Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að ef vantrausti verði lýst á hendur Svandísi með atkvæðum eða hjásetu stjórnarþingmanna sé ólíklegt að ríkisstjórnin lifi það af.
Líklegt er talið að vantrauststillagan verði tekin fyrir á morgun eða miðvikudaginn. Segir Morgunblaðið ómögulegt að segja fyrir um afdrif hennar. Þau muni hugsanlega ráðast af hverjir láta hjá líða að greiða atkvæði, nú eða þá hverjir greiða atkvæði með eða á móti.
Bendir blaðið á að sú staða sé uppi að ekki sé víst að ráðherrar og aðrir stjórnarliðar lýsi yfir trausti á ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hins vegar sé heldur ekki víst að stjórnarandstaðan muni öll greiða atkvæði með vantrausti.
Segir blaðið víst að ekki geti allir stjórnarþingmenn hugsað sér að verja Svandísi vantrausti og muni sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. Ef vantrausti verði lýst á hana með stuðningi eða hjásetu stjórnarþingmanna sé ólíklegt að ríkisstjórnin lifi það af.