fbpx
Sunnudagur 10.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Það er síminn til þín 

Eyjan
Sunnudaginn 8. september 2024 15:00

DBH 1001 frá Ericsson úr undraefninu bakelit var fyrst kynntur 1931 og gjarnan nefndur bakelittelefonen. Hann var hannaður í samstarfi Ericsson og ríkissímafélaganna í Svíþjóð og Noregi og framleiddur í meira í þrjá áratugi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mér var kennt á sínum tíma að kveikjan að nýyrðinu sími væri ævafornt orð í málinu, hvorugkynsorðið síma, sem merkti þráður eða band. Það er skylt sime í nýnorsku sem merkir reipi eða taug, simme sem er áþekkrar merkingar í sænskum mállýskum og sime er merkir reipi í dönsku. Band var í fornsaxnesku kallað sîmo og í fornensku sîma. Hið eldgamla orð hefði hér verið endurvakið, enda augljós tenging við þráð og band. 

Nú hef ég hugsanlega helmingað fjölda mögulegra lesenda þessa pistils með tilgangslausu þvaðri um orðsifjar, en hvað um það. Ég var að garfa í 2. hefti tímaritsins Stíganda frá árinu 1943 og rakst þar á bréf eða greinarkorn eftir Sigurð Guðmundsson, skólameistara á Akureyri. Þar segir hann frá því að sinn gamli lærifaðir, Pálmi Pálsson, kennari við Lærða skólann, eigi heiðurinn að orðinu sími sem þýðingu á alþjóðaorðinu Telegraf. Pálmi hafi ráðið því að orðið var tekið upp í Ný-danska orðabók séra Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili sem gefin var út árið 1896. Í bókinni birtist urmull nýyrða, þar á meðal mörg glæný og varla nokkuð þekkt. Sagt var að sumum menntamönnum og embættismönnum í Reykjavík hafi fundist nóg um ýmsar nýgervingar bókarinnar og því fleygt að setja þyrfti saman bók til þýðingar á þessari. 

Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar, gaf bókina út en áðurnefndur Pálmi Pálsson og Steingrímur Thorsteinsson, skáld og samkennari hans við Lærða skólann, yfirfóru handritið undir prentun og lagfærðu sitthvað. Björn ritaði formálann og minnist þar á orðið síma og segir þá félaga hafa lagt til að þetta orð yrði tekið upp í íslensku og látið merkja Telegraf. Björn skrifar þar að fyrri tilraunir til þýðingar væru „hver annarri lakari“, svo sem fréttaþráður, fréttafleygir, málþráður, endariti og þar fram eftir götunum. Gefum nafna mínum orðið: 

„Höfum vér eigi hikað við að stinga þar upp á alveg nýju orði, þótt vér göngum að því vísu, að ýmsir muni tjá sig „eigi kunna við það“. Orð þetta hefir þá kosti fram yfir „þráður“ og samsetningar af því orði, að vegna þess að það er nú lítt tíðkað í málinu, þá ríður það ekki í bága við aðrar merkingar, eins og orðið „þráður“ gerir svo meinlega: að það er mjög hljómþýtt: að það er einkar vel lagið til afleiðslu og samskeytinga.“ 

Að sama skapi lögðu þeir til sagnorðið að síma sem væri þá hliðstætt við það sem í ensku væri kallað to wire. „Mímí má síma í Milla,“ las ég í Gagni og gamni fyrir óralöngu en þar er raunar átt við fyrirbærið telefón sem kom síðar til landsins og segir sitt um sigurför símans að hann sé látinn ná yfir hvoru tveggja — og meira að segja þráðlausa síma líka! 

Björn Jónsson minnist ekkert á að orðið sé sótt í forntunguna. Sigurður kennir því um að Björn hafi ekki verið jafnfróður um orðsifjar og Pálmi Pálsson. Skólameistarinn að norðan vísar síðan til samtals við sinn gamla læriföður Pálma sem hefði haft á orði hversu vel þessi þýðingartilraun hefði heppnast og nýyrðið fljótt notið vinsælda. Það eru orð að sönnu og þremur áratugum síðar yrkir Tómas „að jafnvel gamlir símastaurar syngja / í sólskininu og verða grænir aftur“ svo orðið ratar meira að segja inn í hinn besta skáldskap. 

