fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024
Eyjan

Hann býr á leynilegum stað og hefur ekki verið ljósmyndaður síðan 1981 – Dælir peningum í Donald Trump

Eyjan
Miðvikudaginn 2. október 2024 03:14

Pósthúsið í Saratoga þar sem Mellon er með pósthólfið sitt. Mynd: Google Street View

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pósthúsið er í Saratoga, sem er lítill bær úti á sléttunni í Wyoming í Bandaríkjunum. Það er flatt þak á byggingunni, einfaldar glerdyr og bandaríski fáninn er við hún fyrir framan bygginguna. Það er svo sem ekkert sem bendir til að þessi bygging sé merkilegri en aðrar en það er hún að ákveðnu leyti.

Það er hér sem erfingi eins mesta fjölskylduauðsins í Bandaríkjunum er með pósthólf. Hann býr í nágrenningu en ekki er vitað með vissu hvar, að minnsta kosti er sú vitneskja ekki opinber.

Það er líka ákveðinn ráðgáta hvernig maðurinn lítur út. Hann er 82 ára og það er bara til ein ljósmynd af honum á Internetinu. Hún var tekin 1981.

Þessi feimni milljarðamæringur heitir Timothy Mellon. Enginn hefur gefið meira í kosningasjóð Donald Trump en hann.

Samtökin Open Secrets, sem fylgjast með fjárframlögum til stjórnmálamanna og flokka í Bandaríkjunum, segja að Mellon hafi gefið rúmlega 100 milljónir dollara í kosningasjóð Trump fram að þessu. Hann ber höfuð og herðar yfir aðra þegar kemur að framlögum í kosningasjóðinn.

Hann er þó ekki eini milljarðamæringurinn sem dælir fé í kosningasjóð Trump því samkvæmt samantekt Forbes Magazine þá styðja að minnsta kosti 26 milljarðamæringar Trump.

En víkjum aftur að Mellon. Auður hans er kominn frá afa hans, Andrew Mellon, sem var bankastjóri, iðnjöfur, Repúblikani og fjármálaráðherra Bandaríkjanna frá 1921 til 1932. Hann var einn auðugasti maður Bandaríkjanna á sínum tíma.

Timothy Mellon, sem forðast sviðsljósið og heldur sig mest á búgarði sínum í Wyoming, hefur sjálfur hagnast vel á rekstri járnbrautalesta. Auður hans er talinn vera um einn milljarður dollara.

Hann dró sig í hlé frá viðskiptalífinu fyrir tveimur árum og seldi þá fyrirtæki sín.

Það er hægt að fá örlitla innsýn í líf hans og skoðanir með því að lesa sjálfsævisögu hans „Panam Captain“, sem hann hefur sjálfur gefið út í nokkrum útgáfum síðan á níunda áratugnum.

Í henni segir hann meðal annars að Bandaríkjamenn, sem þiggja aðstoð frá hinu opinbera, endi sem „þrælar ríkisins“ og að þrátt fyrir „hetjulegar tilraunir kerfisins til að bæta fyrir syndir fortíðarinnar“ þá séu svartir Bandaríkjamenn orðnir enn vígreifari og óviljugri til að gera eitthvað til að bæta stöðu sína.

Mellon er einnig þekktur fyrir að vera mjög upptekinn við leit að flugkonunni Amelia Earhart sem hvarf 1937. Á spjallvefum, þar sem rætt er um hvarf hennar, hefur Mellon oft líkt loftslagsvísindamönnum við hryðjuverkamenn og kallað innflytjendur „asna“.

The Washington Post segir að Mellon sé svo feiminn og hlédrægur að meira að segja ráðgjafar Trump viti ekki hvernig hann lítur út og að hann hafi gefið peningana í kosningasjóðinn án þess svo mikið sem að funda einu sinni með Trump eða framboðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gunnarsson: Brjóta hefði átt upp stjórnarsamstarfið 2021 – aftur tækifæri þegar Katrín sagði af sér

Jón Gunnarsson: Brjóta hefði átt upp stjórnarsamstarfið 2021 – aftur tækifæri þegar Katrín sagði af sér
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðbrandur Einarsson skrifar: Vinnuþrælar verðbólgunnar

Guðbrandur Einarsson skrifar: Vinnuþrælar verðbólgunnar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir