasteignaverð, en á því beri sveitarfélögin beina ábyrgð. Án húsnæðisliðar sé verðbólga í dag aðeins 2,8%.
„Nei, hann nefndi þetta vart en var með „brandara“ um launahækkanir og það þrátt fyrir að eini aðilinn í íslensku samfélagi sem hefur verið tilbúinn að leggja eitthvað á sig til að ná niður verðbólgu sé verkalýðshreyfingin með því að gera langtíma kjarasamninga með hófstilltum launahækkunum.
Já, þetta var uppistand hjá seðlabankastjóra sem Ari Eldjárn hefði verið stoltur af enda var seðlabankastjóri með „salinn“ með sér og þarna voru 500 viðhlæjendur en það sorglega í þessu öllu saman var að hann hefði klárlega átt að beina spjótum sínum að sveitarstjórnarfólkinu sem ber ábyrgð á því að lóðaverð (heimilisskattur) hefur hækkað úr 4% af byggingarkostnaði í tæp 21% sem síðan hefur keyrt verðbólguna upp eins og áður sagði.“
Eins hefði Ásgeir mátt taka fyrir Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs. Hún hafi tengt verðskrár bæjarins við launavísitölu, sem er að mati Vilhjálms galið og til þess fallið að hafa alvarlegar afleiðingar ef önnur sveitarfélög leika þetta eftir. Eða gagnrýnt Orkuveitu Reykjavíkur fyrir að hafa hækkað rafmagn með flutningskostnaði um 27% frá áramótum á sama tíma og félagið greiddi 6 milljarða í arð til eigenda sinna.
„Magnað að seðlabankastjóri hafði svo sannarlega kjörið tækifæri til að skjóta föstum skotum á sveitarstjórnir hvað varðar lóðaverð, gjaldskrárhækkanir og að taka 94% af hagnaði til sín í formi arðgreiðslna en hann kaus frekar að vera með uppistand um launahækkanir hinna vinnandi stétta.
Málflutningur seðlabankastjóra er ekki trúverðugur enda nefnir hann ekkert hvaða áhrif okurvextir hafa á fjármagnskostnað fyrirtækja en 2% hækkun á vöxtum kosta fyrirtækin 68 milljarða sem er álíka mikið og kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði kostuðu!“