En orðið í fornmálinu sem þarna er vísað til er fjarska ólíkt símanum. Það er í hvorugkyni, í nefnifalli eintölu síma, í fleirtölu símu og beygist veikri beygingu eins og orðið auga. Sigurður „þykist muna“ að Pálmi hafi minnst á það við sig að „sér hefði virst það orðinu vænlegra til sigurs og gengis, að hafa það karlkyns“. Þarna er nú gerður allnokkur fyrirvari.“

Ég hef aldrei fellt mig við þessar skýringar á uppruna orðsins sími og lestur bréfs Sigurðar skólameistara gerir mig enn fráhverfari því að síminn sé ævaforn. Hvernig getur þetta eiginlega verið sama orðið, hvorugkynsorðið síma, í fleirtölu símu, annars vegar og karlkynsorðið sími, í fleirtölu símar hins vegar? Getur ekki verið að orðið eigi einhvern annan uppruna? Eru þessi tengsl orðanna ekki bara eftiráskýringar? 

Siemens Brothers 

Í Þjóðólfi 1. september 1899 birtist lesendabréf frá Frímanni B. Andersen rafmagnsfræðingi, ritað í París hálfum mánuði fyrr (sem sýnir að póstþjónustan gat verið talsvert fljótvirkari á þeim tíma en nú er). Frímann skrifar um fyrirhugaðan ritsíma til Íslands og birtir orðrétt efni bréfs frá Siemens Bros & Co. í Lundúnum sem hann segir „eitt stærsta og áreiðanlegasta ritsímafélag“ þar í borg. Í Fjallkonunni nokkrum dögum fyrr er vísað til bréfs „stórsímafélagsins Siemens Brothers“. 

Frímann var Eyfirðingur en hafði snemma farið við Vesturheims og dvalið þar um tveggja áratuga skeið, lagt stund á rafmagnsfræði við Manitoba-háskóla og sýndi því mikinn áhuga að Reykvíkingar réðust í virkjun Elliðaánna. Í Fjallkonunni 4. desember 1895 var líka sagt frá því að Frímann hefði komið hingað til lands með tilboð frá erlendum rafmagnsfélögum um raflýsingu Reykjavíkur. Eitt þessara tilboða hefði borist frá „heimsfrægu félagi“, Siemens & Halske í Berlín, en innifalið í því var hvort tveggja raflýsing og rafhitun bæjarins. 

Í Fjallkonunni 11. desember 1895 er líka minnst á tilboð frá áðurnefndu fyrirtæki, Siemens Bros. & Co. í Lundúnum, um að selja öll áhöld til raflýsingar og rafhitunar í Reykjavík sem nemi þúsund hestöflum fyrir 225 þúsund krónur. Raunar var um að ræða rafvæðingu í þessu tilfelli en Siemens Brothers voru einnig umsvifamiklir í lagningu sæsímastrengja. Allt um það, þarna er Siemens komið inn í umræðuna hér heima og árið eftir birtist orðið sími í orðabók séra Jónasar frá Hrafnagili eins og áður nefndi. 

Sími festist í sessi á næstu misserum um það fyrirbæri sem kallað var Telegraf og í frásögn í Skírni af Búastríðinu 1896 er minnst á ritsímann. Í blaðinu Íslandi 26. júní 1897 birtist orðið ritsími á prenti og Telegraf innan sviga og þar er líka getið um telefón og það þýtt sem hljóðberi. Í sama blaði 7. júní 1896 hafði komið fyrir orðið raddsími um hljóðbera. Enn höfðu þó einhverjir efasemdir um nýyrðið og í Fjallkonunni er 1. október 1898 segir að Telegraf gangi undir ýmsum nöfnum, svo sem rafsegulþráður, hraðfréttaþráður, málþráður, fréttafleygir, fréttaþráður, ritþráður og þannig mætti áfram telja. Höfundur forsíðugreinar blaðsins leggur til að einfaldlega verði notað hið útlenda orð Telegraf „eins og allar aðrar þjóðir hafa gert, og eins „telefón“, og svo mundu forfeður vorir líka hafa gert á gullöld íslenskunnar“. 

Tökuorð og hljóðlíkingar 

Sigurður skólameistari orðaði það í svo í áðurnefndu bréfi eða greinarkorni að orðið sími væri „ein gersemi vorrar öldnu og tignu tungu“. Tilkoma þess yki trúna á mátt tungumálsins til að tákna ný hugtök, ný menningartæki, nýjar hugsanir og sálræn blæbrigði. Orðið sýndi að í „fornum fjörugróðri tungu vorrar“ mætti enn finna lífræn orð sem láta mætti „merkja sitt hvað, er menning og tækni vorra daga þarfnast heita á“.  

En ég ætla sem sagt að setja fram þá tilgátu að síminn sé fjarri því „forn fjörugróður“ heldur tökuorð, dregið af Siemens — rétt eins og orðið jeppi sem er komið af tegundarheitinu Jeep og gemsi í merkingunni farsími, sem er hljóðlíking af skammstöfuninni GSM (e. Global System for Mobile Communications). Það gæti stutt við tilgátuna um að síminn sé dreginn af nafni Siemens-bræðra að Pálmi Pálsson er höfundur tökuorðsins skáti. Helgi Tómasson, yfirlæknir Kleppsspítala og skátahöfðingi Íslands, var í fyrsta skátaflokknum á Íslandi árin 1911–1912. Hann sagði frá því í grein í jólablaði Skátablaðsins 1946 að þeir, þessir fyrstu skátar á Íslandi, hefðu leitað til Pálma um hvaða nafn þeir ættu að nota yfir það sem kallað var Spejder á dönsku og scout á ensku. Daginn eftir rakst Helgi á Pálma sem sagði eitthvað á þessa leið:  

„Hvers vegna ekki nefna ykkur skáta? Þessi erlendu orð eru oft notuð í nýrri merkingu í þessu sambandi. Við búum til nýtt orð, skáti. Það fer vel í íslensku, bæði eitt út af fyrir sig og í sambandi við önnur orð, eins og skátabók, skátablað, skátahnífur o.s.frv. Þið kallið ykkur skáta.“ 

Þetta er svipuð hugsun og birtist í inngangi orðabókarinnar frá 1896 um orðið sími. Ef til vill er síminn tökuorð eða hljóðlíking úr smiðju Pálma, líkt og skátarnir. Hvort tveggja fyrirtaksorð. Sé þetta rétt er vitaskuld allur ljómi farinn af sögunni um endurheimt hins forna orðs, en hvað sem því líður þá eru þess vitaskuld ýmis dæmi að tekist hafi að vekja forn orð til lífsins og nægir þar að nefna skjá (gagnsæ himna) yfir það sem framan af var nefnt skermur á sjónvarpi og síðar tölvum. 

Pálmi Pálsson lét sér einlæglega annt um hreinleik tungunnar. Sigurður skólameistari kvað hann hafa verið sírannsakandi hvað teljast mætti „góð og gild íslenska, hvað væri rangmæli og málleysur“. Við þyrftum miklu fleiri slíka menn á okkar tímum, menn með djúpa þekkingu á móðurmálinu sem keppa að málvöndun, en vita samt sem er að aðflutt orð (og lítillega breytt) geta í sumum tilfellum orðið gjaldgeng í íslenskunni, jafnvel unnið sér slíkan þegnrétt að halda mætti að þau ættu sér ævafornar norrænar rætur. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sisona

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sisona
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins
EyjanFastir pennar
28.09.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: 23. september 1241

Óttar Guðmundsson skrifar: 23. september 1241
EyjanFastir pennar
27.09.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun